Thursday, April 25, 2024
HomeForsíðaGunnar Kolbeinn: Toppurinn er ekki bara fjarlægur draumur

Gunnar Kolbeinn: Toppurinn er ekki bara fjarlægur draumur

gunnar kolli
Mynd: Af Facebook síður Gunnars Kolbeins

Gunnar Kolbeinn Kristinsson er eini íslenski atvinnumaðurinn í hnefaleikum. Hann er ósigraður í fjórum atvinnumannabardögum og tekur sinn fimmta bardaga í Finnlandi þann 2. apríl. Við heyrðum aðeins í honum og fengum smá innsýn í líf atvinnuboxarans.

Fyrr í mánuðinum hélt Gunnar Kolbeinn, sem er jafnan kallaður Kolbeinn eða Kolli, til Finnlands í æfingabúðir. Þar æfir hann með Finnanum Robert Helenius sem berst stóran bardaga sama kvöld og Kolbeinn keppir. Helenius er ósigraður í 22 atvinnumannabardögum er einn af betri þungavigtarmönnum heims. Það er því ómetanlegt að æfa með slíkum manni í nokkrar vikur.

„Þetta er í þriðja sinn sem ég fer til hans [Helenius] og hjálpa honum að undirbúa sig fyrir bardaga. Hann mætir Frakkanum Johann Duhaupas um WBC Silver Title sem er áskoranda titill eða bara interim titill. Síðasti bardagi minn var líka á cardi hjá honum, þá í desember þegar hann varð Evrópumeistari,“ segir Kolbeinn um æfingabúðirnar.

Umrætt kvöld mætir Kolbeinn hörðum Litháa. „Andstæðingurinn heitir Pavlo Nechyporenko og er með 2-10-1 recordið og eitthvað meira í kickboxi og MMA. Þetta er bara grjótharður náungi eins og þeir eru allir frá Austur-Evrópu.“

Kolbeinn er að æfa með mörgum hæfileikaríkum boxurum en hvernig kom það til að hann endaði í þessum æfingabúðum? „Ég komst í samband við Robert fyrst þegar ég var í Svíþjóð í æfingabúðum fyrir minn annan atvinnumannabardaga. Þá vorum við báðir að leita að sparri og hann bauð mér að koma í nokkra daga að boxa. En ef maður er bara duglegur og stendur sig vel þá er tekið eftir manni og manni boðið að koma í svona camp.“

Mynd: Af Facebook síður Gunnars Kolbeins. Gunnar ásamt Robert Helenius.
Mynd: Af Facebook síður Kolbeins.
Kolbeinn ásamt Robert Helenius.

Þegar við heyrðum í Kolbeini var hann þreyttur eftir langan dag enda vel tekið á því í svona æfingabúðum. „Það er ræs og morgunmatur kl 8:30 alla morgna. Styrktar-, sprengju- eða mobilityæfing kl 10:30 alla daga nema laugardaga. Sú æfing miðast svolítið við álag síðustu daga og hvort sé sparr seinni partinn eða ekki. Beint eftir æfingu förum við og borðum saman og svo upp á herbergi að slaka á. Þá legg ég mig yfirleitt og kíki í Playstation áður en næsta æfing hefst. Þegar það er sparr dagur er mæting kl 16:30 en annars mætum við kl 17 og tökum tækniæfingar svo sem intense skuggabox, sekkvinnu eða padsa. Eftir þá æfingu borðum við saman.“

Æfingabúðirnar fara fram í ólympísku æfingaaðstöðunni í Pajulahti en þar býr Kolbeinn á meðan á æfingabúðunum stendur. Þar er hann í stúdíóíbúð líkt og aðrir boxarar í æfingabúðunum.

Robert Helenius er að berjast stóran bardaga í þungavigtinni og eru eðlilega margir stórir strákar á æfingunum. „Þar sem þetta eru æfingabúðirnar hans Roberts eru bara þungavigtarmönnum boðið að koma. Fyrstu vikuna voru tveir aðrir strákar hérna frá Bretlandi og Rúmeníu, báðir ósigraðir með 10+ bardaga. Ég hef aðeins fengið að banka í Bretann. Svo í næstu viku koma nýjir strákar inn og hinir fara. Ég er eini æfingafélaginn sem er allar vikurnar.“

Bardagakvöldið þann 2. apríl er stórt enda mikilvægur bardagi fyrir heimamanninn Robert Helenius í aðalbardaga kvöldsins. „Þetta verður stórt og allt rosa flott í kringum þetta. Robert er að berjast við góðan boxara og um belti sem gefur áskorandaréttinn á WBC beltinu sem Deontay Wilder er með eins og er. Þeir búast við 12.000 manns en höllin tekur 15.000. Það kæmi mér ekki á óvart ef það yrði uppselt.“

Kolbeinn verður á sjónvarpaða hluta kvöldsins en bardagakvöldið verður sýnt í Finnlandi og líklegast Frakklandi. Íslendingar gætu því séð bardagann með einum eða öðrum hætti en bardagi Kolbeins er eini þungavigtarbardagi kvöldsins fyrir utan aðalbardagann.

Hér heima æfir Kolbeinn hjá Vilhjálmi Hernandez hjá Hnefaleikastöðinni og Daða Ástþórssyni hjá Fenri á Akureyri. „Þetta er deadly combo af þjálfurum sem hafa staðið með mér í gegnum súrt og sætt og hjálpað mér að komast þangað sem ég er í dag. Ég er í reglulegu sambandi við þá hér úti og gef þeim updates um hvað er búið að vera að gerast og hvernig spörrin fara. Þeir vita að ég er í góðum höndum hjá Johan Lindström, þjálfara Robert, sem hugsar vel um mig.“

Kolbeinn æfir auðvitað í topp aðstöðu í Finnlandi um þessar mundir en segir að aðstæðurnar hér á landi séu einnig mjög góðar. „Það er flott að æfa heima, topp aðstöður og þjálfarar en það getur stundum verið vesen að finna æfingafélaga. Það eru nokkrir sem eru grjótharðir og duglegir að hjálpa mér sem ég er alltaf mjög þakklátur fyrir.“

Kolbeinn er eins og áður segir atvinnumaður í íþróttinni en hvernig gengur að lifa á þessu? „Það er auðvitað smá ströggl svona í byrjun eins og með alla stórkostlega hluti. Ég er með einkaþjálfun í boxi og almennri hreyfingu svo sem styrk og þol, þannig að ég er almennt í gymminu allan daginn að æfa og þjálfa. Ég er svo heppinn að vera með frábæra styrktaraðila sem hjálpa mér eins og boxbudin.is, Stjörnugrís, Humarsalan, Hafið Fiskverslun, Heilsunudd hjá Bjarndísi og Box.is.“

Kolbeinn er með 38 bardaga sem áhugamaður en fjóra sem atvinnumaður. Hver var sá erfiðasti og hvers vegna? „Það var líklegast þriðji atvinnumannabardaginn minn. Þar fór ég á móti grjóthörðum og awkward Hvít-Rússa sem var svolítið minni en ég. Bardaginn fór fram í einhverjum pínulitlum bæ í Norður Finnlandi en daginn áður var ég í 12 tíma að koma mér þangað. Það í bland við að gaurinn var líka mjög góður að surviva og kannski smá vanmat hjá mér gerði þennan bardaga 100 sinnum erfiðari en hann hefði þurft að vera. En þetta var rosa góð reynsla sem ég hef svo sannarlega lært af.“

Bardagi Kolbeins fer fram þann 2. apríl í Hartwall Arena í Helsinki og mun Kolbeinn eflaust koma sterkur til leiks eftir góðar æfingabúðir. „Þetta er búið að vera frábært tækifæri að fá að taka heilar æfingabúðir með einum besta þungavigtarmanni heims og finna að maður á alveg séns á móti honum. Ég stefni alla leið á toppinn og hef fulla trú á því að toppurinn í sportinu sé ekki eins fjarlægur draumur og hann virðist vera fyrir sumum. Af hverju að gera eitthvað ef ég ætla ekki að gera það eins vel og ég mögulega get,“ segir Kolbeinn að lokum.

Við þökkum Kolbeini kærlega fyrir viðtalið og óskum honum góðs gengis í bardaganum 2. apríl.

Mynd: Af Facebook síður Gunnars Kolbeins. Mynd úr síðasta bardaga Gunnars.
Mynd: Af Facebook síðu Kolbeins úr síðasta bardaga hans.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular