0

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Barnett vs. Nelson

josh barnett roy nelsonUFC Fight Night: Barnett vs. Nelson fór fram í Saitama Super Arena í Japan um helgina. Josh Barnett sló tvö met í sigri sínum gegn Roy Nelson, Uriah Hall sigraði Gegard Mousasi með glæsilegu tæknilegu rothöggi og Diego Brandao sigraði Katsunori Kikuno á 28 sekúndum.

Josh Barnett snéri aftur í búrið eftir næstum því tveggja ára fjarveru og sigraði Roy Nelson í fimm lotu bardaga. Barnett stjórnaði bardaganum að mestu leiti og sló tvö met í leiðinni. Barnett tókst að lenda 95 „significant clinch strikes” sem er nýtt met fyrir slík högg í einum bardaga. Barnett tókst samtals að lenda 146 höggum í bardaganum sem er met í þungavigtinni.

Þrátt fyrir tapið hjá Roy Nelson þarf hann ekki að vera alltof vonsvikinn með eigin frammistöðu. Í fyrsta sinn í langan tíma reyndi Nelson fellur og tókst að stjórna Barnett í gólfinu í fyrstu lotu. Nelson hefur lengi verið afar einhæfur bardagamaður en sýndi loksins öll vopnin sín. Hann tók meira að segja eitt háspark í bardaganum! Roy Nelson er engu að síður búinn að tapa þremur bardögum í röð og fimm af síðustu sex bardögum sínum. Þar sem þungavigtin er svo þunn er hann líklegast öruggur um starf sitt en verður að vinna sinn næsta bardaga.

Uriah Hall

Uriah Hall sigraði Gegard Mousasi með tæknilegu rothöggi í byrjun annarrar lotu. Útkoma bardagans kom mörgum á óvart þar sem Mousasi var talinn sigurstranglegri. Hall vakti fyrst athygli í raunveruleikaþáttunum The Ultimate Fighter þar sem hann rotaði Adam Cella með snúnings hælsparki. Hann endurtók leikinn um helgina þegar hann vankaði Mousasi með svipuðu sparki. Hall fylgdi því svo eftir með fljúgandi hnésparki sem sendi Mousasi í jörðina þar sem Hall kláraði bardagann með höggum. Ótrúlegur sigur hjá Uriah Hall og gott dæmi um það sem hann getur gert þegar hann er í stuði.

uriah hall

Enn á ný virðist Gegard Mousasi vera fastur í sömu sporum. Bardaginn gegn Hall var bardagi sem hann átti að vinna en eftir tapið er hann nú 4-3 í UFC. Það er ekki sá árangur sem Mousasi bjóst við er hann kom úr Strikeforce. Hann hefur nú tapað gegn Hall, Machida og Jacare á meðan hann hefur sigrað Ilir Latifi, Mark Munoz, Dan Henderson og Costas Philippou. Mousasi hefði verið kominn í flotta stöðu í millivigtinni með sigri á Hall en þarf nú aftur að taka skref til baka. Þess má geta að þetta var 66. bardagi Mousasi á ferlinum (45 í MMA, 13 í boxi og 8 í sparkboxi) og í fyrsta sinn sem hann rotast.

Diego Brandao hreinlega jarðaði Katsunori Kikuno í viðureign þeirra um helgina. Brandao þurfti aðeins 28 sekúndur til að sigra Kikuno með tæknilegu rothöggi. Í viðtali eftir bardagann greindi hann frá því að hann vilji fá annað tækifæri gegn Conor McGregor og ætlar ekki að láta söguna endurtaka sig.

Brandao er núna með 20 sigra og tíu töp á ferlinum. Eftir góða byrjun í UFC tapaði hann tveimur bardögum í röð (gegn McGregor og Dustin Poirier) en er nú aftur kominn á sigurgöngu eftir tvo sigra í röð. Gallinn við Brandao (en um leið eitt það skemmtilegast við hann) er hve villtur hann er. Hann lætur tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur sem útskýrir að einhverju leiti töpin sex eftir rothögg. Sigurinn gegn Kikuno um helgina sýndi svo sem ekkert nýtt en hann ætlar að komast á topp tíu í fjaðurvigtinni. Brandao á sennilega aldrei eftir að berjast um titil í UFC en mun ná glæsilegum sigrum gegn minni spámönnum líkt og hann sýndi um helgina.

Brandao fer nú í hóp með Poirier og Max Holloway sem hafa sigrað alla sína bardaga frá því þeir töpuðu gegn Conor McGregor (Dennis Siver og Marcus Brimage eru ekki í þeim hópi).

UFC 193 fer fram á laugardaginn en þar mætast þeir Daniel Cormier og Alexander Gustafsson.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.