Fjaðurvigtarmeistari UFC, Jose Aldo, mun berjast við Chad Mendes í annað sinn á UFC 176 þann 2. ágúst. Kapparnir mættust síðast í janúar 2014 þar sem Aldo sigraði eftir rothögg.
Þetta eru ekki óvæntar fréttir þar sem fastlega var búist við að þeir myndu mætast eftir að staðfest var að Cub Swanson myndi mæta Jeremy Stephens. Jose Aldo varði titil sinn 7. sinn í UFC þegar hann sigraði Ricardo Lamas eftir dómaraákvörðun. Aldo er að margra mati einn allra besti bardagamaður heims, pund fyrir pund, og hefur ekki lent í neinum teljandi vandræðum í bardögum sínum.
Fyrri bardagi milli þeirra endaði með glæsilegu rothöggi Aldo eftir vel tímasett hnéspark. Rothöggið átti sér stað eftir 4:59 í 1. lotu og hljóp Aldo úr búrinu eftirminnilega. Þrátt fyrir glæsilegt rothögg var Aldo ekki laus við gagnrýni þar sem hann greip augljóslega í búrið til að verjast fellum Mendes án þess að vera refsað af dómara.
Þetta er eina tap Mendes á ferlinum en síðan hann tapaði gegn Aldo hefur hann sigrað fimm bardaga í röð (þar af 4 með rothöggi) afar sannfærandi. Chad Mendes hefur bætt sig gríðarlega standandi með hjálp Duan Ludwig hjá Team Alpha Male. Það verður spennandi að sjá hvernig Mendes vegnir í þetta sinn gegn Aldo en bardaginn fer fram um verslunarmannahelgina í Los Angeles.