spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGoðsögnin: Randy Couture

Goðsögnin: Randy Couture

MMA Champion Randy Couture Portrait SessionGoðsögnin þennan föstudag er enginn annar en Randy Couture. Couture á fjöldan allan af metum sem er ótrúlegt miðað við hversu seint hann kom í íþróttina.

Randy Duane Couture fæddist 22. júní 1963. Hann var sá fyrsti í UFC til að vinna titil í tveimur þyngdarflokkum í UFC en aðeins tveimur mönnum hefur tekist það (hinn er BJ Penn). Hann glímdi á skólaárum sínum með góðum árangri og eyddi einnig sex árum í bandaríska hernum.

Couture var þrívegis þungavigtarmeistari UFC, tvisvar léttþungavigtarmeistari og einnig bráðabirgðarmeistari (e. interim champion). Hann keppti í 15 titilbardögum (sem er met) og er sá eini sem hefur unnið UFC titil eftir fertugt. Hann reyndar vann fjóra titla eftir fertugt og er einn af fáum sem hefur endurheimt titil eftir að hafa tapað honum en það gerði hann þrisvar. Hann átti svo sannarlega góðan feril og kom sífellt á óvart.

Upphafið

Randy Couture var afar góður glímumaður áður en hann fór í MMA. Hann var þrívegis varamaður í bandaríska Ólympíuliðinu í Grísk-Rómverskri glímu en náði þó aldrei að keppa á sjálfum leikunum. Þá var hann þrefaldur „All-American“ (á topp átta í sínum þyngdarfloki á landsvísu) í bandarísku háskólaglímunni.

30. maí 1997 barðist Couture sinn fyrsta MMA bardaga á UFC 13. Þá 33 ára að aldri sigraði hann tvo bardaga sama kvöld sem gaf honum bardaga gegn 19 ára nýstyrninu Vitor Belfort. Couture sigraði Belfort með tæknilegu rothöggi sem þóttu gríðarlega óvænt úrslit. Þar með var Couture kominn til að vera í MMA.

Einkenni

Randy Couture var alltaf gríðarlega sterkur í „clinchinu“. Hann hélt mönnum þétt við búrið þar sem hann notaði „dirty boxing“ afar vel. Hann var auðvitað með frábærar fellur upp við búrið og í gólfinu var hann með þung högg sem braut andstæðinga hans niður. Hann var sérstaklega góður ofan á í „half-guard“ þar sem hann raðaði inn höggunum. Ekkert flókinn stíll en erfiður að eiga við.

randy couture

Stærstu sigrar

Stærstu sigrarnir eru ansi margir. Hann vann þungavigtarbeltið fyrst árið 1997 með sigri á Maurice Smith. Sigrarnir á Pedro Rizzo voru flottir en fyrri bardaginn var valinn besti bardagi ársins 2001. Sá stærsti er þó sennilega sigurinn á Chuck Liddell um léttþungavigtarbeltið árið 2003. Sá sigur kom gríðarlega á óvart en þar með varð hann sá fyrsti í sögunni til að vinna belti í tveimur þyngdarflokkum. Sigurinn á Tito Ortiz var einnig magnaður en það var fyrsta tap Ortiz í þrjú og hálft ár. Þá verður að minnast á sigurinn gegn Tim Sylvia árið 2007. Randy Couture hafði hætt árið áður en snéri aftur, og þá í þungavigt, þar sem hann gjörsigraði þungavigtarmeistarann Sylvia og varð enn og aftur meistari. Sylvia var tæpum 20 kg þyngri. Svo oft hefur hann komið aftur og tekið belti þegar allir höfðu afskrifað hann. Síðasti titilbardaginn sem hann vann var sigur á Gabriel Gonzaga í ágúst 2007. Þá var Couture 44 ára gamall!

Couture bókstaflega flengir Tito Ortiz.

Verstu töp

Couture tapaði 11 bardögum á ferlinum en sex af þeim voru í titilbardögum. Enginn hefur tapað fleiri titilbardögum en Couture sem er vafasamt met að eiga. Chuck Liddell steinrotaði Couture á UFC 52 og tók léttþungavigtartitilinn af honum. Í síðasta bardaga hans á ferlinum var hann rotaður af Lyoto Machida með frægu karate-sparki. Það er rothögg sem enginn mun gleyma og er eflaust ekkert sérstök minning fyrir Couture. Leiðinlegur endir á ótrúlegum ferli. Þess má geta að 5.100 áhorfendur voru í salnum í fyrsta bardaga Couture árið 1997 en í hans síðasta bardaga voru 55.000 áhorfendur.

Fáir vita

Það má segja að barslagsmál hafi leitt Couture út í MMA. Couture og Dan Henderson lentu í áflogum við dyraverði á sínum tíma sem varð til þess að Couture fékk ekki þjálfarastöðu hjá bandaríska landsliðinu í Grísk-Rómverskri glímu. Hefði Couture fengið stöðuna hefði hann kannski aldrei farið í MMA.

Bæði sonur hans, Ryan, og fyrrum eiginkona, Kim, hafa keppt í MMA. Ryan Couture keppti í Strikeforce með góðum árangri en tapaði báðum sínum bardögum í UFC. Hann hefur nú unnið fjóra bardaga í röð og berst í Bellator. Kim Couture hefur ekki gengið sérlega vel í MMA en hún er með þrjá sigra og átta töp að baki.

Hvar er hann í dag?

Couture hætti loksins í MMA 47 ára að aldri. Í dag er Couture í Hollywood þar sem hann hefur það ágætt. Hann hefur leikið í öllum Expendables myndunum en hefur ekki verið að landa stórum hlutverkum upp á síðkastið. Hann var einnig þjálfari í Fight Master seríu Bellator (svipað og The Ultimate Fighter) en ósætti hefur ríkt á milli Couture og Dana White síðan Couture hætti. Til að mynda má Couture ekki vera viðstaddur á UFC bardagakvöldum Þá var Couture í þáttunum Dancing with the Stars þar sem hann datt tiltölulega snemma út.

https://www.youtube.com/watch?v=hRyuC1NzhvI

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular