spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaÍslendingarnir sigursælir í Dublin!

Íslendingarnir sigursælir í Dublin!

5 Íslendingar kepptu um helgina á Euro Fight Night í Írlandi. Skemmst er frá því að segja að allir Íslendingarnir hafi staðið sig frábærlega og var uppskeran góð, 4 sigrar og 1 tap. John Kavanagh, þjálfari Gunnars Nelson, stendur að keppninni en til stendur að halda fleiri slík kvöld. Kvöldið samanstóð af 10 bardögum en þar af voru 3 atvinnumannabardagar. Bardagar Íslendinganna 5 voru sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Allir áhugamannabardagarnir voru þrjár þriggja mínútna lotur.

Egill Øydvin Hjördísarson (Mjölnir)  vs. Josh Mahone (KBA) – millivigt (84 kg)

Fyrsti Íslendingurinn á vettvang var Egill Øydvin Hjördísarson. Egill var að keppa sinn fyrsta MMA bardaga en hann hefur bætt sig gríðarlega mikið á stuttum tíma. Egill hefur æft íþróttina frá janúar 2012 og lagt gríðarlega mikið á sig á þeim stutta tíma til að komast á þann stað þar sem hann er núna. Egill gekk inn með lagið „Trúir þú á engla“ eftir Bubba Morthens og vakti það mikla kátínu hjá Bubba sem lýsti keppninni ásamt Dóra DNA. Það var ekki að sjá á öðru en að Egill væri meira en tilbúinn í bardagann. Hann náði fljótt fellu á andstæðing sinn og endaði í „side-mount“. Eftir að hafa lent í skamma stund í „half-guard“ náði hann að komast í „mount“. Úr „mount“ fór hann í „triangle“ hengingu og lét sig falla á bakið. Þar reyndi andstæðingur hans að berjast úr stöðunni en Egill var kominn með þétt uppgjafartak og neyddist Josh því að gefast upp eftir 1:53.

Egill Øydvin Hjördísarson sigrar á hengingu eftir 1:53 í fyrstu lotu.

Bjarki Þór Pálsson (Mjölnir) vs. Chris Boujard (Team Ryano) – léttvigt (70 kg)

Næstur á svið var Bjarki Þór gegn Chris Boujard en þeir mættust áður í maí þar sem Chris sigraði eftir dómaraákvörðun. Bjarki Þór var reynslumestur af íslensku keppendunum en hann var með 3 sigra og 1 tap á bakinu fyrir þennan bardaga. Eins og áður sagði mættust þeir í maí síðastliðinn þar sem Chris sigraði en Bjarki var ansi nálægt því að klára bardagann í 2. lotu þar. Eftir að hafa séð fyrri bardagann er Bjarki Þór betri bardagamaður en Chris að mínu mati þó svo að hann hafi tapað eftir dómaraákvörðun.

Bjarki eyddi miklum hluta fyrstu lotu í að pressa Chris upp við búrið og reyna að ná fellu. Bardaginn var gríðarlega jafn og augljóst að báðir bardagamenn voru mjög jafnir að getu. Bjarki náði vel tímasettri fellu í 2. lotu eftir spark frá Chris. Chris náði að standa upp og hélt stöðubaráttan áfram úr „clinchinu“. Bjarki reyndi fellu en endaði á bakinu með Chris í lokuðu „guardi“ síðustu sekúndurnar í lotunni. Í 3. lotu var það sama uppi á teningnum. Bjarki reyndi „triangle“ hengingu en Chris varðist og náði loks bakinu á Bjarka. Bjarki náði að verjast hengingu og snéri sér loks inn í Chris og endaði ofan á. Lotan kláraðist með Bjarka ofan á að láta höggin dynja á Chris.

Bjarki Þór sigrar eftir dómaraákvörðun í afar jöfnum bardaga.

Bjarki Ómarsson (Mjölnir) vs. Denis Stanik (Shootfighters) – fjaðurvigt

Hinn 18 ára gamli Bjarki Ómarsson barðist sinn annan bardaga en ekki var að sjá á öðru en að þetta væri hans tuttugasti bardagi! Bjarki virtist vera yfirvegaður og rólegur en með sjálfstraustið í botni. Bjarki byrjaði í unglingastarfi Mjölnis og hefur vaxið og dafnað undir handleiðslu frábærra þjálfara þar. Þrátt fyrir að andstæðingur hans virtist mun stærri var sigur Bjarka í raun aldrei í hættu. Hann sýndi flott vopnabúr sitt með hringspörkum og vel tímasettum fellum auk þess að stjórna bardaganum algjörlega þegar í gólfið var komið. Bjarki stjórnaði bardaganum allan tímann og uppskar mikið lof frá lýsendum bardagans.

Bjarki Ómarsson sigraði eftir einróma dómaraákvörðun.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir (Mjölnir)  vs. Amanda English

Sunna Rannveig er fyrsta íslenska konan til að keppa í MMA. Í sínum öðrum MMA bardaga mætti hún Amanda English sem er fjólblátt belti í BJJ. Sunna Rannveig hafði yfirburði í standandi bardaga og þar nýttist reynsla hennar úr Tælandi vel í „clinchinu“ þar sem hún notaði hnén óspart. Amanda náði þó fellu eftir að hafa gripið spark nokkrum sinnum í bardaganum. Í 2. lotu reyndi Amanda „armbar“ en Sunna varðist vel. Þriðja lota fór að mestu fram í gólfinu og náði Amanda bakinu á Sunnu sem varðist fimlega. Að lokum náði Sunna að komast í topp stöðu í lokuðu „guardi“ og lét höggin dynja á þeirri írsku. Sunna var þó orðin mjög þreytt í lokin og náði því ekki að klára andstæðing sinn.

Amanda English sigraði eftir dómaraákvörðun.

Diego Björn Valencia (Mjölnir) vs. Julius Ziurauskis – millivigt (84 kg)

Það voru margir spenntir fyrir þessum bardaga enda er Diego feikilega góður karate-maður á meðan Julius er góður boxari. Diego náði góðum spörkum í byrjun en um miðbik lotunnar hitti Litháinn beint á hökuna á Diego svo Diego féll í gólfið og vankaðist illa. Flestir héldu að bardaginn væri búinn þarna en Diego náði á einhvern ótrúlegan hátt að halda sér í bardaganum! Diego var augljóslega enn vankaður en hann var valtur í sessi á löppunum út lotuna. Diego hrundi aftur í gólfið eftir vinstri krók frá Juilus sem hætti að sækja og hélt að bardaginn væri búinn. Svo var aldeilis ekki þar sem Diego var enn í bardaganum og var að reyna að verja sig. Juilus reyndi „armbar“ sem virtist vera ansi nálægt því að heppnast en Diego náði að verjast frábærlega! Diego þraukaði á einhvern ótrúlegan hátt út lotuna. 2. lota hófst með fellu frá Litháanum sem lét höggin dynja á Diego. Diego reyndi að sækja með fellum af bakinu en hafði ekki erindi sem erfiði. Diego fór þá í „armbar“ af bakinu sem var vel heppnaður og stöðvaði dómarann því bardagann. Að sögn Diego heyrðust óhljóð úr olnboga Litháans og því stöðvaði dómarinn bardagann áður en olnboginn myndi hreinlega brotna. Lithátinn mótmælti ákvörðun dómarans á meðan Diego fagnaði af innlifun. Diego kom til baka eftir afar erfiða fyrstu lotu og náði uppgjafartakinu! Diego sýndi ótrúlegt hjarta í bardaganum, það er ekki hægt að kenna það!

Diego sigraði með armbar í 2. lotu.

Hreint út sagt frábær frammistaða hjá Íslendingunum og þjálfurum þeirra. Framtíðin er svo sannarlega björt í MMA á Íslandi!

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular