spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaHvað gæti verið framundan fyrir Gunnar?

Hvað gæti verið framundan fyrir Gunnar?

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Gunnar Nelson hefur náð sér af ökklameiðslum sem komu í veg fyrir bardaga hans gegn Dong Hyun Kim í fyrra. Gunnar er því tilbúinn til að snúa aftur í búrið og skoðum við hvað gæti verið framundan hjá honum.

Árið fer rólega af stað hjá UFC og er ekkert risakvöld framundan. Fyrsta bardagakvöld UFC fór fram um síðustu helgi og hefur UFC staðfest átta bardagakvöld til viðbótar á þessum fyrstu mánuðum ársins.

Hvenær mun hann berjast?

Það er ólíklegt að Gunnar verði á bardagakvöldunum sem eru í febrúar upp úr þessu nema eitthvað óvænt komi upp. UFC er með þrjú bardagakvöld í mars og hefur staðfest eitt kvöld í apríl og gæti Gunnar lent á þessum bardagakvöldum.

UFC 209 (4. mars): Þetta verður fyrsta stóra bardagakvöld ársins og stefnir í ansi gott kvöld. Tveir titilbardagar (annar bardaginn samt bara upp á bráðabirgðarbelti) verða á kvöldinu og nú þegar hafa níu bardagar verið staðfestir á kvöldið. Það er stutt í kvöldið og kannski ólíklegt að Gunnar berjist þarna upp úr þessu þó það yrði mjög skemmtilegt.

UFC Fight Night: Belfort vs. Gastelum (11. mars): Það er mjög ólíklegt að Gunnar lendi á þessu bardagakvöldi enda fer það fram í Brasilíu. Það væri ekki nema Gunnar myndi mæta Brasilíumanni en aðeins einn Brasilíumaður er á topp 15 í UFC í veltivigtinni, Demian Maia, og getum við útilokað að þeir mætist aftur í bráð.

UFC London (18. mars): Viku síðar heimsækir UFC London en eins og við greindum frá í síðustu viku er bardagakvöldið að verða ansi troðið. UFC hefur ekki enn tilkynnt aðalbardaga kvöldsins og gæti Gunnar jafnvel endað í aðalbardaganum. Ef Gunnar verður ekki í aðalbardaga kvöldsins er hæpið að hann verði í London.

UFC 210 (8. apríl): Þetta bardagakvöld fer fram í Buffalo í New York ríki og hefur enginn bardagi verið staðfestur á kvöldið þegar þetta er skrifað. Gunnar hefur áður sagt að hann hafi mikinn áhuga á að berjast í New York og þó Buffalo sé í rúmlega 600 km akstursfjarlægð frá New York borg gæti þetta verið spennandi.

UFC hefur ekki staðfest fleiri bardagakvöld á þessu ári. Gunnar gæti endað á bardagakvöldi sem ekki hefur enn verið staðfest.

Gegn hverjum?

Gunnar er sem stendur í 10. sæti á styrkleikalista UFC í veltvigtinni og fær sennilega einhvern sem er nálægt sér á listanum. Það eru þó ekki margir á lausu eins og er.

Neil Magny: Vann Johny Hendricks í desember og langar að berjast aftur sem fyrst. Hefur unnið fjóra af síðustu fimm bardögum sínum og er í 8. sæti á styrkleikalistanum. Væri að okkar mati besti kosturinn á þessari stundu.

Dong Hyun Kim: UFC gæti ákveðið að bóka Gunnar aftur gegn Dong Hyun Kim. Kóreumaðurinn vann Tarec Saffiedine í desember eftir klofna dómaraákvörðun en sigurinn var langt í frá sannfærandi og hefði sigurinn getað dottið beggja megin. Kim er í 7. sæti eins og stendur og þó hann vilji topp 5 andstæðing núna gæti UFC verið á öðru máli.

Lorenz Larkin: Flottur bardagamaður en gæti verið á útleið úr UFC. Samningur hans við UFC rann út í ágúst eftir frábæran sigur á Neil Magny og náðust samningar ekki á milli Larkin og UFC. Nú er Larkin laus allra mála og getur rætt við önnur bardagasambönd og er sennilega að gera það. Er hugsanlega á leið til Bellator og því óvíst hvort hann sé möguleiki á þessari stundu.

Rick Story: Þetta yrði fyrsta endurat Gunnars á ferlinum en Story vann Gunnar eftir klofna dómaraákvörðun í Stokkhólmi 2014. Það er ekki svo langt síðan þeir mættust og væri óvænt ef UFC myndi ákveða að endurtaka þennan bardaga. Annað eins hefur þó gerst.

Tarec Saffiedine: Eins og áður segir tapaði hann fyrir Dong Hyun Kim í desember. Er 2-3 í UFC en er ennþá á topp 15 í veltivigtinni. Tarec fær sennilega einhvern lægra skrifaðan en Gunnar næst en þó er aldrei að vita.

Matt Brown: Sá ólíklegasti á þessari stundu en Brown hefur tapað fimm af síðustu sex bardögum sínum og virðist vera á niðurleið. Er þrátt fyrir það ennþá að hanga inn á topp 15. Þarf að næla sér í sigur og mun sennilega fá einhvern utan topp 15 næst.

Jake Ellenberger: Hefur líka átt erfitt uppdráttar en hangir enn á topp 15 listanum. Tapaði síðast fyrir Jorge Masvidal í desember eftir að hafa fest hælinn í búrinu. Óheppileg uppákoma en þykir ekkert sérlega líklegur sem næsti andstæðingur Gunnars.

Kamaru Usman: Upprennandi bardagamaður sem hefur unnið alla fjóra bardaga sína í UFC. Hefur óskað eftir stórum nöfnum á borð við Demian Maia og gæti fengið stórt tækifæri gegn Gunnari.

Allt eru þetta bara getgátur okkar og verður afar spennandi að sjá hvar Gunnar berst og við hvern.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular