UFC hefur fundið staðgengil fyrir Daniel Cormier. Það var Ovince Saint Preux sem varð fyrir valinu og mun hann mæta Jon Jones á UFC 197.
Þetta staðfesti Dana White, forseti UFC, í SportsCenter fyrr í kvöld.
Eins og við greindum frá í morgun er léttþungavigtarmeistarinn Daniel Cormier meiddur. Hann mun því ekki geta barist á UFC 197 og mætt Jon Jones eins og til stóð. Í hans stað kemur Ovince Saint Preux (19-7).
Ovince Saint Preux hefur sigrað sjö af níu bardögum sínum í UFC. Síðast sáum við hann vinna Rafael Cavalcante í febrúar en þar áður tapaði hann fyrir Glover Teixeira. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Saint Preux kemur inn með skömmum fyrirvara en hann rotaði Shogun Rua í Brasilíu árið 2014 eftir að hafa komið inn með aðeins nokkurra daga fyrirvara.
Þeir Jon Jones og Saint Preux munu berjast um bráðabirgðartitil léttþungavigtarinnar (e. interim title). „Jon tapaði aldrei beltinu sínu í búrinu. Hann var sviptur titlinum vegna vandamála hans utan búrsins. Hann mun berjast um bráðabirgðartitilinn, það var það rétta í stöðunni,“ sagði Dana White.
Anthony Johnson og Rashad Evans komu einnig til greina en Ovince Saint Preux varð fyrir valinu. „Anthony Johnson var augljóslega fyrsti valkostur þar sem hann er í 2. sæti á styrkleikalistanum og það væri bardagi sem allir vilja sjá. En Anthony Johnson var í aðgerð á munni og getur ekki einu sinni sett góm upp í sig næstu þrjár vikurnar. Ef við förum neðar á styrkleikalistann erum við með menn sem eru nú þegar með bardaga. Rashad Evans berst viku áður við Glover Teixeira. Auk þess er Rashad Evans númer sjö á listanum en Ovince Saint Preux er númer sex. Þannig að sá sem er númer eitt mætir númer sex og það var það réttasta í stöðunni,“ sagði White enn fremur í kvöld.
Bardaginn mun vera aðalbardaginn á UFC 197 þann 23. apríl. Fluguvigtarmeistarinn Demetrious Johnson berst einnig sama kvöld en hann ver beltið sitt gegn Henry Cejudo.
https://www.youtube.com/watch?v=6X1tMX-3Unk