Bjarki Ómarsson berst sinn fyrsta atvinnubardaga nú á laugardaginn. Bjarki mætir þá Mehmosh Raza (4-1) í fjaðurvigt en bardaginn fer fram á FightStar bardagakvöldinu í London.
Bjarki Ómarsson (7-4 sem áhugamaður) hefur ákveðið að taka skrefið í atvinnumennskuna. Bjarki hefur ekki barist síðan í júlí 2016 en hefur glímt við meiðsli og átt í erfiðleikum með að fá andstæðinga undanfarna mánuði.
Núna er hann loksins kominn með bardaga en í Leiðinni að búrinu segir hann frá biðinni eftir bardaga, bætingum sínum og hvers vegna hann tekur skrefið í atvinnumennskuna núna.
Fjórir Íslendingar berjast á FightStar 13 bardagakvöldinu á laugardaginn en þar af eru þrír atvinnubardagar. Bjarki Þór Pálsson er í aðalbardaga kvöldsins en hann mætir Stephen O’Keeffe um léttvigtarbelti FightStar. Ingþór Örn Valdimarsson berst á kvöldinu en hann mætir Dawid Panfill í atvinnubardaga. Bjartur Guðlaugsson mætir Rúmenanum Dario Drotar í áhugamannabardaga í fjaðurvigt. Bjarki Pétursson átti að keppa á kvöldinu en bardagi hans féll niður.