Georges St. Pierre, eða GSP, er einn sigursælasti bardagamaður allra tíma. Hann er ein skærasta stjarna MMA og súperstjarna í heimalandi sínu, Kanada.
Á laugardaginn var varði hann titil sinn í 9. skipti, en aðeins Anderson Silva hefur gert betur. Bardaginn sjálfur var frábær en úrslitin meira en lítið umdeild. Undirrituðum fannst GSP vinna lotu 3 og 5 sem þýðir að Johny Hendricks hefði átt að vinna með stigunum 48 á móti 47. Flestir virðast sammála þessu og MMA heimurinn hefur logað í kjölfarið. NSAC ( Nevada State Athletic Commission) hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir slæm vinnubrögð og vanhæfni. Það er kannski aðeins of hörð gagnrýni þar sem deilan snýst að mestu um eina lotu (fyrstu) sem var nokkuð jöfn. Dana White hefur látið NSAC heyra það í viðtölum eftir bardagann. Hann hefur auk þess sagt að honum fannst Hendricks vinna og að hann fái að berjast um titilinn aftur í sínum næsta bardaga. En spurningin er, á móti hverjum?
Venjulega væri það auðvitað annar bardagi á móti GSP en ummæli hans eftir bardagann hafa vakið furðu. Í viðtali við Joe Rogan beint eftir bardagann sagðist GSP ætla að taka sér frí í óákveðið langan tíma af persónulegum ástæðum. Þetta er eitthvað sem hann virtist vera búinn að ákveða fyrirfram en hver er ástæðan? Það er talað um GSP sem mjög agaðan, einbeittan og faglegan meistara sem hugsar ekki um annað en að sigra næsta andstæðing þrátt fyrir að eiga digra sjóði í banka. Þetta útspil hans kom því töluvert á óvart. Persónulega hugsaði undirritaður að hann ætti við andleg vandamál að stríða. Fjölmörg ár sem meistari og þjóðhetja hljóta að vera slítandi. Allra augu hvíla á honum svo pressan hlýtur að vera rosaleg.
GSP virkar annars í ágætis jafnvægi. Jú, hann talaði um að hann hefði dökka hlið áður en hann barðist við Nick Diaz. Fyrir bardagann við Hendricks talaði hann um að vera helsetinn og ætti erfitt með svefn sem gefur vísbendingu um hversu manískur hann getur verið. Eftir bardagann á laugardaginn vildi hann ekki tala um hver ástæðan væri fyrir fríinu en orðrómur er um að faðir hans sé að deyja og að GSP sé búinn að barna einhverja konu en vill ekki að hún eignist barnið. Fjölskylda GSP segir að þetta sé ekki rétt með föður hans og þetta með barnið hljómar eins og slúður. Kannski þarf kallinn bara frí, hann hefur svo sem unnið sér inn fyrir því.
Ef GSP verður lengi frá verður beltið í veltivigt sennilegt látið laust. Nokkrir andstæðingar kæmu til greina á móti Hendricks. Það má segja að Robbie Lawler sé inni í myndinni eftir frækinn sigur á Rory MacDonald. Bardagi Carlos Condit og Matt Brown gæti búið til andstæðing eins með Jake Ellenberger á móti Tarec Saffiedine. Sjálfur vonar undirritaður að GSP jafni sig á nokkrum mánuðum og berjist aftur við Hendricks næsta sumar.