spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentJon Jones: Á mikla möguleika á sigri gegn Brock Lesnar

Jon Jones: Á mikla möguleika á sigri gegn Brock Lesnar

Jon Jones sigraði Daniel Cormier á UFC 214 í nótt. Jones átti magnaða frammistöðu í endurkomunni en í viðtalinu eftir bardagann skoraði hann á Brock Lesnar.

„Lesnar, ef þig langar að vita hvernig það er að vera laminn af gæja sem er 40 pundum léttari en þú, mættu mér hér í búrinu,“ sagði Jon Jones í viðtalinu í búrinu eftir bardagann.

Jon Jones kláraði Daniel Cormier með rothöggi í 3. lotu og er nú aftur orðinn léttþungavigtarmeistari UFC. Jones var sviptur titlinum í maí 2015 eftir glæpsamlega hegðun utan búrsins en nú er hann kominn aftur með beltið.

Sá orðrómur hefur legið í loftinu að Brock Lesnar sé á leið aftur í UFC. Í aðdraganda bardagans á UFC 214 var Jones spurður út í mögulegan bardaga gegn Lesnar og sagði hann að það væri bardagi sem myndi heilla hann mikið.

„Ég held að það sé bardagi sem ég gæti unnið. Brock Lesnar á auðvitað milljónir aðdáenda utan MMA og væri það stórt fyrir sportið okkar ef við gætum stolið nokkrum þeirra. Mér finnst Brock vera líka frekar takmarkaður bardagamaður og tel ég mig eiga miklar líkur á sigri og verðlaunin yrðu stór. Mig langar að gera þetta,“ sagði Jones á blaðamannafundinum eftir bardagann.

Jones talaði við liðið sitt um þetta eftir bardagann og honum er alvara þegar hann segist vilja mæta Lesnar. Jones segir að hann myndi vera um það bil 104 kg ef hann myndi mæta Lesnar en Lesnar yrði í kringum 120 kg.

Lesnar er stórt nafn og gæti þetta orðið risabardaga. Jones hefur lengi talað um að fara upp í þungavigt og gæti þetta orðið fyrsti þungavigtarbardagi hans í UFC. Jones er þó ekki eins spenntur fyrir því að mæta þungavigtarmeistaranum Stipe Miocic í ofurbardaga tveggja meistara.

„Stipe er tiltölulega óþekktur meðal almennings þannig að það væri ekki alvöru ofurbardagi að mínu mati. MMA aðdáendur væru mjög spenntir fyrir því en almenningi væri alveg sama um bardagann. Fæstir vita hver hann er, með fullri virðingu fyrir Stipe. Ef ég á að fórna því að vera minni maðurinn myndi bardagi gegn Brock henta best. Tekjurnar yrðu gífurlegar, stíllinn hentar og það myndi gera mikið fyrir íþróttina. Þess vegna heillar Brock Lesnar bardagi mig mun meira.“

Brock Lesnar var ekki lengi að svara og sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi. „Gættu þess hvers þú óskar þér.“

Brock Lesnar fékk eins árs bann í júlí eftir bardaga sinn gegn Mark Hunt á UFC 200 í fyrra. Banninu hans ætti að vera lokið en þar sem hann hætti fyrr á árinu er bannið hans frosið. Hann þyrfti að tilkynna það formlega að hann væri snúinn aftur og vera undir eftirliti USADA í þá sex mánuði sem eftir eru af banninu hans til að geta barist aftur. Dana White minntist á að ef Lesnar kæmi aftur myndi það sennilega ekki vera fyrr en eftir sex mánuði.

Alexander Gustafsson gæti á meðan fengið annað tækifæri gegn Jon Jones en fyrri bardagi þeirra var einn sá besti í sögu léttþungavigtarinnar. Gustafsson óskaði Jones til hamingju með sigurinn í gær.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular