Saturday, April 20, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 218

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 218

UFC 218 fór fram í borg bílaframleiðanda, Detroit, núna um helgina. Bardagakvöldið var feykilega skemmtilegt og förum við yfir það helsta sem gerðist.

Holloway festir sig í sessi

Fáir gáfu Jose Aldo tækifæri gegn Max Holloway og reyndist það rétt mat þar sem niðurstaðan var nákvæmlega sú sama og síðast, á sömu mínútu og í sömu lotu. Bardaginn var samt spennandi enda er Aldo alltaf hættulegur, sérstaklega í fyrstu lotunum. Þrátt fyrir sömu niðurstöðu spilaðist bardaginn öðruvísi en síðast. Aldo reyndi að spara kraftana og sparkaði talsvert meira en síðast. Á endanum skipti það ekki máli þar sem Holloway náði að draga Aldo út í skothríð sem hann hreinlega réði ekki við.

Þessi bardagi markar hálfgerð kaflaskipti þar sem hann festir Holloway í sessi sem óumdeildan meistara í fjaðurvigt. Aðstæðurnar minntu á tvöfalda afgreiðslu T.J. Dillashaw á Renan Barao en um samskonar kynslóðaskipti er að ræða hér. Það er sennilega of snemmt að afskrifa Aldo enda er hann aðeins 31 árs gamall þrátt fyrir glæstan 13 ára feril í MMA. Þó verður það að teljast ólíklegt að hann nái á toppinn aftur sem gæti orðið erfitt að sætta sig við.

Stjarna er fædd

Dana White, forseti UFC, hlýtur að hafa sofið vel eftir sigur Francis Ngannou á Alistair Overeem. UFC hefur lagt mikið púður í að byggja upp þetta ógnvekjandi tröll sem næstu stjörnu og þessi bardagi var stóra prófið. Ngannou þurfti bara tæpar tvær mínútur til að fella Overeem eins og grenitré í desember. Þungavigtin í UFC er að miklu leyti gömul og brothætt og innkoma ógnvekjandi rotara á borð við Ngannou er mjög kærkomin. Næst á dagskrá virðist ætla að verða hrikalega spennandi titilbardagi á móti Stipe Miocic sem sjálfur hefur rotað fimm andstæðinga í röð, þar með talið Andrei Arlovski og Alistair Overeem. Allt í einu virkar fjarvera Cain Velasquez ekki eins ömurleg og áður.

Viðureign Ngannou og Miocic er sennilega sú mest spennandi í þungavigtinni síðan Cain Velasquez og Junior dos Santos mættust fyrst. Tveir topp þungavigtarmenn sem eru ekki orðnir of gamlir.

Stríð í léttvigt

Bardagi Justin Gaethje og Eddie Alvarez olli ekki vonbriðgum. Spörkin frá Gaehtje, skrokkhöggin frá Alvarez og hugrekki frá báðum mönnum. Þvílík fegurð. Það var gaman að sjá Alvarez næla sér í stóran sigur eftir vonbrigði gegn Conor McGregor og Dustin Poirier. Eddie Alvarez er ennþá einn af þeim allra bestu í léttvigt og hann sannaði það um helgina. Næst á dagskrá gæti verið annar bardagi gegn Poirier sem ég held að allir séu tilbúnir í enda endaði bardagi þeirra með umdeildum hætti. Gaethje þarf ekki að örvænta, hann verður kominn aftur með safaríkan bardaga innan skamms. Það verður næg eftirspurn eftir hans hæfileikum um komandi ár.

Írski drekinn vaknar

Paul Felder þurfti að ganga í gegnum taugastrekkjandi augnablik í bardaga sínum gegn Charles Oliveira. Útlitið var svart en Oliveira hafði náð Felder í gólfið strax á fyrstu sekúndum bardagans og ógnaði með D´arce hengingu. Einhvern veginn tókst Felder að lifa af og snúa vörn í sókn. Það kom kannski mest á óvart að Felder skuli ekki hafa staðið upp þegar tækifæri gafst. Þess í stað óð hann beint inn í gin ljónsins og létt höggin vaða á gólfinu. Eftir svipaða byrjun í annarri lotu gerði Felder út af við bardagann með þungum höggum og tryggði sér þar með þriðja sigurinn í röð í léttvigt og ætti að koma sér inn á topp 15 listann við næstu uppfærslu.

Bardagi kvöldsins

Þeir sem horfðu bara á aðalhluta bardagakvöldsins ættu að bregða sér á Fight Pass og horfa á bardaga Yancy Medeiros og Alex Oliveira. Bardaginn var hrein styrjöld en báðir menn voru meiddir til skiptis með tilheyrandi dramatík. Oliveira lét brotið nef ekki á sig fá og setti mikla pressu á Medeiros. Eftir nokkuð jafnan og spennandi bardaga var endirinn svolítið skrítinn en í þriðju lotu virtist Oliveira einfaldlega ekki eiga neitt eftir. Flottur sigur fyrir Medeiros sem virðist hafa smitast af velgengni félaga síns, Max Holloway.

Næsta UFC kvöld er nú á laugardaginn þegar þeir Cub Swanson og Brian Ortega mætast í geggjuðum aðalbardaga kvöldsins.

RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular