John Kavanagh var mjög ánægður með það sem hann sá frá Gunnari á Írlandi á dögunum. Kavanagh mætti til London á miðvikudaginn.
John Kavanagh hefur verið yfirþjálfari Gunnars Nelson í meira en áratug. Kavanagh rekur SBG Dublin bardagaklúbbinn en Gunnar hefur margoft farið þangað til æfinga.
Gunnar ferðaðist til SBG Dublin í febrúar og eyddi þar tveimur vikum við æfingar. Kavanagh og Gunnar höfðu ekkert sést síðan Gunnar barðist síðast í septmeber 2019 enda erfitt að ferðast á tímum kórónuveirunnar.
Kavanagh var mjög ánægður með það sem hann sá í Dublin. „Það var ekkert rosalega margt nýtt en fannst hann rosalega fínpússaður og beittur, með alvöru drápseðli að leitast eftir að klára bardagann allan tímann. Hann hefur alltaf verið góður á gólfinu en kannski hefur hann bætt höggin sín í gólfinu og það mun opna fleiri tækifæri til að klára bardagann,“ sagði Kavanagh.
Upphaflega átti Gunnar að mæta Claudio Silva en Silva meiddist og kemur Takashi Sato í staðinn. Kavanagh var spenntur fyrir að sjá Gunnar á móti Silva en telur sömuleiðis að Sato verði áhugaverður bardagi. „Honum [Sato] líður vel alls staðar standandi. Hann hefur örugglega bætt sig standandi. Hann er með hættulegt vinstra háspark, það þarf að hafa það í huga. En ég held að það sé mikill munur á þeim í gólfinu. Þar mun þetta klárast.“
Bardaginn verður í beinni á Viaplay og hefst bardagakvöldið kl. 20:00 á íslenskum tíma.