Khabib Nurmagomedov mun ekki berjast á UFC 249 samkvæmt yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag.
Khabib Nurmagomedov er staddur í Rússlandi núna. Landamærum landsins var lokað á mánudaginn og ríkir enn ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna vegna Covid-19 veirunnar.
Khabib var að æfa í Bandaríkjunum en fékk þær upplýsingar frá UFC að það væru engar líkur á að bardaginn færi fram í Bandaríkjunum. Khabib hélt því til Rússlands en er fastur þar núna.
Ríkismiðillinn RT greindi frá því í dag að Khabib gæti farið með einkaþotu til Bandaríkjanna með því að fá ákveðin leyfi. Khabib virðist hins vegar ekki ætla að reyna að koma sér til Bandaríkjanna enda öllum ráðlagt að vera heima hjá sér þessa dagana.
„Heimurinn á að vera í sóttkví, ríkisstjórnir, frægt fólk um allan heim hvetur fólk til að fylgja öllum öryggiskröfum til að sporna við dreifingu veirunnar og til að bjarga fólki. Á Khabib að vera sá eini sem er laus undan öllum kvöðum og ferðast yfir hnöttinn fyrir einn bardaga?“ sagði Khabib í yfirlýsingunni.
„Ég sýni þessu skilning og ég er klárlega í meira uppnámi en þið að þurfa að hætta við bardagann. Eins og allir hafði ég mín áform eftir bardagann en ég get ekki stjórnað þessu öllu. Stærstu þjóðirnar og stærstu fyrirtækin eru slegin yfir því hvað er að gerast í heiminum. Staðan breytist á hverjum degi. En Khabib á ennþá að berjast, eruði að segja það? Farið vel með ykkur og setjið ykkur í mín spor,“ sagði Khabib í yfirlýsingunni.
Khabib er því ekki að fara að berjast á UFC 249 gegn Tony Ferguson eins og til stóð. Justin Gaethje, Dustin Poirier og Jorge Masvidal hafa rétt fram hjálparhönd og óskað eftir því að mæta Tony Ferguson en UFC hefur ekki enn opinberað áform sín fyrir kvöldið.
Enn er ekki vitað hvar UFC 249 á að fara en upphaflega átti bardagakvöldið að fara fram í New York. Samkomubann er víða og er ólíklegt að UFC finni stað í tæka tíð fyrir bardagakvöldið.