spot_img
Monday, October 7, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentLeikgreining: Miocic vs. Ngannou 2

Leikgreining: Miocic vs. Ngannou 2

Í nótt mætir þungavigtarmeistarinn Stipe Miocic höggþyngsta manninum í UFC, Francis Ngannou, í endurati sem meistarinn hefði sennilega viljað komast hjá.

Francis Ngannou hefur margsýnt að hann getur svæft hvern sem er með einu höggi og flestir sem mæta honum virðast einfaldlega hræddir við hann. Ngannou reiðir sig mikið á kraftinn og er oft frekar þungur á sér. Hann getur þó sprengt inn með miklum hraða og náð yfir langa vegalengd á stuttum tíma (sjá mynd 1).

Mynd 1

a) Ngannou stígur inn með stungu í skrokkinn og fylgir eftir b) með stórri yfirhandar hægri. Ngannou sveiflar c) vinstri og d) hægri krókum á meðan Rosenstruik bakkar og svarar með eigin gagnárásum en að lokum e) smellhittir Ngannou hökuna á Rosenstruik og f) fylgir eftir með höggum meðan Súrinaminn liggur upp við búrið.

Stipe Miocic er besti þungavigtarmaður allra tíma. Hann er þó alltaf vanmetinn og er talinn ólíklegri til sigurs af veðbönkunum enn á ný. Miocic hefur bakgrunn í ólympískri glímu og hnefaleikum og hefur frábæra stungu sem hann notar í bland við gabbhreyfingar til að setja upp högg með aftari og finna tímasetningu andstæðingsins.

Í fyrri bardaga þeirra sigraði Miocic frekar auðveldlega með höfuðhreyfingum (sjá mynd 2), fellum (sjá mynd 3) og gabbhreyfingum í bland við stungur (sjá mynd 4). Ngannou eyddi allri sinni orku í þung högg sem lentu ekki og að þurfa að standa upp undan Miocic sem gerði Kamerúnanum erfitt fyrir.

Mynd 2

a) Miocic sveigir framhjá stungu Ngannou og b&c) rúllar undir yfirhandar hægri. d) Hann rúllar svo strax undir vinstri krók sem Ngannou kastar sér úr jafnvægi við að nota og Stipe kemst út um bakdyrnar.

Mynd 3

a) Stipe beygir sig undir vinstri krók og b&c) grípur fremri fót Ngannou og nær honum niður með „single leg“.

Mynd 4

a&b) Stipe notar stungu sem gerir það að verkum að c&d) þegar hann byrjar sömu hreyfingu en það reynist vera gabbhreyfing e) bregst Ngannou við eins og meistarinn hafi kastað högginu. Þetta gerir Ngannou hikandi og f) næst þegar Miocic sækir g) bregst áskorandinn ekki við og h) étur lágspark fyrir vikið.

Hvað hefur breyst frá fyrri bardaganum?

Ngannou átti erfitt uppdráttar í sínum fyrsta bardaga eftir titilbardagann. Í einum leiðinlegasta bardaga UFC stóðu rotararnir Ngannou og Derrick Lewis og störðu hvor á annan. Síðan þá hefur Ngannou þó komist aftur í sama gamla gírinn og rotað alla í fyrstu lotu.

Því er mörgum spurningum enn ósvarað um hversu mikið Ngannou hefur bætt sig eftir fyrri bardagann. Það eru þó nokkrir hlutir sem við höfum séð frá Ngannou sem ættu að hjálpa honum í enduratinu. Hann hefur bætt við þungum lágspörkum, sem ættu að hjálpa að hægja á andstæðingum sem ná að komast undan höggunum hans, og hann virðist vera orðinn aðeins léttari á fæti. Í bardögunum gegn Velasquez og Blaydes virtist felluvörnin orðin betri hjá honum og gegn dos Santos féll hann ekki jafn harkalega við gabbhreyfingunum.

Það spilar með Ngannou að bardaginn fer fram í minna búrinu og því erfiðara fyrir Miocic að halda sig fyrir utan höggfjarlægð Ngannou. Stipe gerði þó vel í seinasta bardaga, sem var einmitt í minna búrinu, að nota hliðar hreyfingar til að koma sér frá búrinu (sjá mynd 5). Stipe er yfirleitt vel staðsettur í búrinu og gæti notfært sér minna búrið til að ýta Ngannou upp við búrið og glíma við hann.

Mynd 5

a) Stipe notar stungu og b) stígur beint til baka og í c) „shuffle step“ og d) byrjar að hringsóla til hægri en e) skiptir snöggt um átt til að koma í veg fyrir að Cormier nái að króa sig af.

Frá fyrri bardaga þeirra hefur Miocic aðeins mætt einum andstæðing – Daniel Cormier. Þeir börðust þrisvar sinnum og þrátt fyrir að hafa sigur í tvö skipti sýndi Miocic á sér veikleika sem koma sér afar illa gegn Ngannou.

Til að sigra gegn Ngannou skiptir miklu máli að vörn Stipe sé upp á sitt besta. Í bardögunum gegn Cormier átti Miocic það til að standa kyrr og skiptast á höggum, eða éta högg án nokkurra höfuðhreyfinga eða annars sem getur talist góð vörn (sjá mynd 6). Þá hlaut Miocic augnmeiðsl í öðrum bardaga sínum gegn Cormier og er því spurning hversu skörp sjónin hans er en hann vill ekki missa af neinu höggi frá Ngannou.

Mynd 6

a) Stipe notar stungu en b) stendur síðan kyrr og c) bíður eftir svarinu. Cormier svarar með stungu og d) beinni hægri sem e) nær Miocic úr jafnvægi.

Líklegt útspil bardagans

Ngannou mun líklega sækja hratt og snemma. Hann gæti byrjað á einu eða tveimur lágspörkum en mun síðan líklegast reyna að loka fjarlægðinni hratt með þungum höggum. Miocic er líklegur til að reyna að komast undir höggin og sækja í fellu en Ngannou er líklegur til að svara því með upphöggi.

Lifi Miocic af fyrstu fléttu Ngannou mun hann líklega reyna að nota gabbhreyfingar og stungu til að fá Kamerúnan til að þreyta sig með gagnhöggum eins og Stipe gerði í fyrri bardaganum. Um leið og Miocic sér opnun er hann einnig líklegur til að lækka sig undir högg Ngannou og sækja í fellur. Hvort sem hann nær Francis niður eða ekki mun Stipe líklega reyna að leggjast á Ngannou upp við búrið og nota þyngdina sína og högg í skrokkinn til að þreyta Kamerúnan.

Ngannou mun til að byrja með líklega reyna að komast upp og af búrinu á sprengikraftinum og takist það fer hann aftur í að reyna að tímasetja hvenær hann vill vaða inn sveiflandi þungu höggunum. Fari bardaginn í aðra lotu verður spennandi að sjá formið á Ngannou en hann hefur aðeins einu sinni farið í aðra lotu frá fyrri bardaganum og það var þegar hann tapaði fyrir Lewis.

Í þessum bardaga eru margar spurningar sem verður svarað. Getur Ngannou barist eftir fyrstu lotu? Er Ngannou orðinn betri í að takast á við glímumenn? Mun minna búr hamla getu Miocic til að halda fjarlægð? Þolir Miocic enn að fá í sig svona þung högg?

Þessi bardagi getur endað hvenær sem er en við ættum að finna snemma út hver mun hafa yfirhöndina.

spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular