Jose Aldo hefur rifið þögnina eftir að hafa dregið sig úr bardaganum gegn Conor McGregor á UFC 189. Aldo er ekki sáttur við stöðuna sem hann er settur í og lét McGregor heyra það.
Stjórnendur UFC samtakana tóku þá ákvörðun að gera bardaga Conor McGregor og Chad Mendes að titilbardaga um bráðabirgðarbeltið. Jose Aldo fer ekki fögrum orðum um þessa ákvörðun og kallar bráðabirgðarbeltið dótabelti.
Aldo gagnrýnir þá réttlætingu UFC að gera bardagann að titilbardaga vegna tíðni meiðsla sinna. Meiðslin hafa þó neytt hann til að víkja frá fimm titilvörnum yfir fjögurra ára tímabil. Aldo telur upp tölfræðina yfir hversu oft beltishafar keppa árlega og vitnar í það að flestir meistarar keppa einungis tvisvar á ári að meðaltali líkt og hann hefur gert.
Varðandi meiðsli sín segist Aldo hafa rifbeinsbrotnað en ekki aðeins marist á beini eins og greint var frá í bandarískum fjölmiðlum. Til að sanna þetta birti hann röntgenmyndir sem sýna rifbein hans. Aldo telur heilsu sína mikilvægari en peninga og segist ekki ætla selja líkama sinn fyrir neina upphæð.
Aldo tók einnig nokkur skot á McGregor í viðtalinu og segir að hann hagi sér meira eins og skemmtikraftur fremur en íþróttarmaður. „Ég hef ekkert að segja um mann sem hermir eftir persónu í sjónvarpsþætti [Aldo telur að McGregor sé að herma eftir leikaranum Travis Fimmel úr Vikings]. Hann [Conor] skammast sín eflaust fyrir að vera hann sjálfur og reynir því að vera eins og Fimmel. Hann er listamaður, en ekki bardagalistamaður. Hann á fremur heima í lélegu gríni. Þetta er vanvirðing við leikarann og alvöru íþróttamenn. Búrið er mitt ríki og þar er aðeins pláss fyrir einn konung, sem er ég. Ef hann vill vera með getur hann verið hirðfíflið sem hann er.“
Það er ljóst að McGregor og Aldo munu lengi elda grátt silfur saman. McGregor getur orðið bráðabirgðarmeistari takist honum að sigra Chad Mendes þann 11. júlí.