Orðrómurinn sem fór af stað á mánudaginn þess efnis að Khamzat Chimaev gæti ekki barist í janúar reyndist vera sannur. Khamzat hefur ekki náð sér eftir kórónuveirusmit í desember og þurfti því að bakka úr bardaganum.
Khazmat Chimaev átti að mæta Leon Edwards þann 20. janúar í aðalbardaga kvöldsins. Hann neyddist til að bakka úr bardaganum en í fyrstu var ekki vitað hvers vegna.
Nú hefur komið í ljós að Khamzat Chimaev hafi ekki enn jafnað sig eftir kórónuveirusmit sem hann varð fyrir í desember. Í desember var á kreiki orðrómur þess efnis að Khamzat væri með kórónuveiruna fyrir bardaga hans gegn Edwards í desember. Khamzat sagðist geta auðveldlega barist þrátt fyrir smit nokkrum vikum fyrir bardagann en aðeins sólarhringi síðar kom í ljós að Leon Edwards væri með veiruna og var bardaganum því frestað.
Khamzat reyndist vera með slæmu útgáfuna af veirunni eftir allt saman og hefur ekki enn náð sér að fullu. Samkvæmt liði Khamzat hafa lungu hans ekki náð sér eftir veiruna og er hann því ófær um að berjast þann 20. janúar.
Edwards vonast til að fá annan andstæðing þann 20. desember en hann hefur ekki barist síðan í júlí 2019.