Joanna Jedrzejczyk tapaði strávigtartitlinum sínum á UFC 217 um helgina. Rose Namajunas rotaði hana í 1. lotu en þetta var fyrsta tap hennar á ferlinum í MMA.
Rose Namajunas kýldi Jedrzejczyk niður með vinstri krók í 1. lotu. Hún fylgdi því svo eftir með höggum í gólfinu áður en dómarinn stöðvaði bardagann. Í endursýningunni virtist sem Jedrzejczyk hafi tappað út (til marks um að stöðva bardagann) er Namajunas lét höggin dynja á henni. Joanna neitar því hins vegar.
„Ég tappaði ekki, ég tappaði ekki út. Ég er búin að heyra þetta tvisvar, en ég tappaði ekki. Ég var örugglega bara að reyna að standa upp. Ég var ekki viss hvað var að gerast á þeim tíma. Ég fann ekki rétta jafnvægið. Ég tappaði aldrei,“ sagði þessi fyrrum meistari í The MMA Hour í gær.
„Ég sá ekki höggið, kraftinn í högginu. Hún kýldi ekki fast en hitti á réttan stað, ég vissi ekki hvað hafði gerst. Í upphituninni fannst mér ég vera hægari en vanalega. Ég veit ekki af hverju, ég þarf að komast að því.
Áður en hún byrjaði í MMA keppti Joanna tugi bardaga í Muay Thai og boxi. Tapið hennar um helgina var hennar fyrsta tap á öllum ferlinum eftir rothögg.
„Kannski var eitthvað að mér, ég veit það ekki. Ég mun komast að því þar sem þetta var óvenjulegt. Ég er með næstum því 100 bardaga í boxi og sparkboxi. Þetta var 15. bardaginn minn í MMA og svona hefur aldrei gerst áður. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fékk skurð og í fyrsta sinn sem einhver kýlir mig niður.“