Friday, March 29, 2024
HomeErlentHvað er að frétta af Dan Hardy?

Hvað er að frétta af Dan Hardy?

Dan Hardy
Mynd: Clipper Race

Dan Hardy hefur ekkert barist í þrjú ár eða síðan hann greindist með hjartagalla. Það er ekki þar með sagt að kappinn sitji á auðum höndum. Hann lýsir UFC-bardögum, er að klára bók og lauk nýverið siglingu frá London til Ríó.

Á dögunum voru nákvæmlega þrjú ár frá því Gunnar Nelson barðist sinn fyrsta UFC bardaga. Sá bardagi fór fram í Nottingham en í næstsíðasta bardaga kvöldsins mætti Bretinn Dan Hardy hinum sívinsæla Amir Sadollah. Hardy ólst upp í Nottingham og var þetta kærkomin reynsla fyrir hann að berjast aftur í heimabæ sínum.

Hardy hefur aftur á móti ekkert barist síðan þá. Hardy átti að mæta Matt Brown í apríl 2013 en fyrir bardagann greindist Hardy með hjartagalla sem kallast Wolff-Parkinson-White heilkennið. Þetta er meðfæddur galli sem hefur aldrei haft áhrif á Hardy að hans eigin sögn. Hann fær þó ekki leyfi til að berjast á meðan hann er með þennan galla.

Hardy segir sjúkdóminn ekki hamla sér að neinu leiti og hefur nóg fyrir stafni í dag. Eins og áður segir er hann UFC-lýsandi og þykir afar góður í þeirri stöðu. Hann og John Gooden sjá um að lýsa flestum UFC bardögunum í Evrópu og sjá einnig um þáttinn Inside the Octagon. Þar greinir Hardy stóra bardaga sem framundan eru og þykir hann afskaplega fróður um íþróttina.

Það kemur kannski einhverjum á óvart þar sem Dan Hardy leit ekki út fyrir að vera mikil mannvitsbrekka þegar hann kom fyrst í UFC. Hann minnti um margt á Conor McGregor þar sem hann reif kjaft við allt og alla og eiginlega talaði sig upp í stóran titilbardaga – bardagi sem mörgum fannst hann ekki eiga skilinn.

Hardy skartaði eldrauðum hanakambi með góm sem leit út eins og vígtennur og bar viðurnefnið ‘The Outlaw’ eða útlaginn. Þó hann sé að vissu leiti útlagður úr UFC núna virðist hann eiga góða framtíð fyrir sér í bardagaheiminum utan búrsins.Dan Hardy

Hardy heldur áfram að koma á óvart en fyrir skömmu fór hann í 28 daga siglingu frá London til Ríó í Brasilíu. Þetta var engin skemmtisigling heldur seglbáta kapp. Hann var einn af 23 áhafnarmeðlimum sem sigldi fyrir hönd Bretlands til Brasilíu. Í siglingunni upplifði hann nýjan skilning á einangrun.

„Þetta var mun erfiðara en ég hélt. Þú færð enga hvíld, þetta er stanslaus vinna. Þú hvílir í fjóra tíma í senn en maður er alltaf á varðbergi eftir hrópum áhafnarmeðlima og svo er báturinn auðvitað á fleygiferð allan tímann þannig að maður fær ekki almennilegan svefn,“ segir Hardy í viðtali við MMA Fighting.

„Það kom tími þar sem ekkert var nálægt manni nema áhafnarmeðlimir og geimstöðvarnar. Mér finnst það ótrúlegt að vera svona langt frá öllu sem maður er vanur. Enginn tölvupóstur, enginn sími, ekkert.“

Dan Hardy Jose Aldo
Mynd: Clipper Race

Reynslan var dýrmæt fyrir Hardy en alls ekki auðveld. Einn af áhafnarmeðlimunum handleggsbrotnaði og þá voru fréttir af dauðsfalli áhafnarmeðlims Suður-Afríska liðsins ekki til að róa taugarnar. Önnur skúta var svo nálægt því að sökkva á miðju hafi.

„Ég lærði gríðarlega margt af þessu og missti nokkur kíló. Mér finnst ég vera sterkari núna þó það sé erfitt að byggja upp vöðva þegar þú sefur svona lítið. En ég er svo sannarlega sterkari andlega.“

Hardy er núna í Ríó í afslöppun og erindum en hann tók m.a. æfingu með fjaðurvigtarmeistaranum Jose Aldo. Framundan hjá honum er lýsing á UFC bardagakvöldinu í Dublin þann 24. október en eftir það ætlar hann að athuga hvort hann geti tekið bardaga. Hardy á þrjá bardaga eftir af samningi sínum við UFC og ætlar hann sér að klára samninginn. Berjist hann ekki aftur er sigurinn á Amir Sadollah í Nottingham viðeigandi endir á bardagaferlinum.

Hardy er eflaust áhugaverðari maður en marga grunaði þegar hann sást fyrst í UFC. Hann stefnir á að ljúka við bókina sína á næstunni en hann hefur ekkert gefið út um hvað bókin fjallar.

Hér að neðan má sjá skemmtilega klippu frá Dan Hardy á skútunni.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular