Thursday, September 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 249

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 249

UFC snéri aftur um helgina þegar UFC 249 fór fram. Bardagakvöldið var umdeilt en bardagarnir sjálfir voru þrælskemmtilegir.

Það er skrítið að UFC sé að fara svona snemma af stað með bardaga þegar kórónaveiran er enn skæð í heiminum og þá sérstaklega í Bandaríkjunum. Á meðan flestar íþróttadeildir í Bandaríkjunum bíða átekta er UFC-vélin komin á fullt. Það var síðan enn skrítnara þegar hætta þurfti við bardaga Jacare og Uriah Hall þar sem Jacare var með veiruna! Það verður síðan að koma í ljós hvort Jacare og hornamenn hans hafi óvart smitað aðra bardagamenn eða starfsmenn UFC um síðustu helgi.

Burtséð frá því voru bardagarnir frábærir að mestu leiti. Greg Hardy gegn Yorgan de Castro og Michelle Waterson gegn Carla Esparza voru fremur leiðinlegir bardagar en annað var mjög skemmtilegt. Óvenjulegar æfingaaðstæður virtist ekki hafa mikil áhrif á bardagamennina.

Embed from Getty Images

Maður kvöldsins var klárlega Justin Gaethje. Frammistaða hans gegn Tony Ferguson var einfaldlega stórkostleg og ein besta frammistaða síðari ára. Gaethje hefur bætt sig mikið síðan hann tapaði fyrir Eddie Alvarez og Dustin Poirier. Þá var hann að taka of mörg högg og var bara að reyna að hafa gaman. Núna er hann ennþá aggressívur en samt skynsamari og árangurinn talar sínu máli.

Það má segja að Gaethje hafi verið aðeins of agaður á laugardaginn. Það komu upp augnablik þar sem Ferguson var vankaður en í stað þess að reyna að klára Ferguson (og þar með setja sig í hættu) var Gaethje rólegur og sat til baka. Það kom ekki að sök enda kláraði Gaethje bardagann í 5. lotu.

Nú fær Gaethje stóran bardaga gegn Khabib Nurmagomedov síðar á árinu. Af þessum bestu áskorendum (Gaethje, Conor, Ferguson og Dustin Poirier) í léttvigtinni telja margir að Gaethje eigi besta sénsinn á að stöðva Khabib. Gaethje er með frábæran bakgrunn í glímu, er með gott þol, mjög hættulegur standandi og er með andlega styrkinn í að halda lengi áfram. Þó það sé sárt að sjá á eftir Ferguson-Khabib er tilhugsunin um Gaethje-Khabib mjög spennandi!

Eins frábært og það var að sjá Gaethje vinna var ekki annað hægt en að finna til með Tony Ferguson. Ótrúlegri 12 bardaga sigurgöngu Tony Ferguson sem hófst í október 2013 er nú lokið. Ferguson sýndi ótrúlega hörku í bardaganum og tók mikið af höggum. Herb Dean stöðvaði bardagann réttilega í fimmtu lotu og gat Tony lítið kvartað yfir því. Gaethje var einfaldlega betri.

Ferguson er orðinn 36 ára gamall og það er spurning hvert hann fer eftir þennan bardaga. Bardagi gegn Conor McGregor væri rosalegur og þá væri gaman að sjá hann gegn Dustin Poirier. Þó Ferguson myndi vinna sig aftur upp í bardaga gegn Khabib yrði hann ekki eins spennandi nú þegar Ferguson er búinn að tapa. Það var svo spennandi að sjá tvo af bestu léttvigtarmönnum heims, báðir á ótrúlegri sigurgöngu mætast á hátindi ferilsins en nú er það eiginlega búið. Það væri ekki það sama að sjá Ferguson gegn Khabib núna þegar Ferguson er búinn að tapa. Það væri gaman að sjá það, en samt ekki eins spennandi og þegar báðir voru á sigurgöngu.

Embed from Getty Images

Er Henry Cejudo í alvörunni hættur?

Henry Cejudo sigraði Dominick Cruz með tæknilegu rothöggi í lok 2. lotu. Dominick Cruz var afar ósáttur við ákvörðun dómarans Keith Peterson að stöðva bardagann. Persónulega fannst mér dómarinn stöðva þetta of snemma þar sem Cruz var á leiðinni upp en ég skil hvað dómarinn var að gera. Cruz var að éta fullt af höggum og það er vel hægt að telja að hann hafi verið rotaður en um leið og Peterson er að stíga inn á milli er Cruz á leiðinni upp. Óheppileg tímasetning á stoppinu hjá Peterson en Cruz var ekki að verja höggin í gólfinu. Þetta er samt titilbardagi og á þessu getustigi vilja menn ekki tapa þegar það er einhver vafi.

Mér fannst það samt nokkuð ljóst að Cejudo væri einfaldlega betri bardagamaður eftir þessar tvær lotur. Cruz er góður að fara fimm lotur og kannski hefði hann unnið síðustu þrjár loturnar en Cejudo bombaði hann niður með hnésparki og þar með var það búið.

Það kom síðan verulega á óvart að Henry Cejudo hafi tilkynnt að hann sé hættur. Kannski er þetta bara taktík hjá honum að til að fá betri samning við UFC en ef hann er raunverulega hættur væri það leitt. Ég skil það að menn vilji hætta á toppnum en mér finnst hann eiga nóg inni 33 ára gamall. Georges St. Pierre hætti sem ríkjandi meistari og var hann farinn að dala. Hann var ennþá meistari en hans tími var að líða undir lok. Mér finnst Cejudo ennþá vera að bæta sig og langar að sjá hvort hann geti varið titilinn oftar.

Það er aldrei góð hugmynd að halda áfram að berjast ef hausinn er ekki til staðar og kannski hefur langur glímuferill tekið sinn toll á skrokkinn. Hann hefur átt glæstan feril sem bardagaíþróttamaður og getur haldið áfram að vera hallærislegur á samfélagsmiðlum. Það er samt leiðinlegt að fá ekki að sjá hann fara á móti Petr Yan og öðrum frábærum bantamvigtarmönnum UFC.

Embed from Getty Images

Francis Ngannou hefur núna unnið fjóra bardaga í röð síðan hann tapaði fyrir Derrick Lewis í einum versta bardaga í sögu UFC. Það hefur tekið Ngannou 45, 26, 71 og 20 sekúndur að vinna síðustu fjóra bardaga sína. Það er magnaður árangur en samt er maður einhvern veginn ekki að læra neitt nýtt um Ngannou í þessum sigrum. Eina sem maður veit er að hann kýlir ógeðslega fast og hittir. Kannski er það bara nóg?

Ngannou er búinn að gera nóg til að tryggja sér titilbardaga en vandamálið fyrir hann er að á toppnum er allt stopp. Þungavigtarmeistarinn Stipe Miocic hefur ekki enn náð sér að fullu í auganu eftir síðasta bardaga og er upptekinn við að vera slökkviliðsmaður á meðan kórónaveirufaraldurinn gengur yfir. Daniel Cormier bíður eftir bardaga gegn Miocic en gæti þurft að mæta Ngannou í lokabardaga ferilsins. Það er erfitt að kvarta undan bardaga Cormier og Ngannou.

Það var áhugavert að sjá bardagana í tómri höllinni á laugardaginn. Minnti á bardaga í TUF eða Contender Series. Þetta virtist ekki hafa mikil áhrif á bardagamennina sem áttu margir hverjir frábærar frammistöður. Sumir sögðust reyndar hafa heyrt vel í Daniel Cormier úr sæti sínu þegar hann lýsti bardögunum. Sumir hlustuðu það vel á hann að þeir fóru að ráðum hans í bardaganum. Svona verða bardagakvöldin næstu mánuði og þurfa bardagamenn að venjast þessu rétt eins og við áhorfendur.

Næsta bardagakvöld er strax á miðvikudaginn þegar Glover Teixeira og Anthony Smith mætast.

Embed from Getty Images
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular