Khamzat Chimaev er ennþá að glíma við eftirköst kórónuveirunnar eftir að hann smitaðist í byrjun árs. Khamzat þarf að fara í frekari meðferð í Las Vegas.
Khamzat Chimaev hefur þrisvar átt að mæta Leon Edwards en bardaginn alltaf fallið niður. Chimaev dró sig úr bardaganum í janúar eftir að hafa greinst með kórónuveiruna og var bardaginn færður til mars. Í síðustu viku var bardaginn aftur felldur niður þar sem Khamzat hefur ekki enn jafnað sig eftir veiruna.
Khamzat er að glíma við eftirköst eftir veiruna og hefur ekki getað æft almennilega í dágóðan tíma. Hann á erfitt með andardrátt og þurfti að fara með sjúkrabíl upp á spítala eftir æfingu. Hann hefur nokkrum sinnum þurft að heimsækja spítala og þarf nú að fara í frekari meðferð.
UFC ætlar að fljúga Khamzat til Las Vegas þar sem hann fær meðferð við eftirköst veirunnar. Heilsa hans er í forgangi en umboðsmaður hans vonast til að Khamzat nái að berjast í sumar.
The UFC is flying Khamzat Chimaev (@KChimaev) into Las Vegas today, per his manager Ali Abdelaziz (@AliAbdelaziz00). He'll receive medical care in the U.S. for lingering effects of Covid. Abdelaziz said he hopes Khamzat can fight by June, but longterm health is top priority.
— Brett Okamoto (@bokamotoESPN) February 17, 2021
Khamzat Chimaev hefur unnið alla þrjá bardaga sína í UFC og klárað þá án vandræða. Sigur gegn Edwards hefði fleytt honum hátt upp í veltivigtinni en eitthvað þurfa bardagaaðdáendur að bíða eftir að hann verði nógu heilsuhraustur til að berjast.