Friday, April 26, 2024
HomeForsíðaGunnar Nelson mætir John Hathaway á UFC 189

Gunnar Nelson mætir John Hathaway á UFC 189

GunnarÞað hefur nú verið staðfest að Gunnar Nelson mætir Bretanum John Hathaway á UFC 189 þann 11. júlí. Í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Conor McGregor og Jose Aldo um fjaðurvigtartitilinn.

John Hathaway (17-2) er 27 ára Englendingur sem hefur verið í UFC frá árinu 2009. Miklu var búist við af Hathaway þegar hann samdi við UFC árið 2008 en meiðsli hafa haldið aftur af honum. Hathaway hefur barist níu bardaga í UFC á sex árum. Hathaway barðist ekkert í 18 mánuði en snéri aftur í mars í fyrra er hann tapaði fyrir Dong Hyun Kim eftir rothögg.

Honum hefur vegnað vel í UFC en hann hefur sigrað sjö af níu bardögum sínum í UFC. Hann hefur klárað aðeins einn af þeim bardögum en það var sigur á Tom Egan í fyrsta UFC bardaga Hathaway. Tom Egan æfði á þeim tíma undir handleiðslu John Kavanagh, yfirþjálfara Gunnars, en Egan og Gunnar hafa áður æft saman.

Bæði töp Hathaway hafa komið í UFC – fyrst gegn Mike Pyle eftir dómaraákvörðun og svo fyrrnefnt tap gegn Dong Hyun Kim. Gunnar gæti verið sá fyrsti til að sigra Hathaway eftir uppgjafartak en Bretinn hefur aldrei áður tapað eftir uppgjafartak.

Hathaway er góður á öllum vígstöðum bardagans og er með enga augljósa veikleika en á sama tíma er hann ekki framúrskarandi í neinu. Hann er þó með góðar fellur og hafnaði í tvígang í 2. sæti á breska landsmeistaramótinu í frjálsri glímu (e. freestyle wrestling). Hann mun þó líklegast sleppa því að reyna að taka Gunnar niður enda er Gunnar framúrskarandi í gólfglímunni.

Þetta ætti að verða áhugaverð rimma en báðir bardagamenn eru að koma frá tapi í síðasta bardaga. Sigur fyrir Gunnar gegn Hathaway færir hann ofar í goggunarröðinni í veltivigtinni og sennilega upp um 2-3 sæti á styrkleikalistanum, en Gunnar er sem stendur í 14. sæti. Tapi Gunnar mun hann detta af topp 15 listanum.

Gunnar mun því snúa aftur í búrið eftir níu mánaða fjarveru í júlí eða síðan hann tapaði fyrir Rick Story í október. Það verður spennandi að sjá hvernig Gunnar kemur til leiks en UFC 189 verður stærsta bardagakvöld ársins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular