Wednesday, September 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGoðsögnin: Frank Shamrock

Goðsögnin: Frank Shamrock

frank ShamrockGoðsögnin í dag er Frank Alisio Juarez, betur þekktur sem Frank Shamrock. Shamrock vann titla í UFC, Strikeforce, WEC og var einn besti bardagamaður heims þegar enginn horfði á MMA.

Frank Alisio Juarez fæddist þann 8. desember 1972 í Kaliforníu og flakkaði mikið á milli fósturheimila sem barn. Hann komst ítrekað í kast við lögin þangað til hann flutti á búgarð Bob Shamrock. Bob tók að sér hundruði stráka sem voru í svipuðum málum og Frank. Frank var á endanum ættleiddur af Bob og tók upp eftirnafnið Shamrock.

Frank varð léttþungavigtarmeistari UFC (það var samt 185 punda flokkur svo tæknilega séð var hann millivigtarmeistari) með sigri á Kevin Jackson eftir aðeins 16 sekúndur árið 1997. Lengi vel var þetta fljótasti titilbardagi í sögu UFC þangað til Ronda Rousey og Conor McGregor bættu metið.

Frank varði beltið sitt fjórum sinnum áður en hann ákvað óvænt að hætta í UFC. Frank lét því beltið af hendi og barðist aldrei aftur í UFC. Hann hélt síðan áfram að keppa í MMA og varð léttþungavigtarmeistari WEC og millivigtarmeistari Strikeforce.

Frank Shamrock var svo óheppinn að vera einn af bestu bardagamönnum heims, pund fyrir pund, þegar afar lítið áhorf var á MMA eða á svo kölluðum myrku öldunum. Þegar Frank átti sín bestu ár í UFC voru áhorfstölur UFC þær verstu í sögu bardagasamtakanna.

Upphafið

Frank æfði aldrei bardagaíþróttir sem krakki en lærði eflaust helling sem götubarn í vandræðum. Einn af eldri strákunum á fósturheimilinu var Ken Shamrock. Báðir eru þeir ættleiddir og því ekki blóðskyldir bræður. Ken hóf að þjálfa Frank í uppgjafarglímu og fylgdi Frank eldri bróðir sínum í MMA.

Frank tók sinn fyrsta MMA bardaga í desember 1994 gegn engum öðrum en Bas Rutten. Shamrock kom gríðarlega á óvart og sigraði Rutten eftir dómaraákvörðun. Frank barðist fyrstu 18 MMA bardaga sína í Japan og fóru flestir bardagarnir fram í Pancrase bardagasamtökunum. Þar voru þó reglurnar aðeins öðruvísi en þekkist í hefðbundnu MMA en þar mátti m.a. ekki slá með lokuðum hnefa og voru engir hanskar.

frank shamrock

Einkenni

Frank Shamrock notaði glímuna mest framan af á ferlinum en eftir að hann kynntist sparkboxaranum Maurice Smith varð hann betri á öllum vígstöðum bardagans. Smith kenndi Frank sparkbox og Frank kenndi Smith glímu. Smith sýndi Frank einnig fram á notagildi þolæfinga sem var mikilvægur þáttur í ferli Frank. Stíll Frank á þeim tíma snérist um að þreyta og brjóta andstæðinginn niður. Það sem einkenndi hann út ferilinn var mikill sprengikraftur en var alltaf með þennan „pancrase stíl“.

Frank var líka ákveðinn frumkvöðull í búrinu og gerði hluti sem fáir höfðu séð á þeim tíma. Hann var tæknilega góður bardagamaður en líka frábær íþróttamaður með mjög gott þol. Margir fylgdu fordæmi Frank og gerðu bæði styrktar- og þolæfingar og tæknilegar æfingar líkt og Frank. Upphafið að nútíma bardagamanninum má því að mörgu leiti rekja til Frank Shamrock.

frank shamrock bas rutten

Stærstu sigrar

Fyrsti sigur hans kom honum svo sannarlega á kortið. Það var gegn fyrrnefndum Bas Rutten í King of Pancrase útsláttarkeppninni í desember 1997. Frank átti eiginlega að vera upphitunarbardagi fyrir Rutten í útsláttarkeppninni en á þeim tíma var Rutten ágætlega þekkt nafn í Pancrase og mun stærri. Frank tókst hins vegar að sigra Rutten mjög óvænt.

Sigurinn á Tito Ortiz var einnig mjög flottur og besti bardagi ársins 1999. Ortiz var talsvert stærri en Frank í bardaganum en Frank var þolinmóður og leyfði Ortiz að þreyta sig út áður en hann kláraði hann seint í 4. lotu.

Verstu töp

Tapið gegn Nick Diaz er sennilega hans versta á ferlinum. Það var síðasti bardaginn hans á ferlinum og þó bardaginn hafi verið ágætis skemmtun kom bersýnilega í ljós að Shamrock ætti ekkert erindi við topp bardagamenn lengur. Diaz var of góður og Shamrock orðinn of gamall.

Fáir vita

Frank Shamrock mætti Jeremy Horn í aðalbardaganum á UFC 17. Á UFC 17 spólunni var bardaginn hins vegar ekki á spólunni þrátt fyrir að hafa verið aðalbardagi kvöldsins. Bardaginn var þess í stað gefinn út á UFC Night of Champions spólunni.

Frank átti að mæta Kasuzhi Sakuraba á Pride 10 en Renzo Gracie var valinn fram yfir Frank. Sakuraba endaði svo á að brjóta hönd Renzo eins og frægt er. Frank var hins vegar boðið að mæta heimsmeistaranum Wanderlei Silva í Dynamite 2002 með þriggja daga fyrirvara en hafnaði boðinu. Frank barðist því aldrei í Pride.

Aðeins einn af fyrstu 26 bardögum hans fór út fyrir fyrstu lotu. Á þessum tíma voru þó ekki hefðbundnar fimm mínútna lotur eins og þekkist í dag og því er þetta eilítið blekkjandi staðreynd.

Hvar er hann í dag?

Frank var um tíma lýsandi hjá Strikeforce og var ágætur sem slíkur. Hann hefur lítið starfað sem lýsandi síðan Strikeforce var lagt niður og býr í San Jose ásamt eiginkonu sinni Amy. Shamrock er í dag með nokkra bardagaklúbba, nokkur fyrirtæki og er með sérstök námskeið fyrir lögreglumenn.

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular