Tuesday, September 17, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentJohny Hendricks er tilbúinn í Tyron Woodley

Johny Hendricks er tilbúinn í Tyron Woodley

johny hendricksFyrrum veltivigtarmeistarinn Johny Hendricks mætir Tyron Woodley um helgina á UFC 192. Þetta er gríðarlega mikilvægur bardagi í veltivigtinni en sigurvegarinn verður kominn ansi nálægt titilbardaga.

Johny Hendricks er þekktur fyrir að skera mikið niður til að komast í 77 kg takmarkið í veltivigtinni. Hendricks er einnig þekktur fyrir að tútna út á milli bardaga þar sem hann leyfir sér að borða allt sem hugurinn girnist. Fyrir seinni bardagann gegn Robbie Lawler var niðurskurðurinn erfiður og ákvað Hendricks upp frá því að hafa betri stjórn á mataræðinu milli bardaga. Hann hefur nú verið agaðri í mataræðinu og lítur vel út fyrir bardagann gegn Woodley um helgina.

Myndinni hér að ofan póstaði hann á samfélagsmiðla um helgina og gengur niðurskurðurinn vel að hans sögn. Bæði Hendricks og Woodley eru frábærir glímumenn með mikinn höggþunga og verður áhugavert að sjá hvor stendur uppi sem sigurvegari.

Þetta verður þó ekki í fyrsta sinn sem kapparnir mætast en Woodley og Hendricks mættust í bandarísku háskólaglímunni fyrir tíu árum síðan. Sú glíma var afar umdeild. Woodley ásakaði Hendricks um að hafa krækt þremur fingrum í munn sinn (e. fish hook) og Hendricks segir að Woodley hafi bitið sig.

johny hendricks tyron woodley

Hendricks sigraði glímuna en Woodley var reiður út í Hendricks í tvö ár eftir atvikið og langaði mest af öllu að kýla Hendricks. Hann fær ósk sína uppfyllta á laugardaginn þó hann viðurkenni að hann hafi þroskast mikið síðan þá og virði Johny Hendricks í dag.

 

Þessi bardagi var lengi í smíðum en upphaflega vildi Hendricks fá titilbardaga í stað þess að mæta Woodley. Það er kannski ekkert skrítið að Hendricks hafi ekki viljað mæta Woodley enda hefur honum gengið illa með sterka glímumenn. Hann tapaði fyrir Rick Story og átti í miklum erfiðleikum með Josh Koscheck og Mike Pierce. Allt eru þetta sterkir glímumenn en hann sigraði seinni tvo bardagana eftir klofna dómaraákvörðun og hefði sigurinn hæglega getað fallið fyrir andstæðinga Hendricks.

Hendricks þarf þó að mæta Woodley um helgina þar sem UFC ákvað að gefa Carlos Condit næsta titilbardaga. Lawler og Condit áttu upphaflega að mætast í nóvember en vegna meiðsla meistarans Lawler var bardaganum frestað og mætast þeir þess í stað í janúar. Biðin hjá Woodley eða Hendricks gæti þó orðið löng þar sem meistarinn berst ekki næst fyrr en í janúar.

Það stefnir því allt í áhugaverðan bardaga milli tveggja bardagamanna sem eiga margt sameiginlegt. Báðir voru þeir frábærir glímumenn í háskólaglímunni, báðir hafa þeir mikinn höggþunga og báðir vilja titilbardaga.

UFC 192 fer fram á laugardaginn og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Tyron woodley

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular