Eins og kom fram í síðustu viku hefur Árni Ísaksson lagt hanskana á hilluna. Af því tilefni er hann Goðsögnin þennan föstudag.
Árni Ísaksson er einn af fyrstu Íslendingunum til að keppa í MMA og er aðeins einn af tveimur Íslendingum til að eiga langan feril sem atvinnumaður í íþróttinni. Hann byrjaði að æfa MMA 21 árs gamall og átti langan og farsælan feril. Hann hefur sigrað sterk nöfn, menn sem barist hafa í UFC, sigrað titla í Evrópu og mun eiga stóran þátt í að móta komandi kynslóðir bardagamanna.
Upphafið
Eftir að hafa séð UFC spólur hjá vini sínum hófst draumurinn um að verða atvinnumaður í MMA. Áður en hann byrjaði í MMA var hann í frjálsum íþróttum í tvö ár, æfði körfubolta í hálft ár og var einnig í samkvæmisdönsum. Hann stundaði einnig hjólabretti af miklum krafti en þegar hann fann Muay Thai fleygði hann öllum öðrum áhugamálum af borðinu og einbeitti sér bara að Muay Thai.
Eftir að hafa barist sex bardaga í Muay Thai (fimm sigrar og eitt tap) snéri hann sér að MMA.
Einkenni
Grjótharður! Árni var alltaf þekktur fyrir að vera gríðarlega harður og gafst aldrei upp. Hann var líka árásargjarn og með mikinn kraft í höndunum. Hann notaði einnig skrokkhöggin vel þar sem hann hafði mikla trú á þeim. Árni var líka góður á öllum vígstöðum bardagans.
Stærstu sigrar
Þann 5. mars 2006 sigraði Árni 8-manna útsláttarmót í Cage Warriors samtökunum. Árni sigraði þrjá bardaga sama kvöldið og þar á meðal UFC reynsluboltann Dennis Siver í úrslitunum og einnig Jeff Cox sem átti síðar eftir að berjast í UFC.
Þá eru sigrarnir hans um titlana hans tvo stórir. Árni sigraði Magomed Saadulaev um ProFC beltið árið 2010 og tryggði sér veltivigtartitil Cage Contender með sigri á Wayne Murrie.
Verstu töp
Versta tap Árna á ferlinum er sennilega tapið gegn Ali Arish um veltivigtartitil Cage Contender. Þetta var fyrsta titilvörn Árna og jafnframt síðasti bardagi hans á ferlinum. Arish er sterkur glímumaður og tókst að taka Árna niður og halda honum niðri mest allan bardagann. Þá var Árni einnig kýldur niður tiltölulega snemma í bardaganum og voru þetta því erfiðar þrjár lotur fyrir okkar mann.
Fáir vita
Árni er góður rappari og hefur nokkrum sinnum troðið upp á skemmtunum hjá Mjölni.
Árni horfði mikið á Van Damme myndir eins og Kickboxer á sínum tíma. Á þeim tíma var Árni að reyna að herða á sér sköflunginn líkt og þekkist í Muay Thai en það gerði hann með því að slá ítrekað í sköflunginn á sér með priki. Að eigin sögn var hann í ákveðnum „pain pakka“ þegar hann var svona 16-17 ára gamall. Þá var hann klikkaðastur en róaðist upp úr tvítugu.
Hvar er hann í dag?
Eins og kom fram í viðtali okkar við hann er hann að þjálfa Keppnislið Mjölnis í MMA í dag. Þar mun hann deila úr viskubrunnum sínum fyrir upprennandi bardagamenn þjóðarinnar.
Árni Ísaksson VS Wayne Murrie, Cage Contender. beltið lenti hjá Árna! (2012) from Mjolnir MMA on Vimeo.