0

Þrjú ár síðan Gunnar Nelson barðist sinn fyrsta bardaga í UFC

Gunnar Nelson

Gunnar í vigtuninni.

Í dag, 29. september 2015, eru þrjú ár síðan Gunnar Nelson barðist sinn fyrsta bardaga í UFC. Þá mætti hann Bandaríkjamanninum DaMarques Johnson á UFC on Fuel TV 5 í Nottingham.

Það voru ekki bara Íslendingar sem voru spenntir fyrir að sjá Gunnar berjast í fyrsta sinn í UFC. Flestir stóru MMA-vefmiðlarnir voru spenntir fyrir því að sjá hversu öflugur Gunnar væri á stóra sviðinu.

Gunnar átti upphaflega að mæta Pascal Krauss á bardagakvöldinu. Tveimur vikum fyrir bardagann rifbeinsbrotnaði Krauss og gat því ekki barist. Rich Attonito kom í hans stað en innan við sólarhring síðar hætti hann við þar sem hann taldi sig ekki geta náð 170 punda veltivigtartakmarkinu. Það var að lokum DaMarques Johnson sem varð fyrir valinu en valið kom mörgum á óvart.

Aðeins nokkrum vikum áður hafði Johnson verið rotaður illa af Mike Swick. Þegar kom að bardaganum virtist Johnson ekki vera tilbúinn þar sem hann kom alltof þungur til leiks. Bardaginn átti upphaflega að fara fram í 170 punda veltivigtinni en daginn sem vigtunin fór fram var ljóst að Johnson myndi ekki ná vigt. Því var samið um 175 punda hentivigt.

Það breytti litlu fyrir Johnson sem vigtaði sig inn 183 pund eða 13 pundum (tæp 6 kg) yfir upphaflega 170 punda veltivigtartakmarkinu. Þetta vakti ekki mikla ánægju hjá UFC og gat Gunnar hætt við bardagann ef hann vildi – UFC hefði skilið það þar sem Johnson var alltof þungur. Gunnar tók það ekki í mál enda meira en tilbúinn í bardagann.

Bardagi Gunnars var annar bardagi kvöldsins en skömmu áður hafði Robbie Peralta steinrotað Jason Young á aðeins 20 sekúndum í fyrsta bardaga kvöldsins.  Það var ekki til að minnka stressið hjá spenntum Íslendingum.

Gunnar var þó sá rólegasti sjálfur og olli ekki vonbrigðum í bardaganum. Hann sigraði Johnson eftir hengingu í fyrstu lotu og var afar sannfærandi í sínum sigri.

Sjá einnig: Gamli bardaginn – Gunnar Nelson gegn DaMarques Johnson 29.9.2012

UFC aðdáendur fengu strax að kynnast rólegu yfirlæti Gunnars í viðtalinu eftir bardagann. „Þetta er mjög spennandi. Ég er ánægður með að vera hér og er ánægður með sigurinn,“ sagði Gunnar í viðtalinu eftir bardagann og sýndi lítil svipbrigði. Það vakti athygli og gerðu MMA aðdáendur létt grín að rólegu yfirlæti Gunnars.

gunnar nelson excited

Eftir sigurinn á Johnson hélt Gunnar áfram á sigurbraut þar til hann mætti Rick Story í október í fyrra. Hann er nú með fimm sigra og eitt tap í UFC sem verður að teljast nokkuð gott. Hann mun leitast eftir sjötta sigrinum sínum þann 12. desember er hann mætir Demian Maia á UFC 194.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.