Friday, April 26, 2024
HomeErlentHvernig er andleg heilsa Tony Ferguson?

Hvernig er andleg heilsa Tony Ferguson?

Tony Ferguson mætir Donald Cerrone á morgun á UFC 238. Mikið hefur verið rætt um andlega heilsu Tony Ferguson eftir áhyggjuvaldandi frásagnir frá eiginkonu hans.

Þegar bardagi Dustin Poirier og Max Holloway um bráðabirgðartitilinn í léttvigt var fyrst staðfestur veltu margir fyrir sér hvar Tony Ferguson væri. Dana White sagði síðan að Ferguson væri að glíma við persónuleg vandamál og þyrfti að koma þeim málum á hreint áður en hann gæti barist.

Nokkrum vikum seinna komu fréttirirnar af erfiðu heimilislífi Ferguson. Í fyrstu var greint frá því að eiginkona Ferguson, Cristina Ferguson, hefði greint frá heimilisofbeldi af hálfu Ferguson og vildi fá nálgunarbann til að vernda sig og son þeirra.

Frekari málsgögn litu dagsins ljós og kom þar ýmislegt áhyggjuvaldandi fram varðandi andlega heilsu Ferguson. Ferguson á að hafa haft alvarlegar ranghugmyndir og ofsóknaræði samkvæmt opinberum málsgögnum nálgunarbannsins.

Þann 5. febrúar vakti Ferguson alla nóttina þar sem hann taldi að flóð væri á leiðinni vegna tunglmyrkvans. Ferguson keypti björgunarbát og keyrði með fjölskylduna í eyðimörkina til að forðast flóðið sem kom aldrei.

12. febrúar sakaði hann konuna sína um að vera norn og að hún væri í raun ekki konan sín. Viku seinna hélt hann því fram að hann væri með tölvukubb í sköflungnum sem hefði verið ígræddur.

Christina reyndi að fara með Ferguson í læknishendur og samþykkti Ferguson að leita sér hjálpar. Á leiðinni á spítalann stökk hann hins vegar úr bílnum á umferðarljósum og flúði. Ferguson hefur einnig rifið niður spegla og víra á heimilinu sannfærður um að þar megi finna hlerunarbúnað, tekið mat frá syni sínum þar sem hann taldi að verið væri að eitra fyrir honum og reyndi að skvetta „heilugu vatni“ á konu sína og barn.

Ferguson leitaði sér hins vegar loksins hjálpar og sagði Cristina að Ferguson væri góður faðir og góður maður en þyrfti aðstoð. Eftir að Ferguson komst í réttar hendur dró Cristina nálgunarbannið til baka.

Skömmu síðar stóðst Ferguson einhvers konar læknisskoðun og fékk leyfi til að berjast.

Það leið ekki á löngu þar til hann var kominn með bardaga eftir fund með Dana White, forseta UFC. Cristina sagði að Ferguson hafi verið á Risperidone geðlyfinu frá 2012 en lyfið er notað í meðhöndlun á geðhvarfasýki og geðklofa. Lyfin hjálpuðu Ferguson en hegðun hans varð verri árið 2017 þegar hann fór að drekka aftur. Þegar Ferguson meiddist fyrir titilbardagann gegn Khabib í apríl 2018 varð hann síðan enn verri.

Nú virðist Ferguson hafa leitað sér hjálpar en það er engu að síður áhyggjuefni að maður með þessa sögu sé að fá höfuðhögg.

Ferguson sagði síðan að fjölskyldulífið hefði aldrei verið betra og hefur tekið aftur saman við konuna sína. „Við erum hamingjusöm. Ég er með strákinn minn, ég er með konuna mína, hvað er betra en það? Allir eiga við einhver vandamál að stríða en það er þeirra mál,“ sagði Ferguson við ESPN í vikunni.

Það er gleðiefni að Ferguson hafi leitað sér hjálpar og sé kominn á rétta braut. Það er samt ekki hægt að neita því að það er áhyggjuefni að maður sem er með þessa sögu sé að fara í hápressu umhverfi þar sem hann fær í sig höfuðhögg.

Tony Ferguson mætir Donald Cerrone á UFC 238 annað kvöld.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular