Tuesday, April 16, 2024
HomeErlentHvað segja bardagakonurnar okkar um stöðuna í bantamvigt kvenna í UFC?

Hvað segja bardagakonurnar okkar um stöðuna í bantamvigt kvenna í UFC?

Fyrr í mánuðinum fengum við nýjan bantamvigtarmeistara kvenna í UFC þegar Miesha Tate sigraði Holly Holm. Af því tilefni fengum við þrjár færar bardagakonur til að skoða aðeins stöðuna í bantamvigt kvenna.

Þær Anna Soffía Víkingsdóttir, Inga Birna Ársælsdóttir og Sunna Rannveig Davíðsdóttir fylgjast allar vel með MMA og hafa skarað fram úr hér á landi í BJJ, Júdó eða MMA. Gefum þeim orðið.

Anna Soffía fyrir miðju eftir sigur á Mjölnir Open fyrr á árinu. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Anna Soffía fyrir miðju eftir sigur á Mjölnir Open í fyrra.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Hvaða áhrif hefur sigur Tate á bantamvigt kvenna að þínu mati?

Anna Soffía: Þetta hefur mikil áhrif á bantamvigtina. Tate var búin að bæta sig mikið og hentaði mun verr fyrir stíl Holly miðað við hvernig Ronda hentaði hennar stíl. Þetta er að verða mjög öflugur flokkur að mínu mati og verður spennandi að fylgjast með.

Inga Birna: Ég held að þessi úrslit hafi verið best fyrir Rousey því núna fær hún tækifæri til að koma til baka og taka bardaga við Tate sem mun enda með sigri Rousey held ég. Þar á eftir hugsa ég að Rousey og Holm taki annan bardaga því annars á það alltaf eftir að vera í skugganum að Holm hafi unnið Rousey með svo miklum yfirburðum. Varðandi Tate þá er hún er virkilega hörð af sér, góð á öllum sviðum íþróttarinnar og flottur íþróttamaður en því miður finnst mér hún ekki hafa náð að vinna sér inn að vera meistari þar sem maður veit að Rousey hefur unnið hana oftar en einu sinni. Rousey hefur einnig unnið aðra keppinauta sem hafa síðan unnið Tate sem mér finnst sýna fram á hvor þeirra tveggja hefur meiri getu.

Sunna Rannveig: Tate er búin að vera hungruð lengi og sigur hennar sýnir umfram allt að hard work pays off en hún er hörkudugleg og gefst aldrei upp. Hvort hún sé jafn hæfileikarík og Ronda Rousey eða Holly Holm er eitthvað sem ég er efins um. Ronda er búin að sigra hana í tvígang og í bæði skiptin með miklum yfirburðum og Holly var komin vel á veg með að sigra bardagann þeirra þegar Miesha náði taki á henni. Miesha er góð fyrirmynd, kemur afar vel fyrir, er klár í kjaftinum, jákvæð og virkar á mig sem virkilega almennileg manneskja. Sigur hennar hleypir öllu í háaloft í þyngdarflokknum að mínu mati.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson. Sunna Rannveig.
Sunna Rannveig. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Hvernig heldur þú að þriðji bardaginn milli Tate og Rousey fari?

Anna Soffía: Ef Ronda nær að æfa vel fyrir þann bardaga þá hugsa ég að Ronda vinni. Þær hafa báðar sama styrkleika en Ronda er betri að ná yfirburðastöðu heldur en Tate að mínu mati. Ég spái að hún nái henni í sinn fræga armbar. Hins vegar er Tate búin að bæta sig mikið svo aldrei að vita nema hún komi öllum á óvart.

Inga Birna: Ég held að hann endi lítið öðruvísi en fyrri bardagar þeirra. Ég held að Rousey hafi sjálfsöryggið í það að mæta henni næst þar sem hún veit að hún hefur getuna í það að vinna og í rauninni held ég að hún sé meira tilbúin í að mæta Tate næst heldur en að mæta Holm strax aftur.

Sunna Rannveig: Ólíkt því sem oft gerist þegar pressan er öll á þeim sem heldur á titlinum þá er gríðarleg pressa einnig á Rondu. Hún tapaði illa gegn Holly Holm og fór svo beint í ræsið í kjölfarið. Það er ekkert víst að hún nái sér almennilega á strik aftur og mögulega höfum við séð það síðasta af henni sem þessi ósigrandi bardagavél sem hún var. Ronda hefur alltaf sótt orkuna og metnaðinn í það að hata andstæðing sinn. Hún hefur reynt að finna eitthvað í fari andstæðinga sinna sem hún hefur getað hatað og hefur ekki farið leynt með það. Hatur hennar á Mieshu Tate er algjörlega ósvikið og ef það er eitthvað sem getur fengið Rondu aftur í æfingasalinn og komið henni aftur í gírinn þá er það það að eiga rematch við Mieshu.

Hún hefur í tvígang gjörsigrað hana og henni leiðist áreiðanlega ekki að gera það einu sinni enn. Miesha mun vera upprifin af sjálfstrausti, það er hún sem heldur á titlinum og mögulega mun henni ganga betur en áður í sálfræðistríðinu í aðdraganda bardagans þar sem Ronda er ekki ósigruð lengur. Aðdragandi þessa bardaga verður eflaust mjög áhugaverður og þær eiga eftir að hita vel upp í kolunum. Ég held að Ronda nái sér á strik, rífi hendina af Mieshu og taki beltið í leiðinni.

Hvernig mun flokkurinn verða án Rondu Rousey ef hún myndi ákveða að hætta?

Anna Soffía: Ég held að MMA kvenna sé að styrkjast með hverju árinu, enda konur sem hafa verið sterkar í sínum íþróttum eins og wrestling, hnefaleikum, BJJ, Júdó og fleiri bardagaíþróttum að átta sig á MMA. Þetta verður til þess að flokkarnir styrkjast og því mun fráhvarf einnar manneskju ekki hafa eins mikil áhrif. Hins vegar verður ekki tekið af henni að hún kom MMA fyrir konur vel á kortið og var mikilvæg innspýting fyrir kvenna MMA. Það mun verða missir en vegna þess hversu hratt þetta er að þróast þá verður hann ekki eins mikill og fyrir kannski einu ári síðan.

Inga Birna: Að mínu mati yrði það ekki gott fyrir kvenna MMA þar sem Rousey er svo stór og mikill karakter með mikla hæfileika. Hún hefur einnig verið virkilega stór partur í því að koma kvenna MMA þangað sem það er í dag. Það er eitthvað sem ég held að flestir geta samþykkt sama hvaða skoðanir þeir hafa á Rousey. Mér þætti það mikil synd að ákveða að hætta eftir síðasta bardaga hennar og í rauninni ekki í anda íþróttarinnar þar sem allir tapa einhvern tímann á ferlinum.

Sunna Rannveig: Ronda er nú þegar búin að gera svo mikið fyrir framtíð kvenna í MMA. Það eru fleiri dýr í skóginum og margar bardagakonur sem eru að bíða eftir því að fá tækifæri til þess að láta ljós sitt skína. Flokkurinn mun því alveg halda áfram að vaxa og dafna en hins vegar yrðu það afar sorgleg örlög sem myndu kasta rýrð á öll hennar afrek ef það þyrfti bara einn ósigur til þess að hún myndi hætta.

inga birna
Inga Birna. Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson

Hvernig mun Holly Holm snúa aftur eftir þetta? Vinnur hún sig fljótt aftur í titilbardaga?

Anna Soffía: Hún fer aftur í gymmið og bætir það sem hún þarf að laga sem er gólfglíman. Hún var ekki með góða vörn þegar Tate náði þessu alveg niður í gólfið, sneri mjöðmunum of mikið frá henni. Holly er í einu besta MMA gymmi í heiminum og með frábæra þjálfara sem gera gott game plan (eins og sást í Rondu bardaganum). Hún er frábær íþróttamaður með mjög mikla reynslu sem atvinnumaður og verður fljót að ná sér í titilbardaga aftur að mínu mati.

Inga Birna: Ég held að Holm eigi eftir að vera top contender í flokknum en ekki meistari. Hún er frábær íþróttamaður og búin að gera virkilega góða hluti í gegnnum tíðina, bæði í MMA og boxi, en það verður auðvitað að líta á það að hún á hugsanlega ekki mörg ár eftir af ferlinum. Ef Rousey ákveður að vinna bæði í kollinum á sér og stand up-inu hef ég trú á því að hún endi sem sigurvegari ef þær mætast aftur.

Ég hugsa að UFC eigi alltaf eftir að vilja annan bardaga á milli Rousey og Holm svona miðað við hvernig bardaginn þeirra var. Ég held líka að UFC eigi eftir að vilja annan bardaga á milli Tate og Holm. Ég held að Tate keppi við Rousey næst þar sem Rousey sigrar. Þar á eftir mætast þær Holm og Rousey og svo Holm gegn Tate aftur og þar með fáum við endanlegan botn í þennan þríhyrning.

Sunna Rannveig: Holly þarf að vinna sig upp í titilbardaga. Það veltur alfarið á því hvort Ronda gefur kost á sér í bardaga nr. 3 á móti Mieshu Tate eða ekki. Ef Ronda hendir inn handklæðinu þá fer Holly pottþétt beint í titilbardaga gegn Mieshu Tate. Ef ekki þá mun Holly mögulega fara á móti Amöndu Nunes sem er búin að vera á góðu róli að undanförnu. Hvernig sem fer þá er fullt af spennandi hlutum framundan í þessum þyngdarflokki.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular