spot_img
Friday, November 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHrólfur Ólafsson: Fyrsti bjórinn eftir keppni var ekki jafn ljúfur og hann...

Hrólfur Ólafsson: Fyrsti bjórinn eftir keppni var ekki jafn ljúfur og hann hefði verið eftir sigur

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Hrólfur Ólafsson barðist erfiðan bardaga um síðustu helgi og mátti sætta sig við tap. Við ræddum við Hrólf um bardagann, reynsluna, bjórinn og fleira.

Hrólfur tapaði eftir tæknilegt rothögg í 3. lotu. Hrólfur reyndi fellu en andstæðingur hans, Fabian Edwards,  stökk upp með fljúgandi hné. „Í lok bardagans var hann nýbúinn að grípa frá mér spark og lenda yfirhandar vinstri. Ég átti í vandræðum með að halda jafnvægi eftir það og endaði upp við búrið og skaut því í double leg. Þá skall hnéð hans fyrir aftan vinstra eyrað á mér og gjörsamlega tók allt jafnvægi og alla stjórnun frá mér. Ég man ég hugsaði bara ‘keyra, keyra, keyra’ en líkaminn hlýddi ekki. Svo fannst mér eins og dómarinn hafi bara stöðvað þetta strax eftir það,“ segir Hrólfur um lok bardagans.

Það tekur svo sannarlega á að berjast tæpar þrjár lotur og finnur Hrólfur vel fyrir því í dag. „Ég er frekar hakkaður í skrokknum og með mikinn hálsrýg. Á einhverjum tímapunkti í 1. lotu meiddi ég mig líka í hægri höndinni og var mjög erfitt að nota hana í bardaganum og er hún ennþá frekar aum. Annars held ég að ég muni jafna mig mjög fljótt þar sem þetta er ekkert alvarlegt svo sem.“

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Hrólfur vankaði Edwards í fyrstu lotu með hásparki og náði bakinu á honum. Lotan var hins vegar búin þegar Hrólfur var kominn í frábæra stöðu. „Í lok 1. lotu munaði engu að ég hefði klárað þetta. Ég náði að sökkva höndinni um hálsinn hans og greip með hinni hendinni, lófa í lófa grip, til að herða. Ég heyrði að það væru bara tíu sekúndur eftir þannig að ég reyndi að kreista eins og ég gat. Fyrst lófa í lófa en skipti svo yfir í bicep grip en það var of seint.“

Bardaginn fór fram í millivigt (84 kg) en Hrólfur hefur áður barist í veltivigt (77 kg). „Ég held að þetta verði minn seinasti bardagi í millivigt. Ég geng vanalega um 85-86 kg svo það er ekki mikill niðurskurður fyrir mig. Í seinustu tvo skipti hjá mér í millivigtinni hef ég lent á móti mun stærri andstæðingum og ég finn að það er ekki beint að hjálpa mér.“

Hrólfur segir að það sé margt sem hann hefði getað gert betur eða öðruvísi. „Ég reyni að brjóta mig ekki of mikið niður með þeim hugsunum og ætla frekar að læra reynslunni og gera bara alltaf betur. Þessi bardagi var engin smá reynsla og ég hef mikið að vinna með í framtíðinni. Annars gekk allt svo vel fyrir bardagann. Upphitunin var fullkomin og mér leið mjög vel þarna inni. Ég held ég hafi aldrei verið jafn mikið á staðnum og 100% einbeittur í keppni eins og nú.“

Eins og áður segir þarf Hrólfur ekki að skera mikið niður fyrir bardaga. Þrátt fyrir það er hann alltaf mjög strangur í mataræðinu sínu. „Ég borða vanalega alltaf mjög hollt en fyrir bardaga tek ég næstum allt óhollt út og það sem mér finnst erfiðast að sleppa er bjórinn. Þá er ég ekki að tala um neitt fyllerí heldur einn til tvo bjórar á vel völdu kvöldi. Fyrsti bjórinn eftir keppni var ekki jafn ljúfur og hann hefði verið eftir sigur.“

Hrólfur mun halda til Hollands á næstunni til að fylgjast með Gunnari mæta Albert Tumenov í Rotterdam. „Ég mun leyfa skrokknum að jafna sig en annars er það bara það sama – æfa og þjálfa og komast aftur út að keppa. Ég hef fengið endalausan stuðning frá öllum, bæði fyrir og eftir bardagann, og langar mig að þakka þeim kærlega fyrir. Það hefur hjálpað mér rosalega mikið rétt eins og styrktaraðilarnir mínir, Mjölnir, Óðinsbúð, Vegamót og Ginger hafa gert en Ginger hjálpaði mér að setja saman frábæra rútínu á mataræðið,“ segir Hrólfur að lokum.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular