spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaGunnar: Væri spennandi að berjast á bardagaeyjunni

Gunnar: Væri spennandi að berjast á bardagaeyjunni

Mynd: Snorri Björns.

Gunnar Nelson er allur að koma til eftir meiðslin sem hafa hrjáð hann síðustu mánuði. Gunnar vonast eftir að fá bardaga á árinu en efast um að sá verði í Dublin.

Gunnar Nelson barðist síðast við Gilbert Burns á UFC bardagakvöldinu í Kaupmannahöfn í September. Gunnar tapaði eftir dómaraákvörðun en Gunnar fór inn í þann bardaga með rifbeinsmeiðsli. Meiðslin hafa tekið langan tíma að jafna sig en núna er hann loksins að ná sér af meiðslunum.

„Ég er ennþá smá að finna fyrir þessu rifbeinadóti en hef mjög lítið fundið fyrir því núna. En síðustu mánuði höfum við bara verið að lyfta og hlaupa, ég hef ekkert fundið fyrir því neitt af viti. Jú ég finn fyrir þessu, þetta er þarna, en ég held það komi ekkert almennilega í ljós hversu mikið er eftir af þessu fyrr en ég byrja að glíma á fullu. En mér finnst þetta búið að minnka helling, held að þessi hvíld á glímu og barningum hafi kannski bara verið það sem ég þurfti til að ná þessu alveg góðu,“ segir Gunnar.

„Eftir bardagann gat ég alveg æft, ég get alveg æft 100% þannig séð. Ég er bara aumur eftir það. Sumar stöður voru óþægilegar og kannski ekki alveg fullur kraftur en ég gat alveg sparrað, glímt og djöflast eins og brjálæðingur en þurfti þá kannski að taka einn dag aðeins rólegri.“

Allir bardagaklúbbar landsins hafa verið lokaðir síðan í mars vegna kórónaveirunnar. Gunnar hefur þó haldið sér við með styrktar- og þrekþjálfun.

„Við erum bara búnir að vera að stunda þrekþjálfun. Erum byrjaðir að taka ólympískar lyftingar, og svo bara þessar klassísku beygjur, ketilbjölluæfingar, róðravél, hjól, alls konar æfingar og svo bara hlaup.“

UFC fór aftur af stað um helgina með UFC 249. Bardagasamtökin verða með bardagakvöld næstu helgar og fer vélin því á fullt hjá UFC þrátt fyrir að veiran sé enn skæð í Bandaríkjunum. Þessi bardagakvöld UFC eru umdeild en til að mynda átti Jacare að berjast um síðustu helgi þar til hann var greindur með kórónaveiruna.

„Það sem mér finnst skrítnast við þetta er að þessir gæjar þurfa auðvitað að æfa fyrir bardagann og þeir mega ekki vera að æfa. Þannig að það er verið að hvetja menn til þess að æfa og það er kannski svolítið skrítið. Ég er mjög spenntur að sjá bardagana en veit ekki hversu sniðugt þetta er endilega. Eins og allir er maður orðinn þreyttur á þessu en auðvitað þarf þetta að enda rétt og það þarf að leyfa þessu að klárast svo þetta poppi ekki upp aftur því það nennir því enginn – alls enginn. Frekar að klára þetta núna og taka þetta aðeins lengur heldur en að þetta poppi upp aftur og hvað veit maður.“

Gunnar var búinn að ræða við UFC um að vera á bardagakvöldinu í Dublin þann 15. ágúst en nú er óvíst hvort af bardagakvöldinu verði. Borgarstjórn Dublin hefur gefið það út að allir viðburðir yfir 5.000 manns verði óleyfilegir í sumar.

„Ég var að stefna á að keppa í Dublin í ágúst en sé ekki fram á það núna. Mér skilst á þeim sem ég hef talað við í Dublin að þeir séu einhverjum skrefum fyrir aftan okkur og ég er ekki farinn að æfa ennþá. Held að þetta sé ennþá strangara þar. Síðasta sem ég heyrði var að fólk er ekkert að fara að geta mætt til vinnu á skrifstofu eða lager fyrr en í ágúst. Ég held að það sé alveg útilokað að þetta card í Dublin verði. Það er kannski að reyna að komast á annað card, ég þarf bara að geta æft.“

Bardagaeyja UFC á að vera tilbúin í júní og ætlar UFC að vera með bardaga þar í sumar. Þar ætlar UFC að vera með bardaga fyrir þá sem geta ekki ferðast til Bandaríkjanna og getur Gunnar vel hugsað sér að berjast þar.

„Það gæti orðið hörku spennandi, það væri gaman að vera partur af einhverju svona. Ég er game að fara að keppa og djöflast um leið og maður má fara að djöflast almennilega. 8 vikna fyrirvari væri fínt, ég er búinn að halda mér í formi, það er bara að ná sér aftur í gírinn og ef allt er eins og það á að vera þá ætti það að vera fínn tími.“

Fyrir UFC 249 voru æfingar bardagamanna fyrir UFC 249 með óvenjulegu sniði þar sem flestir bardagaklúbbar voru lokaðir. Sumir æfðu heima hjá sér á meðan aðrir fengu aðgang að lokuðum bardagaklúbbum og æfðu með nokkrum æfingafélögum. Hefði Gunnar viljað berjast um síðustu helgi og æft í gegnum samkomubann?

„Ég hefði ekki tekið bardaga um helgina. Ég hef engan til að æfa með og það eru allir í þessum sama pakka. Ég hugsa að ég hefði ekki tekið bardaga núna og skroppið til útlanda til að keppa í þessum aðstæðum. Ég hugsa að fjölskylda mín hefði ekki verið ánægð ef ég hefði ætlað mér að gera það.“

„Mér finnst líklegt að þeir sem eru að berjast þessa dagana séu að halda þessum æfingafélögum eins fáum og hægt er. Maður vonar það. Ég hefði gert það sama. Ég hugsa að þeir séu bara með nokkra vel valda æfingafélaga, 2-3 kannski og síðan bara þrekþjálfun. Ég hugsa að þessir gæjar séu kannski búnir að brjóta einhverjar reglur í einhvern tíma. Ég þekki samt ekki þessar reglur úti hjá þeim, kannski voru þeir ekki að brjóta neinar reglur.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular