Gunnar Nelson telur að alvöru meistarar eigi klára bardaga sína í stað þess að vinna eftir dómaraákvörðun. Þetta sagði hann í viðtali við ESPN á dögunum.
Gunnar Nelson sigraði Alan Jouban á UFC bardagakvöldinu í London fyrr í mánuðinum. Það var 15. sigur hans af 16 sem hann klárar. Aðeins einu sinni hefur Gunnar unnið eftir dómaraákvörðun.
Að mati Gunnars eru of margir bardagamenn að einbeita sér að vinna lotur í stað þess að reyna að klára bardagann.
„Mér finnst að ef bardagamenn geta klárað bardagann verði þeir að gera það. Ef þú vilt verða sannur meistari þarftu að klára bardaga þína. Það er mín skoðun. Ef þú ert meistari og allir bardagarnir fara í dómaraákvörðun hefuru sýnt að þú getir haldið beltinu gegn topp andstæðingum, en ég vil verða alvöru meistari,“ segir Gunnar.
Þjálfari Gunnars, John Kavanagh, stakk upp á því að Gunnar myndi mæta karate stráknum Stephen ‘Wonderboy’ Thompson. Það er andstæðingur sem Gunnari þykir spennandi.
„Það var eitthvað sem Kavanagh kom með sjálfur. Ég myndi elska þann bardaga en mér heyrist að Thompson vilji annað hvort Robbie Lawler eða Carlos Condit. Það er í lagi. Ég mun mæta honum síðar. Mér er sama hvenær ég mæti öllum þessum gæjum. Ég mun klára þá alla eða flesta af þeim hvort sem er.“
Meistarinn í þyngdarflokki Gunnars, Tyron Woodley, er umdeildur meistari. Woodley á það til að rota menn snöggt í fyrstu lotu en svo koma oft ansi tíðindalitlir bardagar inn á milli.
„Woodley er með mikinn sprengikraft. Hann er með bakgrunn í glímu og mjög öfluga hægri hönd. Hann er með góð viðbrögð og er vakandi. Það er eitthvað sem hann sýndi í bardögum sínum gegn Thompson. Ef hann hefði ekki verið vakandi og með á nótunum hefði hann fengið þung högg í sig.“
„Hann er skynsamur og heldur sig til baka. Hann er ekki of aggressívur þó hann sé með drápseðlið í sér. Mér finnst hann góður. Kannski betri íþróttamaður en tæknilegur bardagamaður á margan hátt en hann er góður bardagamaður.“
Það verður áhugavert að sjá hvern Gunnar fær næst en Gunnar stefnir á þrjá bardaga á þessu ári. Vonandi fáum við að sjá Gunnar aftur í búrinu sem fyrst.