Holly Holm átti frábæra frammistöðu í gær þegar hún rotaði Rondu Rousey með hásparki í 2. lotu. Þetta er einn óvæntasti sigur í sögu UFC en hver er þessi Holly Holm?
Holly ‘The Preachers Daughter’ Holm ber nafn með rentu enda er hún dóttir prests. Hún var mikið í íþróttum sem krakki og æfði fimleika, sund, dýfingar og fótbolta. Hún ákvað að prófa fitness box sem unglingur og eftir nokkra mánuði þar hvatti þjálfarinn hana til að mæta í tæknitímana. Þjálfarinn var hinn reynslumikli Mike Winkeljohn og sá hann mikinn efnivið í Holm. Hún fór fljótlega að æfa og keppa í sparkboxi með góðum árangri.
Holm ákvað að skipta yfir í boxið síðar meir og þar átti hún afskaplega góðu gengi að fagna. Hún var 18-faldur heimsmeistari í boxi. Það er þó sérstakt að vera margfaldur heimsmeistari í boxi en berjast aðeins þrívegis á ferlinum utan heimabæ hennar, Albuquerque.
Holm var tvívegis valin besti kvenboxari heims af Ring tímaritinu og er einn besti kvenkyns boxari allra tíma í veltivigtinni að margra mati. Ferillinn samanstóð af 33 sigrum, tveimur töpum og þremur jafnteflum.
Í mars 2011 tók hún sinn fyrsta MMA bardaga sem hún sigraði eftir tæknilegt rothögg. Í maí 2013 ákvað hún að segja skilið við boxið til að einbeita sér að fullu að MMA.
Holly Holm vakti strax mikla athygli fyrir rothögg sín í MMA og var hún fljótlega sögð sú eina sem gæti ógnað Rousey af einhverju viti. Rothögg hennar í gær var ekki það fyrsta eftir vinstri háspark. Það var svo í febrúar á þessu ári sem hún barðist í fyrsta sinn í UFC.
Væntingarnar voru gríðarlegar og óhætt að segja að Holm hafi valdið mörgum vonbrigðum. Báðir bardagarnir hennar voru sigrar eftir dómaraákvörðun og voru það fremur óspennandi bardagar.
Það var því kannski ekki skrítið að fáir töldu að hún ætti einhvern séns í Rousey eftir sigrana sína tvo í UFC. Áður en hún kom í UFC gátu aðdáendur vart beðið eftir að sjá þær saman í búrinu en nú þegar Holm fékk bardagann töldu flestir að bardaginn kæmi alltof snemma fyrir hana.
Sumir telja að Holm hafi aðeins verið að æfa leikáætlun sína fyrir Rousey í sigri sínum á Marion Reneau í júlí. Þar notaði hún hliðarspörk í skrokkinn og góða fótavinnu til að halda Reneau frá sér – allt vopn sem áttu eftir að virka vel gegn Rousey. Auðvitað er Reneau allt öðruvísi andstæðingur en Rousey en líkindin eru að vissu leiti til staðar.
Rothögg hennar utan UFC voru flott en þau voru gegn andstæðingum sem áttu ekki heima í UFC. Þegar Holm kom svo í UFC sýndi hún ekki nálægt því jafn mikla yfirburði og var svo sannarlega ekki að rota andstæðinga sína með háspörkum. Það var því ansi hár stuðull á sigri hjá Holm, hvað þá eftir rothögg með hásparki.
Holm kom inn í bardagann með fullkomna leikáætlun með aðstoð þeirra Greg Jackson og Mike Winkeljohn. Hin 34 ára Holly Holm hefur unnið með Winkeljohn allan sinn feril í sparkboxi, boxi og MMA. Þeir Jackson og Winkeljohn vissu því nákvæmlega hvaða vopn Holm væri með til að vinna Rousey. Þeir tveir eru þekktir fyrir að koma með frábæra leikáætlun og sáum við eina slíka í gær.
Margir eru fljótir að gagnrýna Rousey en það má ekki taka frá Holm hvað hún átti frábæra frammistöðu í gær. Hún notaði fótavinnuna til að halda sér frá Rousey og leyfði henni ekki að króa sig af við búrið. Hún notaði hliðarspörk í skrokk og hnén (oblique spörk) til að halda Rousey frá líkt og æfingafélagi hennar, Jon Jones, hefur gert um langt skeið. Ólíkt fyrri andstæðingum Rousey var hún yfirveguð og þolinmóð.
Holm er nánast andstæða við Rondu Rousey. Hún er róleg, kurteis og virkar afskaplega ljúf kona. Í búrinu er hún þolinmóð, velur höggin sín vel og heldur góðri fjarlægð. Á sama tíma er Rousey gífurlega ásárargjörn, veður áfram frá fyrstu sekúndu og er langt frá því að vera þolinmóð.
Þetta er þriðji sigur Holm eftir vinstri háspark og sá lang stærsti hingað til. Milljónir manna horfðu á bardagann í gær og á líf Holm eflaust eftir að breytast eftir helgina. Þessi rólega og yfirvegaða kona er hetja í heimabæ sínum, Albuquerque og samkvæmt borgarstjóra Albuquerque mun hún fá frábærar móttökur þegar hún kemur heim.
Líklegast mun Holm mæta Rousey aftur í sínum næsta bardaga og gæti sá bardagi farið fram á UFC 200 í júlí. Hún hefur nú skrifað nafn sitt í sögubækurnar og hefur bantamvigt kvenna galopnast nú með nýjum meistara, Holly Holm.