Gunnar Nelson mætir Bandaríkjamanninum Alan Jouban á UFC bardagakvöldinu í London á laugardaginn. Það er mikil spenna fyrir bardagann en hér rýnum við vel í báða bardagamenn.
Veltivigt: Gunnar Nelson (15-2-1) gegn Alan Jouban (15-4)
Alan Jouban er 35 ára Bandaríkjamaður sem hefur verið í UFC í rúm tvö ár. Á þessum tíma hefur hann unnið sex bardaga og tapað tveimur en er sem stendur á þriggja bardaga sigurgöngu.
Jouban byrjaði í Muay Thai 23 ára gamall eftir að hafa áður spilað knattspyrnu. Hann skipti síðar yfir í MMA en Muay Thai er hans bakgrunnur og er hann bestur standandi.
Jouban er með tíu sigra eftir rothögg og sjö sigra í fyrstu lotu. Hann berst úr örvhentri stöðu og er vinstra sparkið hans besta vopn. Jouban er brúnt belti í brasilísku jiu-jitsu undir Eddie Bravo en þeir eru þekktir fyrir að nota mikið af óhefðbundnum uppgjafartökum. Jouban hefur aldrei tapað eftir uppgjafartak á MMA ferlinum.
Jouban æfir hjá Blackhouse í Los Angeles en þar hafa menn á borð við Anderson Silva, Lyoto Machida og Nogueira bræðurnir æft á einhverjum tímapunkti á ferlinum.
Jouban er 183 cm á hæð og þarf að taka af sér nokkur kíló í niðurskurðinum. Að sögn Jouban var hann 15 pundum yfir (6,8 kg) á mánudaginn, fjórum dögum fyrir vigtun.
Alan Jouban er hörku bardagamaður sem mun koma vel undirbúinn til leiks gegn Gunnari. Jouban mun sennilega reyna svo kallaða „stick and move“ leikáætlun gegn Gunnari; vera hreyfanlegur, halda sér frá Gunnari á milli þess sem hann sparkar eða kýlir í hann. Jouban var agaður gegn Mike Perry í sínum síðasta bardaga og notaði svipaða leikáætlun þá.
Standandi er Jouban með góð lágspörk sem hann notar til að sparka í annað hvort innanvert eða utanvert læri andstæðinganna. Lágspörk sem hitta í lærin draga úr sprengikraftinum í löppunum og eftir nokkur svona spörk verður öll fótavinna andstæðingsins erfiðari og hægari.
Jouban vill ekki lenda í „clinchinu“ með Gunnari og ætlar að halda sér frá honum með öllum leiðum. Í „clinchinu“ getur Gunnar náð fellu og það vill Jouban alls ekki. Jouban er með hættulega olnboga sem hann notaði t.d. til að rota Richard Walsh. Við höfum séð að Jouban beitir oft olnbogum í höfuð um leið og hann losar sig úr „clinchinu“. Það er eitthvað sem ber að varast.
Jouban hefur sagt að hann vilji leika sama leik gegn Gunnari og Rick Story gerði. Story vann Gunnar eftir dómaraákvörðun eftir fimm lotu stríð. Gunnar náði Story nokkrum sinnum niður í bardaga þeirra en Story stóð alltaf strax aftur upp. Jouban mun reyna að leika sama leik og ætlar ekki að spila jiu-jitsu við Gunnar í eina sekúndu.
Á milli þess sem Jouban heldur sér á hreyfingu frá Gunnari mun hann freista þess að rota Gunnar. Eins og áður segir er hann með gott vinstra spark og setur hann það vel upp. Jouban sparkar oft í magann og næsta spark með sömu löpp fer svo í höfuðið. Þetta er klassísk aðferð til að setja upp háspörk í höfuðið en eftir þungt spark í skrokkinn hafa menn oft tilhneygingu til að lækka vörnina (til að verja skrokkinn) á einu augnabliki sem gerir höfuðið opið.
Jouban virðist vera að gera allt sem hann getur til að undirbúa sig sem best fyrir Gunnar. Hann hefur verið að æfa með bræðrunum Lyoto og Chinzo Machida til að venjast karate stíl Gunnars. Stíll Gunnars standandi kom Tumenov í opna skjöldu og spurning hvort það komi Jouban jafn mikið á óvart.
Fyrir bardagann gegn Gunnari hefur Jouban verið að æfa með nokkrum svartbeltingum í jiu-jitsu sem setja hann í erfiðar stöður sem Jouban þarf að vinna sig úr. Jouban á von á því að lenda mögulega í slæmri stöðu í gólfinu gegn Gunnari en mun reyna eftir fremsta megni að vinna sig úr stöðunni Auk þess hefur hann lengi æft með glímuþjálfaranum virta Kenny Johnson sem hjálpar honum með felluvörnina sína.
Jouban hefur sagt að hann sé með lista yfir hluti sem hann þarf til að vinna Gunnar og er að tikka í boxin þar á hverjum degi.
Nokkrir hlutir til að hafa í huga fyrir bardagann
- Byrjar hægt: Alan Jouban á það til að byrja fremur rólega. Þó hann sé með þrjú rothögg í 1. lotu í UFC má sjá að hann tekur alltaf tvær mínútur til að finna taktinn og koma sér í bardagann.
- Harður: Jouban lenti í miklu basli á fyrstu mínútum bardagans gegn Warlley Alves en tókst að lifa af mjög aggressívar árásir frá Alves. Þá hefur hann verið kýldur niður nokkrum sinnum en náð að jafna sig. Auk þess braut hann á sér höndina í bardaganum gegn Belal Muhammad en lét það ekki hafa mikil áhrif á sig.
- Hægara sagt en gert að gera það sama og Story: Eins og áður segir ætlar Jouban að standa strax aftur upp um leið og hann er tekinn niður. Það er hægara sagt en gert en Story tókst það enda með flottan bakgrunn úr ólympískri glímu sem er eitthvað sem Jouban er ekki með.
Leið til sigurs: Jouban verður auðvitað að halda bardaganum standandi. Ef hann lendir í gólfinu þá verður hann að koma sér fljótt upp aftur, annars lendir hann í gólfglímu Gunnars sem er eins og kviksyndi. Jouban þarf að fara varlega standandi og má ekki vera of aggressívur því það gæti Gunnar nýtt sér til að skjóta inn í fellu. Jouban þarf að vera þolinmóður, agaður og vera duglegri að skora en Gunnar standandi. Mikið af lágspörkum (og þá sérstaklega ef Gunnar er ekki að svara spörkunum) gæti bæði skorað stig fyrir Jouban og dregið úr hraða og sprengikrafti Gunnars. Jouban þarf auðvitað að vera tilbúinn fyrir hraðar karate árásir Gunnars („blitz“) og hefur hann reynt að undirbúa sig fyrir það með æfingum með Machida bræðrum. Með því að vera að gera meira en Gunnar standandi og forðast gólfið gæti hann náð sigri eftir dómaraákvörðun eða rotað Gunnar með með vel völdum höggum. Fyrri leiðin er líklegri.
Gunnar Nelson hefur ekkert barist frá því hann sigraði Albert Tumenov í Rotterdam í maí. Það var hans besta frammistaða á ferlinum og mikilvægur sigur eftir erfitt tap gegn Demian Maia á undan.
Gunnar hefur ekki unnið tvo bardaga í röð síðan árið 2014 og fær hann fínt tækifæri til þess gegn Jouban. Þó Jouban sé mjög hættulegur andstæðingur þá er Gunnar sigurstranglegri og á að vinna ef hann er eins góður og við höldum.
Það eru fáir jafn góðir í gólfinu í veltivigtinni eins og Gunnar en á undanförnum árum höfum við séð stöðugar framfarir hjá honum standandi. Við sáum brot af því hvað hann getur standandi gegn Brandon Thatch og enn betur í Tumenov bardaganum. Vonandi heldur þessi þróun hans standandi áfram.
Það sem við sáum einnig í Tumenov bardaganum var hve aggressívur Gunnar var strax. Gunnar hefur iðulega tekið sér drjúgan tíma í að lesa aðeins í andstæðinginn en eftir u.þ.b. tíu sekúndur gegn Tumenov var hann strax búinn að lenda tveimur góðum höggum.
Enn eitt sem við sáum Gunnar gera vel gegn Tumenov var hvernig hann fléttaði fellunum saman, þ.e. að skipta úr einni fellu og yfir í aðra (e. chain wrestling). Það höfum við ekki séð hann gera áður í keppni og er afar mikilvægt þegar kemur að því að ná sterkum andstæðingum niður.
Nokkrir hlutir til að hafa í huga fyrir bardagann
- Ekkert ryð: Gunnar hefur aldrei verið eitthvað rðygaður þegar hann kemur til leiks eftir langa fjarveru eins og nú.
- Verst aldrei lágspörkum: Í bardögum hans gegn t.d. Rick Story og Brandon Thatch étur Gunnar lágspörk í lærið án þess að verjast þeim eða svara með gagnárás. Þetta er tækni sem Jouban notar mikið og gæti skipt miklu máli ef bardaginn dregst á langinn. Hins vegar hafa þjálfarar Gunnars talað um að þetta sé eitt af því sem þeir hafa verið að æfa fyrir.
- Nákvæmur: Gunnar Nelson er einn sá nákvæmasti þegar kemur að höggunum en 57% högga hans lenda en það er besta hlutfallið í veltivigt UFC. Hins vegar hefur hann bara verið með 170 högg í átta bardögum (sem er fremur lítið) og á hann það til að gera stundum full lítið standandi. Það virkar vel þegar hann er svona nákvæmur en Gunnar gæti tapað á stigum ef bardagann helst standandi og Jouban er að kýla/sparka meira.
- Hendur niðri: Það er ekkert að því að vera hendurnar neðarlega og nota fótavinnuna sem vörn gegn höggum. Þegar Gunnar þreytist þá verður hann hins vegar ekki eins hreyfanlegur á löppunum og fær þar af leiðandi fleiri högg í sig. Um leið og hreyfanleikinn er farinn er hættulegt að vera með hendurnar svona neðarlega.
Leið til sigurs: Það er ekkert leyndarmál hvað Gunnar vill gera og það veit Alan Jouban líka. Standandi þarf Gunnar að halda sér í góðri fjarlægð og stjórna fjarlægðinni. Sá sem stjórnar fjarlægðinni stjórnar ferðinni. Augljósasta leiðin er að fá Jouban niður í gólfið þar sem Gunnar getur klárað hann. Gunnar gæti tekið hann niður með fellu eða kýlt hann niður þegar Gunnar stekkur inn með högg. Þegar í gólfið er komið ætti Gunnar að njóta yfirburða. Jouban er sterkastur standandi svo það væri þægilegt ef Gunnar myndi ná bardaganum í gólfið strax í 1. lotu. Ekki eins einfalt og það hljómar enda verður Jouban tilbúinn í allt.
Spá: Jouban tekur sínar tvær mínútur í að detta í gang. Gunnar nær honum niður eftir um það bil tvær mínútur í 1. lotu og klárar með hengingu (rear naked choke) þegar skammt er eftir af 1. lotunni.