Jose Aldo segist hafa vitað það allan tímann að Conor McGregor myndi verða sviptur fjaðurvigtarbeltinu. Sú var einmitt raunin á laugardaginn og vill Aldo mæta Conor McGregor aftur einn daginn.
„Ég vissi að McGregor myndi þurfa að gefa beltið frá sér – annað hvort beltið mitt [fjaðurvigtarbeltið] eða léttvigtarbeltið,“ sagði Aldo við SporTV í Brasilíu.
Jose Aldo var rotaður af Conor McGregor eftir 13 sekúndur í fyrra. Þar með varð Conor McGregor fjaðurvigtarmeistarinn eftir að Aldo hafði haldið beltinu í mörg ár. Aldo og Frankie Edgar börðust svo um bráðabirgðartitilinn (e. interim title) í fjaðurvigtinni þar sem Aldo fór með sigur af hólmi.
Nú á laugardaginn var Conor McGregor sviptur fjaðurvigtartitlinum og var Jose Aldo því gerður að óumdeilanlegum fjaðurvigtarmeistara.
„Bardagi gegn Khabib Nurmagomedov í léttvigt eða endurat gegn mér væru báðir erfiðir bardagar fyrir McGregor. Hann valdi að sleppa mínu belti, það er ekkert að því. Fyrst langar mig að verja beltið og svo langar mig að berjast aftur við McGregor.“
Aldo var fyrr í sumar í útistöðum við UFC þar sem hann sagðist ekki hafa áhuga á að berjast lengur í UFC. Hann er núna öllu hamingjusamari með sína stöðu og virðist vera tilbúinn að berjast aftur fljótlega.
„Mér finnst eins og ég hafi alltaf verið meistarinn og ég mun alltaf vera meistarinn. Svo lengi sem ég er í fjaðurvigt, hvað sem gerist, mun ég alltaf vera meistarinn. Það að vera aftur orðinn eini meistarinn er nokkuð sem ég vissi að myndi gerast. Um leið og ég tapaði vissi ég að beltið myndi verða mitt aftur. Það var bara tímaspursmál. Auðvitað vildi ég ekki vinna beltið svona en ég er ánægður þar sem ég veit að ég er meistarinn.“
Anthony Pettis og Max Holloway munu berjast á UFC 206 um enn eitt bráðabirgðarbeltið í fjaðurvigtinni. Sigurvegarinn þar mun svo mæta Jose Aldo.
„Ég er búinn að vera að æfa þrátt fyrir allt sem hefur verið í gangi. Ég hef verið að hjálpa æfingafélögum mínum hérna í Nova Uniao og núna erum við farnir að skoða bardaga í framtíðinni. Ég verð vonandi tilbúinn að berjast í febrúar eða mars. Mig langar ekki að bíða of lengi þar sem það er langt síðan ég barðist síðast og mig langar að fá að berjast aftur sem fyrst,“ segir Aldo að lokum.