spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaJón Viðar: Sunna er fædd í þetta

Jón Viðar: Sunna er fædd í þetta

Jón Viðar Sunna Rannveig
Mynd: Mjölnir/Sóllilja Baltasardóttir.

Sunna Rannveig Davíðsdóttir vann sinn annan bardaga í Invicta bardagasamtökin á laugardaginn þegar hún sigraði Mallory Martin. Sigurinn var afar kærkominn enda bardaginn harður.

Bardaginn var gríðarlega jafn og spennandi en Sunna sigraði eftir dómaraákvörðun að mati allra dómaranna. Jón Viðar Arnþórsson og Árni Ísaksson voru í horninu hjá Sunnu og öskruðu sig hása til að hvetja Sunnu áfram. Að mati Jóns Viðars er Sunna fædd til að berjast.

„Sunna hefur eitthvert það öflugasta bardagahjarta sem ég hef nokkurn tímann vitað um. Hún hefur engan ótta við því að fara í búrið og berjast. Fyrir bardaga, áður en við byrjum að hita upp, þá leggst hún gjarnan á dýnu með headfónana á sér, hugleiðir og stundum virðist hún sofna. Að sjá þetta gerast getur tekið andstæðinginn algjörlega á taugum. Svo kveikir hún bara á vélinni þegar tíminn er til kominn, hitar vel upp og fer síðan í búrið algjörlega fókuseruð. Hún er fædd í þetta,“ segir Jón Viðar.

Jón Viðar er forseti og yfirþjálfari Mjölnis og hefur farið í margar keppnisferðirnar. Þessi bardaga verður sérstaklega eftirminnilegur um ókomin ár. „Þessi bardagi var stríð! Algjör klassík og eitthvað sem verður gaman að horfa á aftur og aftur. Þessar stelpur eru báðar eins harðar og hægt er að vera og hvorug gaf tommu eftir. Þær ætluðu sér báðar að klára bardagann og þær mættu báðar til þess að berjast. Þetta voru þrjár lotur af alvöru átökum og það fór reglulega kliður um salinn.“

Bardaginn var valinn besti bardagi kvöldsins af Invicta bardagasamtökunum og kom það fáum á óvart. „Ég held það hafi ekki komið neinum á óvart að þessi bardagi var valinn Fight Of The Night og það kom heldur engum á óvart að Sunna hefði unnið hann þó svo að þetta hafi svo sannarlega ekki verið einstefna. Það var móment í annarri lotunni þar sem Mallory hitti öflugu höggi á Sunnu sem greinilega beit á henni og þar kom í ljós úr hverju Sunna er gerð. Hún vinnur svo vel úr mótlæti og hún ýtir sér svo fast þegar á reynir. Það er það sem skildi hana og Mallory Martin að í gærkvöldi. Sú sem hafði stærra hjartað vann. Ég var allan tímann sannfærður um að Sunna myndi taka þetta, en ég væri að ljúga ef ég segðist hafa verið pollrólegur allan tíman. Ég held ég hafi satt að segja aldrei verið jafn æstur á hliðarlínunni eins og í þessum bardaga, enda er ég þegjandi hás í dag.“

Sunna er núna 2-0 á atvinnuferlinum eftir sigrana tvo í Invicta og verður gaman að sjá hana í næsta bardaga mögulega í sumar. „Sunna sýndi öllum að hún er komin til að vera með sinni frammistöðu í þessum bardaga. Hvernig hún vann sig út úr mótlætinu, hvernig hún nýtti sér yfirburðastöðurnar og svo bara hvað hún leit vel út þarna. Það efast enginn um Sunnu núna og ég vona bara að hún fái annan bardaga sem fyrst því hún er á svo góðu róli. Hún er alveg heil eftir bardagann og gæti áreiðanlega tekið annan á morgun ef þess þyrfti.“

„Sunna getur farið alla leið, fyrst í titilbardaga hjá Invicta og svo getur hún hrist vel upp í strávigtinni hjá UFC ef þær dyr opnast. Við erum ofboðslega stolt af Sunnu og hlökkum til að fylgja henni áfram í þau stríð sem framundan eru,“ segir Jón Viðar að lokum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular