Gunnar Nelson hefur fengið 45 daga keppnisbann eftir tapið gegn Santiago Ponzinibbio. Gunnar er meðal 11 bardagamanna sem fá keppnisbann eftir bardagakvöldið í Glasgow.
Gunnar tapaði eftir rothögg gegn Santiago Ponzinibbio á sunnudagskvöldið. Bardagakvöldið fór fram í Skotlandi en ekkert íþróttasamband fyrir MMA er í Skotlandi. Því er það UFC sem sér um regluverk og annað utanumhald um dómara og lækna en ekki íþróttasamböndin eins og gengur og gerist á viðburðum í Bandaríkjunum og Brasilíu.
Í gær sendi UFC frá sér keppnisbönn í kjölfarið á læknisskoðun sem allir bardagamenn gengust undir eftir bardagana. Þar sem Gunnar var rotaður má hann ekki keppa næstu 45 daga en vitað var að Gunnar myndi taka sér frí frá öllum höfuðhöggum út sumarið á æfingum.
Justin Willis og Neil Seery fengu 180 daga keppnisbann vegna rifbeinsbrots nema læknir úrskurði þá keppnishæfa fyrr. Þá fær Daniel Teymur 180 daga keppnisbann eftir handarbrot. Stevie Ray, Paul Craig og Charlie Ward fá allir 60 daga bann eftir að þeir töpuðu eftir rothögg. Bobby Nash fékk 45 daga bann rétt eins og Gunnar en Nash tapaði einnig eftir rothögg.
Aðrir bardagamenn fengu styttra bann en listann má sjá á vef MMA Junkie hér.