Eins og flestir vita sigraði Gunnar Nelson Bandaríkjamanninn Zak Cummings síðastliðið laugardagskvöld á frábæru bardagakvöldi í Dublin. Eðlilega velta menn nú fyrir sér hvað taki við hjá Gunnari.
Gunnar færði sig upp um eitt sæti á styrkleikalista UFC í veltivigtinni og er nú í 12. sæti. Í viðtalinu við Dan Hardy eftir bardagann lýsti Gunnar yfir áhuga sínum á að mæta andstæðingi í topp 10 eða topp 5 næst. Hins vegar er aðeins einn andstæðingur í topp 5 laus til að berjast sem stendur – Rory MacDonald. Að sama skapi eru margir í topp 10 sem eiga nú þegar bókaðan bardaga eða eru meiddir og fækkar það möguleikunum.
Hér munum við því velta fyrir okkur mögulegum næsta andstæðingi hans og er þeim skipt upp í þrjá flokka, allt eftir hve líklegir þeir þykja til að verða næsti andstæðingur Gunnars.
Líklegir:
Sigurvegari bardaga Demian Maia og Mike Pyle (Maia og Pyle mætast 23. ágúst á UFC Fight Night 49)
- #13 Mike Pyle er á góðu skriði og hefur sigrað fimm af síðustu sex. Pyle átti upprunalega að mæta Gunnari á UFC 160 í maí en Gunnar þurfti að hætta við bardagann vegna meiðsla.
- #8 Demian Maia hefur átt öllu brösóttara gengi í veltivigtinni og hefur aðeins unnið einn af síðustu þremur. Hann er engu að síður númer átta á styrkleikalista UFC og er risa nafn. Þá væri auðvelt fyrir UFC að markaðssetja viðureign Gunnars og Maia sem baráttuna um bestu jiu-jitsu hæfileika veltivigtarinnar en þessir tveir eru án efa sterkustu jiu-jitsu kapparnir í þyngdarflokknum.
- #11 Kelvin Gastelum er ungur og efnilegur og þarf, líkt og Gunnar, annan sigur áður en hann fær tækifæri gegn topp 5 andstæðingi.
- #14 Ryan LaFlare átti upprunalega að mæta Gunnari í síðasta bardaga en meiddist. Hann er stór og sterkur glímukappi og sigur gegn honum myndi að öllum líkindum skjóta Gunnari inn á topp 10
Frekar ólíklegir:
- #9 Tarec Saffiedine hefur verið nefndur sem mögulegur næsti andstæðingur. Saffiedine hefur hins vegar lýst yfir áhuga á að berjast við Rory MacDonald næst. Saffiedine kom inn í UFC sem Strikeforce meistarinn og er í topp 10 og því er líklegra að hann fái tækifæri til að mæta MacDonald heldur en Gunnari.
- #7 Jake Ellenberger er að jafna sig á meiðslum og hefur tapað tveimur í röð. Hann er engu að síður stórt nafn og sigur gegn honum myndi gera ýmislegt fyrir Gunnar.
Mjög ólíklegir:
- #6 Hector Lombard er meiddur og þurfti að draga sig út úr bardaga gegn “Stun Gun” Dong Hyun Kim. Ekki er víst hvernær hann snýr aftur.
- #3 Rory MacDonald. Dana lét hafa eftir sér í Írlandi að hann væri ekki hrifinn af því þegar upprennandi bardagakappar tækju of stór stökk uppávið. Gunnar keppti síðast við andstæðing sem var ekki í topp 15 og því væri Rory að öllum líkindum of stórt stökk. Það verður því að teljast ólíklegt að Dana verði við bón Gunnars um að fá topp 5 andstæðing næst en þó er aldrei að vita.
- Andstæðingur Gunnars meiðist. Gunnar fær einn af þessum andstæðingum en það skiptir ekki máli hver það verður því andstæðingurinn meiðist. Gunnar mætir þess í stað tiltölulega óþekktum bardagamanni.
Mér þætti Mike Pyle. skemmtilegasti og besti andstæðingurinn fyrir Gunna. Pyle er reynslubolti, nokkuð “well rounded” enn svipaður af stærð og Gunni. Það væri virkilega góður reynslubanka bardagi fyrir Gunna, enn þrátt fyrir það nokkuð öruggur sigur fyrir Gunna þrátt fyrir reynslu Pyle. Demian Maia væri nátturlega alger snilld líka. Og ég er hjartanlega samála Dana white hérna, það er alger óþarfi að flýta sér um og of, frekar byggja upp reynslu hægt og rólega.
Demian Maia væri frábær fyrir Gunna og mjög auðveldur sigur held ég.
Væri til í að sjá hann á móti silva