UFC hefur staðfest að Jose Aldo muni berjast gegn Conor McGregor á UFC 189 þann 11. júlí. Óttast var að Aldo myndi ekki geta barist vegna meiðsla en fjaðurvigtarmeistarinn ætlar að berjast.
UFC hefur fengið staðfestingu frá nokkrum læknum að Aldo hafi ekki brotið rifbein. Samkvæmt læknisskoðun er Aldo með mar á rifbeini og áverka á brjóski milli rifbeinanna.
Aldo ætlar sér að berjast gegn McGregor þann 11. júlí þrátt fyrir áverkana. UFC er þó með varaáætlun ef það gengur ekki eftir og mun Chad Mendes vera til taks. Ef Aldo getur ekki berst munu þeir Mendes og McGregor berjast um svo kallaðan bráðabirgðatitil (e. interim title).
Þetta eru frábærar fréttir fyrir bardagaaðdáendur en bardaginn verður án nokkurs vafa stærsti bardagi ársins. Conor McGregor var ekki lengi að tjá sína skoðun á meiðslunum og sagði þetta á Twitter:
It turned out he just had a little period pain.
— Conor McGregor (@TheNotoriousMMA) June 25, 2015
UFC 189 fer fram í Las Vegas þann 11. júlí. Conor McGregor og Jose Aldo mætast í aðalbardaga kvöldsins en Gunnar Nelson mætir Brandon Thatch á sama kvöldi.