Gunnar Nelson hefur nú að mestu jafnað sig á meiðslunum sem hann varð fyrir í apríl. Leit að næsta bardaga er hafin og vonast Gunnar til að fá bardaga í nóvember.
Gunnar Nelson átti að mæta Neil Magny á UFC bardagakvöldinu í Liverpool í maí. Gunnar meiddist hins vegar á hné í undirbúningnum og þurfti að draga sig úr bardaganum. Í vor fór hann í aðgerð á liðþófa og hefur nú byrjað að æfa aftur á fullu.
Gunnar er nú að leita að næsta bardaga. Santiago Ponzinibbio, sem rotaði Gunnar í fyrra í umdeildum bardaga, var í leit að andstæðingi fyrir fyrstu heimsókn UFC til Argentínu. Gunnar bauðst til þess að taka bardagann en ekkert varð úr bardaganum og var Neil Magny settur inn gegn Ponzinibbio.
Gunnar vonast til að berjast á UFC 230 í Madison Square Garden þann 3. nóvember og er í raun tilbúinn að mæta hverjum sem er. Viðtalið má sjá hér að neðan en á morgun birtum við seinni hluta viðtalsins þar sem Gunnar talar um Conor-Khabib og fleira.