Gunnar Nelson fer upp um eitt sæti á nýjasta styrkleikalista UFC í veltivigtinni. Carlos Condit dettur af listanum og Alex Oliveira kemur nýr inn.
Styrkleikalistinn er samansettur af fjölmiðlamönnum víðs vegar um heiminn og kemur nýr listi nokkrum dögum eftir hvern viðburð UFC. Þar raða fjölmiðlamenn 15 bestu áskorendunum á eftir meistaranum í hverjum flokki fyrir sig.
Alex Oliveira sigraði Carlos Condit um síðustu helgi með hengingu í 2. lotu. Það var fjórða tap Condit í röð en Condit var í 12. sæti fyrir bardagann. Nú hefur hann fallið af listanum og kemur Alex Oliveira nýr inn á lista í 13. sæti. Það þýðir að Gunnar fer upp um eitt sæti á listanum og skipar nú 12. sæti.
Hástökkvarar vikunnar í öðrum flokkum voru þeir John Moraga (upp um fjögur sæti í fluguvigt) og Brad Tavares (upp um fimm sæti í millivigt) eftir þeirra sigra um síðustu helgi. Þá fer Dustin Poirier upp um eitt sæti í léttvigtinni eftir sigurinn á Justin Gaethje en styrkleikalistana í heild sinni má sjá hér.