Léttvigtarmeistarinn Khabib Nurmagomedov hefur hótað því að hætta verði liðsfélagar hans reknir úr UFC eftir hópslagsmálin á laugardaginn. Khabib segir að liðsfélagar Conor hafi ekki fengið neina refsingu þegar Conor réðst á rútuna og vill sjá það sama gerast fyrir sína menn.
Í hópslagsmálunum á laugardaginn mátti sjá Zubair Tukhugov kýla Conor og þá er talið að Islam Makhachev hafi hoppað með Khabib að Dillon Danis eftir bardagann. Þeir Tukhugov og Makhachev berjast báðir í UFC en Tukhugov átti að mæta Artem Lobov, liðsfélaga Conor McGregor, á UFC bardagakvöldinu í Montcon í lok mánaðar. Sá bardagi hafi hins vegar verið felldur niður eftir árásina og sagði Dana White, forseti UFC, að þeir bardagamenn sem stukku inn í búrið eftir bardagann verði reknir úr UFC.
Khabib sendi frá sér langa yfirlýsingu á Instagram í dag þar sem hann beindi orðum sínum að UFC. Í yfirlýsingunni segist hann ætla að hætta ef liðsfélögum sínum verði refsað. Khabib spyr hvers vegna enginn hafi verið rekinn þegar Conor og hans lið réðust á rútuna í apríl. Artem Lobov var eini UFC bardagamaðurinn sem var partur af liðinu með Conor í rútuárásinni en hann sést ekki kasta neinu í rútuna á myndbandsupptökum. Lobov hefur haldið starfinu þó áætlaður bardagi hans þá helgi í apríl hafi verið felldur niður.
„Refsið mér. Zubaira Tukhugov hafði ekkert að gera með þetta. Ef þið haldið að ég verði þögull farið þið með rangt mál. Þið fellduð niður bardaga Zubaira og viljið reka hann bara af því hann kýldi Conor. En ekki gleyma því að það var Conor sem kýldi annan bróður fyrst, kíkið bara á myndbandið,“ segir m.a. í yfirlýsingunni.
„Ef þið ætlið að reka hann munu þið missa mig líka. Við gefumst aldrei upp á bræðrum okkar í Rússlandi og ég fer alla leið fyrir bróður minn. Ekki gleyma að senda mér rifinn samning ef þið ætlið að reka hann, annars ríf ég hann sjálfur.“
NAC (íþróttasamband Nevada fylkis) ákvað að halda uppgefnum launum Khabib (2 milljónir dollara) eftir bardagann á meðan málið verður rannsakað. Khabib segir að UFC geti troðið þessum peningum í kokið á sér.
Þetta er stór yfirlýsing frá Khabib en hann er orðin ein stærsta stjarnan í MMA heiminum í dag. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hann hefur hótað UFC en árið 2016 hótaði hann því að ef hann fengi ekki titilbardaga myndi UFC aldrei getað haldið bardagakvöld í Rússlandi.