spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGunnar Nelson: Ekkert annað að gera en að rífa sig aftur upp...

Gunnar Nelson: Ekkert annað að gera en að rífa sig aftur upp á lappirnar og halda áfram (Fyrri hluti)

Gunnar nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Gunnar Nelson tapaði fyrir Demian Maia með afgerandi hætti á UFC 194 í desember. Bardaginn var einhliða frá fyrstu mínútu og hefur okkar maður aldrei upplifað slíkan bardaga. Við tókum gott viðtal við Gunnar á dögunum þar sem við ræddum um bardagann erfiða.

Rúmur mánuður er síðan Gunnar mætti Demian Maia. Eftirvæntingin fyrir bardaganum var mikil en að sama skapi voru vonbrigðin eftir bardagann gífurleg. Sigur á Maia hefði fleytt Gunnari hátt upp styrkleikalistann en þess í stað skipar hann nú 15. og neðsta sæti styrkleikalistans (aðeins 15 efstu áskorendunum er raðað á listann á meðan aðrir bardagamenn fá ekkert ákveðið sæti).

Gunnar hefur ekki horft aftur á bardagann en þetta var upplifun sem Gunnar á seint eftir að gleyma. Hann hefur nú hafið æfingar að nýju eftir ágætis jólafrí.

Þessar 15 mínútur voru gífurlega erfiðar fyrir Gunnar en er sárt að hugsa til bardagans í dag? „Já það getur alveg verið smá sárt að hugsa um bardagann. Og það getur verið erfitt að hugsa um þessa reynslu. Maður er kannski aldrei kominn yfir bardagann fyrr en maður er kominn af stað aftur og búinn að taka allavega einn bardaga. Ég held ég hafi þó lært helling af þessu og hlakka bara til að koma mér aftur af stað og halda áfram. Það er eiginlega bara það sem ég hugsa mest um, bara framhaldið,“ segir Gunnar.

Demian Maia stjórnaði Gunnari mest megnis af 15 mínútna bardaganum og náði Gunnar fáum höggum á Maia. Þessi bardagi var einfaldlega versti bardagi Gunnars á ferlinum en hann hefur aldrei áður lent í slíkri reynslu. „Strax eftir bardagann leið mér ekki vel. Mér leið bara eins og ég hefði staðið mig hrikalega illa. Mér leið nátturulega ömurlega. Þetta var bara ekki mitt kvöld og ég fann það bara frá byrjun bardagans einhvern veginn. Mér fannst ég ekki vera að ná mér í gang almennilega. Þetta var hans kvöld og það var mjög leiðinlegt eftir á. Þetta hefði fleytt manni helvíti langt fram en svona er þetta. Svona er að vera íþróttamaður og að vera í þessu sporti, það er í rauninni ekkert annað að gera en að rífa sig aftur upp á lappirnar og halda áfram.“

Það má heyra á tali Gunnars um bardagann að hann hlakkar til að takast á við næstu áskoranir og halda áfram. Þetta er bara hraðahindrun á hans vegi.

Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Mörgum áhorfendum fannst eins og sá Gunnar sem sást í búrinu á UFC 194 hafi ekki verið sá Gunnar sem við erum vön að sjá. Gunnar getur tekið undir þau orð. „Já það var eitthvað mjög off. Ég hef stundum átt erfiða kafla á æfingum en það er búið að minnka og ég er orðinn betri. Þetta camp var bara eitt besta camp sem ég hef átt en það voru samt svona off-dagar hjá mér. Ég er ennþá aðeins að vinna mig upp úr þessu þó svo ég sé orðinn helvíti fínn. En þarna átti ég bara ekki góðan dag en það er bara partur af því að vera að keppa og talandi ekki um á þessu leveli. Maður þarf bara að læra inn á sjálfan sig og læra inn á þetta. Svona hlutir mega bara ekki koma fyrir aftur. Ég hlakka bara til að halda áfram, þetta er bara spennandi verkefni.“

Gunnar er ekki viss um hvað valdi þessum „off-dögum“ hjá sér og telur hann að það sé misjafnt eftir mönnum. Gunnar á dálítið erfitt með að lýsa þessu fyrir okkur og segir þetta vera hálfgerðan vana hjá líkamanum sem getur verið erfitt að brjótast út úr.

„Þetta er einhver tilhneiging hjá manni. Hvar það byrjaði er ekki endilega vandamálið núna. Þetta er svona leiðindarvani hjá líkamanum sem er erfitt að brjóta sig úr þegar þetta fer af stað. Þannig upplifi ég þetta. Þá verður allt svo erfitt. Maður verður aumur, lélegur, erfitt að koma önduninni af stað og eins og skrokkurinn sé hálf sofandi. Þó hugurinn sé til staðar og geri sér alveg grein fyrir því þá er vaninn það sterkur að þú nærð ekki að rífa þig í gang á svona stuttum tíma.“

Gunnar segir þetta hafa áður gerst í bardaga í UFC en þá hafi hann náð að vinna sig úr vananum. „Ég hef unnið þótt ég hafi ekki verið neitt sérstaklega hress en svo hef ég líka náð mér út úr vananum í bardaga. En eins og ég segi, þetta er alltaf að verða minna og minna og ég er ekki búinn að finna fyrir þessu í einhvern tíma og bara liðið mjög vel á æfingum. Ég er alltaf að setja puttann betur á þetta og ég held að þessi bardagi hafi hjálpað mér mjög mikið við það.“

„Ég fann fyrir þessu í upphituninni og var bara að vona að ég myndi ná þessu úr. Ég var svo sem ekkert alltof mikið að stressa mig á því þar sem ég hef fengið þetta áður þegar ég hef verið að berjast á undanförnum árum. Ég hef fundið fyrir þessu en síðan hef ég náð að koma mér út úr því. Þennan dag var ég bara ekki með þetta.“

Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Þessi vani hjá Gunnari er bara partur af hans ferðalagi í þessari íþrótt. Þetta er eitt af þessum verkefnum sem hann þarf að vinna í. „Þegar öllu er á botninn hvolft eru allir að vinna með eitthvað hjá sér og allir að vinna með sig. Þetta er bara það sem ég þarf að vinna í og maður verður bara að læra inn á þetta. Það er bara partur af því að verða það sem maður vill verða og læra og halda áfram. Ég lít bara á þetta sem verkefni og ég ætla að takast á við það og læra inn á þetta.“

UFC 194 var eitt stærsta bardagakvöld allra tíma og beindust margra augu að bardagakvöldinu stóra. Eflaust hafa einhverjir bardagamenn fundið fyrir pressu eða stressi vitandi það að milljónir manna voru að horfa á.

Sjálfur segir Gunnar að hann finni aldrei neitt sérstaklega fyrir einhverri pressu. „Það hefur aldrei breytt neinu fyrir mig þegar ég labba í búrið hvort þetta sé UFC eða eitthvað annað. Jújú, maður finnur alltaf fyrir smá pressu en ég er alltaf bara að labba í búrið á móti einhverjum manni og það er alltaf eins fyrir mér. Það sem breytist helst er meiri peningur og fleiri áhorfendur en það er ekki að fara að skipta neinu fyrir mig. Ég er alltaf að fara að gera það sama og maður er bara að mastera sjálfan sig og það er það sem þetta snýst um. Það ganga allir í gegnum einhver skeið og þegar maður er að læra lendir maður á einhverri hindrun, eitthað sem er erfitt að komast yfir. Það getur tekið mislangan tíma en ef maður heldur bara áfram þá finnur maður út úr því og kemst yfir það.“

Þetta var annað tap ferilsins hjá Gunnari í MMA. Fyrra tapið (gegn Rick Story) var talsvert öðruvísi upplifun fyrir Gunnar heldur en bardaginn gegn Maia. „Maia átti þennan bardaga bara frá A til Ö. Ég átti einhver móment þar sem ég náði aðeins að gera eitthvað hér og þar en mér fannst ég bara hafa verið hrikalega lélegur. Þótt ég hafi séð opnanir þá fannst mér ég ekki vera til staðar til að framkvæma það sem mig langaði að framkvæma.“

„Þetta var allt önnur saga en í Story bardaganum. Það var miklu jafnara og öðruvísi bardagi þó það hafi verið grjótharður bardagi líka. Töp kenna manni alltaf eitthvað, en ef það er eitthvað svona jákvætt sem ég gat tekið beint úr Maia bardaganum er það að ég get þraukað helvíti lengi. Þó ég hafi verið í slæmum stöðum á móti manni sem á að geta klárað þetta úr flest öllum stöðum sem hann var í, þá náði ég að þrauka helvíti vel. Þetta var svona survival, maður þarf að læra það líka.“

Hér látum við staðar numið í bili en þetta er aðeins fyrri hluti viðtals okkar við Gunnar. Á morgun birtum við seinni hlutann en þar talar Gunnar um það sem framundan er, heimkomuna þar sem hann hitti soninn sinn aftur og umræðuna í samfélaginu um MMA í kjölfar bardagans.

Sjá einnig: Gunnar – Ætla að reyna að ná fjórum bardögum á árinu (Seinni hluti)

Gunnar Nelson
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular