0

Mánudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night: Whittaker vs. Brunson

robert-whittakerUFC hélt lítið bardagakvöld í Ástralíu um helgina. Robert Whittaker sigraði Derek Brunson í aðalbardaga kvöldsins en hér eru Mánudagshugleiðingarnar eftir helgina.

Aðalbardaginn entist í rúmar fjórar mínútur en var bráðskemmtilegur. Þetta var ekki tæknilegasti bardagi heims en ein virkilega skemmtileg lota.

Derek Brunson bókstaflega hljóp á eftir Whittaker, sveiflandi höndunum í leit að rothögginu. Ekki besta leikáætlunin og viðurkenndi Brunson eftir bardagann að hann hefði barist heimskulega. Whittaker náði frábærri gagnárás er Brunson óð í Whittaker og var það upphafið að endinum.

Fyrir bardagann hafði Brunson unnið fimm bardaga í röð og þar af fjóra með rothöggi. Brunson gerði því það sem svo margir glímumenn hafa klikkað á – hann steingleymdi að hann er betri glímumaður en andstæðingurinn og var að eltast við rothöggið eins og óður maður.

Brunson hefur margt til brunns að bera, kannski ekki endilega sem framtíðarmeistari en góður bardagamaður sem á eftir að læra af þessum bardaga.

Robert Whittaker heldur svo áfram að vinna en þessi 25 ára bardagamaður hefur nú unnið sex bardaga í röð. Hann er nú kominn í góða stöðu í millivigtinni og væri gaman að sjá hann gegn Gegard Mousasi næst. Báðir koma nokkuð heilir úr bardaga nýlega og gætu barist snemma á næsta ári.

Annars er fátt hægt að tala um eftir þetta bardagakvöld. Omari Akhmedov náði góðum sigri gegn Kyle Noke en Ástralinn hefur oft litið betur út og tók oft á tíðum ekki góðar ákvarðanir. Noke ákvað að hætta í MMA eftir bardagann, 36 ára gamall.

Ben Nguyen var frábær gegn Geane Herrera og er nú 3-1 í fluguvigtinni í UFC. Hann er virkilega skemmtilegur bardagamaður og er einn af þeim sem er alltaf í skemmtilegum bardögum.

Næsta UFC kvöld fer fram á laugardaginn þegar úrslitakvöld 24. seríu TUF fer fram. Þar mun fluguvigtarmeistarinn Demetrious Johnson mæta annað hvort Hiromasa Ogikubo eða Tim Elliott en þeir mætast í úrslitabardaganum í seríunni sem sýndur verður í vikunni.

Pétur Marinó Jónsson
Latest posts by Pétur Marinó Jónsson (see all)

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.