0

Khabib, Conor og Jon Jones mæta allir fyrir NAC nefndina á þriðjudaginn – fá þeir bann?

Það verður nóg að gera hjá íþróttasambandi Nevada fylkis á þriðjudaginn. Þá munu mál Khabib Nurmagomedov, Conor McGregor og Jon Jones vera tekin fyrir.

Enn á eftir að afgreiða slagsmálin sem áttu sér stað eftir bardaga Khabib Nurmagomedov og Conor McGregor á UFC 229 þann 6. október. Málinu hefur verið frestað og verður loksins tekið fyrir á þriðjudaginn af íþróttasambandi Nevada fylkis (NAC).

Strax eftir að Khabib hafði klárað Conor í 4. lotu stökk hann yfir búrið til að ráðast á Dillon Danis, hornamann Conor. Upp frá því brutust út fáránleg hópslagsmál eins og frægt er. Conor stökk á búrið til að taka þátt í slagsmálunum en var stöðvaður af öryggisgæslu eftir að hann sveiflaði að Abubakar Nurmagomedov, hornamanni Khabib. Zubaira Tukhugov (hornamaður Khabib) og Esed Emiragaev (æfingafélagi Khabib) stukku þá yfir búrið og réðust að Conor.

Þátttakendur í látunum geta átt von á sektum, banni og annars konar refsingu svo sem samfélagsskyldu. NAC heldur enn 50% af uppgefnum tveggja milljón dollara launum Khabib en Khabib var þó búinn að fá hluta af Pay Per View sölunni (í kringum 3-4 milljónir dollara). NAC tók strax þá ákvörðun að halda launum Khabib á meðan Conor fékk allt sitt. NAC hefur síðar sagt að ef þeir hefðu haft aðgang að sömu myndbandsupptökum þá og þeir hafa í dag hefði hluti launa Conor líka verið haldinn. NAC gæti lagalega séð sektað þá Khabib og Conor um 100% af uppgefnum launum sínum en það er ólíklegt að svo gerist.

NAC hefur áður sagt að Khabib og Conor séu skyldugir til að mæta fyrir nefndina nema þeir hafi þegar náð samkomulagi. Ekki er vitað að svo stöddu hvort samkomulag hafi náðst en Khabib gaf það út að hann myndi ekki mæta fyrir nefndina.

Tveir af hornamönnum Khabib, Zubaira Tukhugov og Abubakar Nurmagomedov, áttu auðvitað stóran þátt í látunum en þeir leggja til sáttagerð fyrir NAC á þriðjudaginn. Dillon Danis fékk tímabundið bann fyrir sinn þátt í látunum en hans mál verður ekki tekið fyrir á þriðjudaginn. Tukhugov er bardagamaður á samningi hjá UFC en Khabib hefur hótað því að hann muni aldrei berjast aftur verði Tukhugov refsað af UFC. Abubakar er sjálfur bardagamaður en hann berst í PFL.

Það mun því loksins koma í ljóst hvort þeir Conor og Khabib fái bann fyrir lætin í október. Fái þeir stutt bann má telja líklegt að UFC plani næstu bardaga þeirra en bannið mun vera afturvirkt og ná frá 6. október.

Eins og áður segir mun Jon Jones einnig mæta fyrir nefndina. NAC mun taka fyrir lyfjapróf Jon Jones á síðustu mánuðum en leyfar af steranum turinabol fundust í lyfjaprófum hans í aðdraganda bardagans gegn Alexander Gustafsson. Málið kom upp skömmu fyrir jól og gat NAC ekki haldið opinbera yfirheyrslu með svo skömmum fyrirvara. Bardagi Jon Jones var því færður frá Nevada fylki og yfir til Kaliforníu. Ólíklegt er að Jones fái einhvers konar bann og ef allt gengur eftir fær Jones bardagaleyfið sitt aftur í Nevada.

Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.