0

Hver er þessi Leon Edwards?

Gunnar Nelson Gunni Leon EdwardsGunnar Nelson mætir Leon Edwards á UFC bardagakvöldinu í London í mars. Bardaginn er gríðarlega mikilvægur fyrir Gunnar en hvaða maður er þetta sem Gunnar mun kljást við í mars?

Bardaginn verður næstsíðasti bardagi kvöldsins þann 16. mars í The O2 Arena. Leon Edwars er í 10. sæti styrkleikalistans eða tveimur sætum fyrir ofan Gunnar og getur Gunnar tekið góð skref fram á við með sigri. Það er þó alveg ljóst að Gunnar mun þurfa að hafa mikið fyrir því ef hann ætlar að vinna Edwards en á engu að síður fínan möguleika gegn Edwards.

Leon Edwards er 27 ára gamall en hann fæddist í Kingston í Jamaíka. Hann flutti ungur að aldri til Birmingham á Englandi þar sem hann ólst upp. Á unglingsárum sínum var Edwards mikið í slagsmálum og kölluðu skólafélagar hans hann ‘Rocky’ vegna látanna og hefur það nafn fests við hann síðan þá. Einn þessara skólafélaga var enski framherjinn Saido Berahino, leikmaður Stoke á Englandi.

Edwards var þó orðinn þreyttur á að vera í einhverjum götuslagsmálum og langaði að læra almennilega að verja sig. 17 ára gamall fór hann að æfa MMA og féll umsvifalaust fyrir íþróttinni. Götuslagsmálunum skipti hann fyrir áhugamannabardaga í MMA. Tvítugur tók hann sinn fyrsta atvinnubardaga og varð meðal annars veltivigtarmeistari BAMMA með sigri á Wayne Murrie. Þess má geta að Árni Ísaksson rotaði sama Murrie tveimur árum áður þegar Árni varð Cage Contender meistari.

Í sínum fyrsta bardaga í UFC mætti hann Brasilíumanninum Claudio Silva í Brasilíu. Bardaginn var afar jafn en svo fór að Silva vann eftir dómaraákvörðun. Margir töldu að Edwards hefði átt að vinna en niðurstöðunni verður ekki breytt. Edwards stimplaði sig svo heldur betur inn í UFC með því að rota reynsluboltann Seth Baczynski á aðeins átta sekúndum og fyrsti sigurinn í UFC kominn í höfn.

Eftir tvo sigra í röð fékk Edwards bardaga gegn Kamaru Usman. Usman gerði líkt og hann hefur gert við alla hans andstæðinga hingað til í UFC og stjórnaði Edwards með fellum og hélt Edwards vel niðri. Svo sem engin skömm í þessu tapi enda hefur Usman gert þetta við alla sína andstæðinga og berst um veltivigtartitilinn í mars.

Síðan þá hefur Edwards einfaldlega ekki tapað. Hann hefur unnið sex bardaga í röð en oft hefur farið fremur lítið fyrir honum. Hann hefur ekki verið duglegur að klára bardaga sína, er ekki framúrskarandi á neinu sviði, sýnir sjaldan einhver tilþrif sem menn verða agndofa yfir og er ekkert sérstaklega góður í kjaftinum. Hann er bara alhliða góður bardagamaður með fáa veikleika. Það er erfitt að taka hann niður, það er erfitt að halda honum niðri og það er erfitt að koma góðum höggum á hann. Sjálfur er hann góður glímumaður, með góðar fellur, góður að stjórna andstæðingunum í gólfinu og tæknilega góður standandi.

Núverandi sigurganga hans er eftirtektarverð en andstæðingarnir verið misjafnir. Sigurinn gegn Albert Tumenov (sem Gunnar Nelson hafði sigrað nokkrum mánuðum áður) var flottur en þar var Tumenov á góðri leið með að ná sigri þangað til Edwards náði fellu í 3. lotu og kláraði í gólfinu. Tumenov var mun betri standandi í bardaganum og var Bretinn í vandræðum í standandi viðureign en tókst samt að klára bardagann.

Edwards var lengi vel ósáttur með þá andstæðinga sem hann var að fá. Þegar hann fékk Peter Sobotta í London í fyrra var hann svekktur enda vildi hann fá stærri nöfn. Hann var þó meðvitaður um að það væri ekki nóg bara að vinna heldur þyrfti hann að gera það sannfærandi og klára bardagann. Edwards sýndi mikla yfirburði gegn Sobotta og kláraði hann þegar ein sekúnda var eftir af bardaganum. Sigurinn var svo sem ekki á allra vörum en hann reyndi að koma sér í umræðuna í viðtalinu eftir bardagann og skoraði þá á Darren Till. Edwards hlaut ekki náð fyrir augum UFC og mætti Till Bandaríkjamanninum Stephen Thompson.

Þó Edwards hafi ekki fengið Till fékk hann samt það sem hann vildi, stóran bardaga gegn topp andstæðingi, þegar hann mætti Donald Cerrone í aðalbardaga kvöldsins á bardagakvöldi í Singapúr. Edwards vann eftir dómaraákvörðun í fínasta bardaga. Það sem vakti helst athygli var hvernig hann notaði olnbogana þegar þeir aðskildust úr „clinchinu“ og blóðgaði hann Cerrone með nákvæmum olnbogum. Edwards er því með nokkur góð vopn sem Gunnar þarf að passa sig á þegar þeir mætast.

Embed from Getty Images

Edwards á yngri bróður sem er líka í MMA – Fabian Edwards. Yngri bróðirinn er eitt mesta efni á Englandi núna og er 5-0 sem atvinnumaður en alla atvinnubardagana hefur hann klárað. Fabian hefur barist í Bellator og BAMMA (rétt eins og eldri bróðirinn) en hann berst sinn næsta bardaga á Bellator í Newcastle þann 9. febrúar.

Þeir Edwards bræður hafa áður mætt Íslendingi en Fabian mætti Hrólfi Ólafssyni á Shinobi War 7 í maí 2016. Um áhugamannabardaga var að ræða en á þeim tíma var Fabian 3-0 sem áhugamaður. Bardaginn var frábær og var Hrólfur ekki langt frá því að klára Fabian í 1. lotu með hengingu. Fabian náði hins vegar að lifa af og endaði á að klára Hrólf með tæknilegu rothöggi í 3. lotu. Leon var í horninu hjá Fabian þá og má búast við að Fabian verði í horninu hjá Leon þann 16. mars þegar Leon mætir Gunnari.

Nú eru rúmar átta vikur í bardagann hjá Gunnari gegn Leon Edwards. Þetta er fullkomið tækifæri fyrir Gunnar til að taka gott skref í átt að toppnum. Gunnar hefur áður verið í sömu stöðu en ekki tekist ætlunarverk sitt og verður gaman að sjá hvort sigurinn komi í höfn þann 16. mars.

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.