Jon Jones mun ekki mæta Daniel Cormier á laugardaginn á UFC 200 eins og til stóð. Jones er sagður hafa brotið lyfjareglur USADA og hefur risabardaginn verið fjarlægður af bardagakvöldinu á laugardaginn.
Þetta eru risafréttir og mikið áfall fyrir UFC og bardagaaðdáendur.
UFC 200 er eftir aðeins örfáa daga og nú mun einn stærsti bardagi ársins ekki fara fram. USADA, sem sér um öll lyfjamál UFC, fann eitthvað gruggugt við lyfjapróf Jon Jones. Jones var tekinn í lyfjapróf utan keppnis þann 16. júní og hefur USADA greint frá því að eitthvað óleyfilegt hafi fundist þar. Ekki er vitað hvaða efni um er að ræða.
UFC hélt blaðamannafund í flýti í gær þar sem Dana White, forseti UFC, tilkynnti að nýji aðalbardaginn á UFC 200 væri viðureign Mark Hunt og Brock Lesnar. White gat ekki útilokað að Cormier myndi fá nýjan andstæðing fyrir laugardaginn.
Yfirmaður lyfjamála hjá UFC, Jeff Novitzky, segir í yfirlýsingu að Jones hafi ekki enn verið fundinn sekur um lyfjamisferli. „USADA greindi UFC frá mögulegu broti Jon Jones á lyfjastefnu þeirra eftir lyfjapróf þann 16. júní. USADA mun fara í ítarlegt ferli áður en refsing verður kveðin upp. Þar sem bardaginn er eftir nokkra daga er ekki nægur tími til að klára ferlið áður en bardaginn fer fram. Þar með hefur verður hætt við bardagann,“ segir Jeff Novitzky í yfirlýsingu.
Dana White, forseti UFC, var við kvöldverð í Mandalay Bay er hann fékk fréttirnar. White segist ekki vita hvers konar efni Jones er sagður hafa tekið og hefur hvorki talað við hann né liðið hans. „Hann mun auðvitað fá tækifærið til að sanna sakleysi sitt áður en hann verður fundinn sekur. En þetta eru mikil vonbrigði.“
Þar sem þetta var lyfjapróf utan keppnis var eingöngu verið að lyfjaprófa fyrir frammistöðubætandi efni. Í janúar 2015 fundust leyfar af kókaíni í blóði hans eftir óvænt lyfjapróf. USADA prófar ekki fyrir efni eins og kókaín og marijúana utan keppnis (aðeins sólarhringi fyrir og eftir bardaga) og því hefur efnið sem fannst þann 16. júní verið frammistöðubætandi.
Ef einhver efaðist um að USADA væri að þessu af fullri alvöru ættu þær efasemdir að vera úr sögunni.
Blaðamannafundinn síðan í gærkvöldi má sjá hér að neðan.
Nú fer maður að verða ansi þreyttur á Jon Jones… óheiðarlegur í alla staði.