spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHrólfur: Þarf að vinna í sálræna þættinum

Hrólfur: Þarf að vinna í sálræna þættinum

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Hrólfur Ólafsson keppti á Evrópumótinu í MMA á dögunum. Hrólfur náði ekki markmiðum sínum á mótinu en kemur heim með ný markmið.

Hrólfur keppti í millivigt (84 kg) og vann fyrsta bardagann sinn en datt út í 8-manna úrslitum. Hrólfur vann fyrri bardagann sinn gegn Finnanum Tommi Leinonen eftir klofna dómaraákvörðun.

„Eftir bardagann stóðum við í búrinu í góðar fimm mínútur og fljótlega gerði ég mér grein fyrir því að um væri að ræða klofin dómaraúrskurð og var einnig farin að hugleiða að kannski ætluðu þeir að senda okkur í svokallaða sudden death lotu sem er ein auka lota sem ákveður bardagann,“ segir Hrólfur.

Á Evrópumótinu í fyrra tapaði Hrólfur eftir klofna dómaraákvörðun í fyrsta bardaganum en óttaðist hann að sama yrði upp á teningnum í ár? „Ég verð að viðurkenna að ég var ekki viss hvernig ákvörðunin myndi fara. Mér fannst ég hafa haft mikið meiri stjórn í bardaganum sem ég tapaði í fyrra svo ég vissi ekkert við hverju var að búast.“

Hrólfur tapaði seinni bardaga sínum gegn Florian Aberger frá Austurríki eftir tæknilegt rothögg í 1. lotu. Hvað klikkaði þar?

„Í aðdraganda seinni bardagans var ég alltof stressaður. Sem var einmitt öfugt í þeim fyrri þar sem ég var alltof slakur. Svo þegar í bardagann er komið finn ég mig bara alls ekki. Planið var að vera duglegur að hreyfa mig um búrið og láta hann koma keyrandi inn og svara honum með einföldum snöggum fléttum. En ég lendi í því að bakka bara alltaf alveg upp að búrinu og standa kyrr og éta högg.“

„Svo geri ég bara þau stóru misstök að rúlla til hægri á móti southpaw og halla mér beint inni í yfirhandarvinstri og ég missi alveg fæturnar og dómarinn stöðvar þetta um leið og hann byrjar að slá mig í gólfinu. Ég var samt alveg vakandi og náði að verja hausinn alveg frá höggum í jörðinni en var hins vegar ekki að berjast á móti. Það voru rosalega mikið af hugsunum í gangi eftir þetta, en ég vissi allavega að ég þyrfti að fara endurhugsa allt mitt game upp á nýtt,“ segir Hrólfur um seinni bardagann.

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Hrólfur stefndi á gullið í ár og því var niðurstaða mótsins ákveðin vonbrigði fyrir hann. Það er augljóst að Hrólfur er góður bardagamaður. Hann er fjólublátt belti í brasilísku jiu-jitsu, er með góðar hendur og spörk, vantar ekkert upp á formið og veltum við því fyrir okkur hvað það er sem vantar upp á til að hann geti tekið næsta skref.

„Ég komst að því á þessu móti að ég þarf að vinna mun meira að andlega partinum. Ég er duglegur að æfa og er með allt frekar pottþétt í vopnabúrinu og líkaminn í topp standi en ég virðist ekki vera að mæta og performa. Ég ætla að panta mér tíma hjá íþróttasálfræðingi núna og fara að vinna í þessum hlutum á fullu. Á meðan ætla ég að keppa á minni mótum hérna heima bara til að fá að finna fyrir keppnisstressinu og sjá hvað það er sem ég þarf að vinna í.“

Hrólfur kemur heim reynslunni ríkari og tekur mikinn lærdóm frá mótinu. „Ég þarf að vinna í sálræna partinum eins og ég sagði áðan. Vita að það er í lagi að vera stressaður og hugsa um komandi bardaga en bara að hafa aðferð til að ná hausnum til baka og vera orðin einbeittur þegar á hólminn er komið.“

Núna eftir mótið getur Hrólfur slakað aðeins á eftir annasama mánuði. Það er því fátt framundan hjá honum annað en afslöppun í desember. „Ég er búinn að vera á brjálaðari keyrslu í þrjá mánuði og það verður gaman að byrja að æfa bara eins og þetta sé hobbý. Svo ætla ég að byrja vinna í hausnum hjá mér og reyna að sjá hvort ég geti ekki keppt á minni keppnum hérna heima og lært á keppnisstressið. Annars mun ég taka fullan þátt í æfingabúðum hjá Keppnisliðinu ef liðsfélagar mínir stefna á bardaga bráðlega,“ segir Hrólfur að lokum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular