spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGunnar: Var enginn í boði á styrkleikalistanum

Gunnar: Var enginn í boði á styrkleikalistanum

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Gunnar Nelson mætir Bandaríkjamanninum Alan Jouban á UFC bardagakvöldinu í London. Við heyrðum í Gunnari nýlega en Gunnar er spenntur fyrir því að komast aftur í búrið.

Bardagakvöldið fer fram þann 18. mars í The O2 Arena í London. Gunnar barðist í sömu höll þann 8. mars 2014 þegar hann sigraði Omari Akhmedov og lýst vel á að berjast á þessu kvöldi.

„Ég hef barist þarna [á Englandi] nokkrum sinnum áður og alltaf haft gaman af. Það er mjög gaman að berjast fyrir framan Englendinga, ég hef alveg einhver tengsl þar og búinn að berjast mjög oft þar og æfði þar mikið,“ segir Gunnar.

Fyrirvarinn er ekki sá lengsti en bardaginn er eftir tæpar fimm vikur. Vanalega eru bardagar bókaðir með 8 til 12 vikna fyrirvara en fyrirvarinn skiptir Gunnar svo sem ekki miklu máli. „Ég er búinn að vera að æfa vel og hann er líka bara að fá fimm vikna fyrirvara. Ekki nema UFC séu búnir að setja þetta upp í 12 vikur en láta mig vita bara fimm vikum fyrir sem ég geri nú ekki fastlega ráð fyrir,“ segir Gunnar og hlær. „Þetta er fínt, ég er búinn að vera að æfa og verð bara tilbúinn,“

Gunnar hefur ekki ákveðið hvar undirbúningur bardagans fari fram en mun skipuleggja það í vikunni. „Ég á eftir að ákveða það almennilega hvort ég fái einhverja gæja hingað til að æfa með mér eða fer út. Mér finnst alltaf æðislegt ef ég næ að fá bara nokkra góða gæja hingað. Það er oftast betra út af fjölskyldunni, strákurinn minn er hér og svona. En það er líka gott að komast frá og vera bara að einbeita sér að æfingum. Maður þarf bara að vega og meta og þetta kemur í ljós.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Mjölnir opnar nýja og glæsilega æfingaaðstöðu í Öskjuhlíðina laugardaginn 18. febrúar. Mjölnir mun halda sérstaka opnunarhátíð á laugardaginn og ætlaði sjálfur Conor McGregor að koma hingað. Gunnar segir nú að Conor sé hættur við og muni ekki koma hingað til lands til að aðstoða Gunnar við undirbúninginn.

„Ég held satt að segja að Conor sé bara í smá fríi með kærustunni og vinum. Kærastan er auðvitað ólétt og hún getur ekkert flogið á þessum tímapunkti og hann langar að taka hana með. Ég held hann sé að draga sig aðeins í hlé og pústa bara, sem er held ég mjög gott fyrir hann.“

„Það væri auðvitað geggjað að fá hann hingað, koma á opnunina og kíkja aðeins á okkur. En ég skil það vel að hann sé aðeins að taka sér smá pásu og vera að spá í einhverju öðru. Ég efast samt um að honum takist að spá í einhverju öðru eins og ég þekki hann. Hann er örugglega bara á kantinum að setja upp einhvern money fight við ‘Money’ Mayweather.“

Andstæðingur Gunnars er hinn 35 ára Alan Jouban. Sá bandaríski er með 15 sigra og fjögur töp og hefur sigrað síðustu þrjá bardaga sína í UFC. Jouban er 6-2 í UFC (líkt og Gunnar) en er ekki á topp 15 styrkleikalista UFC á meðan Gunnar er í því níunda. En hvernig lýst Gunnari á Jouban?

„Bara mjög vel. Satt að segja þá vorum við búnir að reyna að fá nokkra aðra bardagamenn á styrkleikalistanum, það hefði kannski passað betur fyrir mig. Nema hvað ég er ekki búinn að berjast í tæpt ár. Mig langaði auðvitað að fá einhvern á styrkleikalistanum en það er bara enginn í boði. Eiginlega allir sem ég hefði mögulega getað fengið eru meiddir og það voru bara einhverjir fimm bardagamenn sem við vorum mögulega að reyna að ná sambandi við, eða UFC fyrir okkur.“

„Það er bara fáranlegt hvað það eru margir meiddir. Fyrir utan það að þetta er stuttur fyrirvari en við erum samt búnir að reyna að komast á þetta bardagakvöld í smá tíma. En þetta er bara flottur gæji, maður lítur ekkert framhjá svona manni. Hann er á þriggja bardaga sigurgöngu og er well rounded bardagamaður.“

Gunnar hefur ekkert barist síðan í maí í fyrra er hann sigraði Albert Tumenov eftir hengingu í 2. lotu. Gunnar átti auðvitað að mæta Dong Hyun Kim á UFC bardagakvöldinu í Belfast í nóvember en neyddist til þess að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla. Það var því kominn tími á að Gunnar fengi bardaga.

„Ég var alveg tilbúinn til að koma mér í búrið þó maður hefði ekki fengið einhvern drauma andstæðing. Það hefur aldrei verið eitthvað mikið atriði hver andstæðingurinn er, þó maður vilji auðvitað skora á sig og klifra upp styrkleikalistann þá er í rauninni mín sýn að það eru allir bardagamenn hættulegir sem eru komnir þarna. Maður er alltaf að skora á sjálfan sig, það eru mismunandi stílar og maður lærir á að berjast við alla þessa gæja.“

Meðfram bardagaferlinum starfar Jouban sem fyrirsæta og er nokkuð farsæll í þeim bransa. Jouban er með útlitið með sér og ætlar Gunnar ekki að skemma það. „Hann er eiginlega bara það sætur að maður fengi sennilega samviskubit við að kýla hann í andlitið. Ég þarf eitthvað að skipuleggja hvernig ég fer að þessu,“ segir Gunnar að lokum.

Bardaginn verður næstsíðasti bardagi kvöldsins í London en enn eru nokkrir miðar eftir á bardagakvöldið. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Corey Anderson og Jimi Manuwa.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular