Thursday, September 19, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentSpá MMA Frétta fyrir UFC 260

Spá MMA Frétta fyrir UFC 260

UFC 260 fer fram í kvöld þar sem þeir Stipe Miocic og Francis Ngannou mætast í aðalbardaga kvöldsins. Líkt og fyrir öll stóru kvöldin birta pennar MMA Frétta sína spá fyrir kvöldið.

Titilbardagi í þungavigt: Stipe Miocic gegn Francis Ngannou

Pétur Marinó Jónsson: Ég elska þennan bardaga og get ekki beðið eftir að sjá hvað gerist. Francis Ngannou er með svo magnaða sögu á bakvið sig að það er ekki hægt annað en að halda smá með honum. Hann er örugglega einhver mesti freak athlete sem við höfum séð í MMA og er ég aldrei eins spenntur að sjá hvað gerist eins og þegar hann berst. Hann hefur klárlega bætt sig sem bardagamaður síðan hann fékk fyrst titilbardaga og er mun reyndari en hann var fyrst þegar þeir mættust. Að sögn þjálfara hans hafa þeir unnið mikið í felluvörninni og glímunni hans í það heila en spurning hvort það sé nóg?

Ngannou er líka með svo ótrúlega langar hendur og virðist geta rotað menn úr ótrúlegustu vinklum. Fyrir utan bardagana gegn Jairzinho og fyrri bardagann gegn Stipe hefur hann aðallega setið til baka og leyft andstæðingnum að koma. Það væri sniðugt í kvöld í stað þess að elta Stipe og þreytast of fljótt eins og gerðist í fyrri bardaganum. Hann er líka farinn að sparka meira og gæti það verið ný breyta í þennan áhugaverða bardaga.

Það má samt ekki gleyma að Stipe er besti þungavigtarmaður allra tíma og hann er með fullt af vopnum í vopnabúrinu. Hann er alltof oft vanmetinn (þar á meðal af mér) og sýndi það í fyrri bardaganum að hann getur verið rólegur þó risa rándýr sé á eftir honum. Ngannou mun alveg örugglega ekki hlaupa á eftir Stipe eins og hann gerði í fyrri bardaganum en Stipe á klárlega eftir að reyna að taka Ngannou niður eins og í fyrri bardaganum. Hausinn segir Stipe og það er erfitt að spá gegn honum.

Stipe er orðinn eldri, fór þrisvar í stríð við Daniel Cormier (og var rotaður einu sinni) og ég hreinlega veit ekki hvort hann geti staðið þessar bombur af sér frá Ngannou í dag. Það er erfitt að rýna í þennan bardaga þar sem þetta er þungavigt og eitt högg breytir öllu. Við höfum ekki heldur séð þessar bætingar hjá Ngannou sem þjálfararnir hafa talað um en ég ætla samt að spá Ngannou sigri. Ngannou mun hitta í 1. lotu og í stað þess að leyfa Miocic að taka sig strax niður eftir hvert þungt högg eins og í fyrri bardaganum þá nær Ngannou að stöðva felluna. Ngannou með TKO í 1. lotu.

Óskar Örn Árnason: Þetta er ekki auðvelt. Við erum með algjört skrímsli sem er búinn að rota fjóra mjög góða gæja í röð, sem er búinn að bæta sig stöðugt og vinna í glímunni eins og óður maður. Svo erum við með mögulega besta bardagamann allra tíma í þungavigt sem vann fyrsta bardagann með yfirburðum en er samt aftur underdog. Frekar óvenjuleg staða. Það þarf auðvitað bara eitt gott högg frá Francis að strjúka hnakkann á Stipe og bardaginn er búinn en hvað er líklegast í stöðunni? Miðað við hvað fyrsti bardaginn var einhliða get ég ekki annað en tekið Stipe. Glíma er ekki eitthvað sem maður lærir sí svona á tveimur árum. Stipe tekur þetta á stigum eða jafnvel TKO í síðari lotum.

Guttormur Árni Ársælsson: Þvílíkur bardagi! Vinir mínir sem vita ekki neitt um MMA eru peppaðir fyrir þessum. Það er engin spurning að Ngannou er auðvitað með sturlað power og hefur bætt sig frá síðsta bardaga. Hins vegar held ég að Stipe sé mjög erfitt matchup fyrir hann – endalaus gastankur og gefur ekki mörg færi á sér. Stipe er að öllum líkindum GOAT í þungavigt og ég get ekki spáð gegn honum. And still eftir dómaraákvörðun.

Sævar Helgi Víðisson: Hef alltaf verið smá á móti Ngannou, þetta er bara ekki rétt að maður með mjög takmarkaða tækni geti verið bestur í heimi. Ég verð eiginlega bara pirraður þegar ég sé hann berjast og ennþá pirraðri þegar hann vinnur. Þetta hefur þá líklega mjög mikil áhrif á þá skoðun mína að Stipe taki hann um helgina. Þetta snýst allt um fyrstu lotuna, takist Stipe að lifa hana af er hann í góðum málum en það er alls ekki auðvelt. Einnig er ég ekki að kaupa það að Ngannou sé búinn að bæta sig mikið síðan í fyrri bardaganum. Eftir þann bardaga hætti hann að æfa í MMA Factory og fór að vera meira með Dewey Cooper sem ég tel að sé alls ekki leiðin til að vinna Stipe. Stipe vinnur með KO/TKO í 3. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Þessi verður svakalegur. Stipe kom inn léttur svo ég geri ráð fyrir miklum hliðarhreyfingum og höfuðhreyfingum undir stóru sprengjurnar, stunga og gabbhreyfingar. Allt til að þreyta risann. Ég býst við að við komumst snemma að því hvort hann þoli enn sprengjurnar en hann hefur ekki jafn mikið rými til að vinna með og seinast og samt náði Ngannou honum nokkrum sinnum þá. Ég býst við betri felluvörn frá Ngannou, lágspörkum, meiri þolinmæði og að hann falli ekki jafn hart fyrir gabbhreyfingunum. Ég held að hann nái Stipe í lok fyrstu lotu og að meistarinn jafni sig ekki. Ngannou KO 1. lota

Stipe Miocic: Óskar, Guttormur, Sævar
Francis Ngannou: Pétur, Brynjólfur

Veltivigt: Tyron Woodley gegn Vicente Luque

Pétur Marinó Jónsson: Tyron Woodley er einn mest þreytandi bardagamaður UFC. Svona á pappírum þá á Woodley 100% að vinna Vicente Luque. Þetta er fyrrum meistari sem ætti að geta wrestlað við Luque og unnið nokkuð þægilega með fullri virðingu fyrir Luque. Woodley hefur samt verið svo ótrúlega hikandi í síðustu bardögum að ég get hreinlega ekki tippað á hann. Þrátt fyrir yfirlýsingar hans um að hann sé nýr bardagamaður og bla bla bla þá trúi ég bara ekki orði sem hann segir. Ég býst við að hann verði áfram jafn frosinn eins og í síðustu bardögum og bakki endalaust að búrinu bíðandi eftir að finna tækifæri fyrir þessa beinu hægri sína. Sumir segja að hann sé enn að bíða eftir opnun fyrir þessa beinu hægri gegn Kamaru Usman.

Eini munurinn hér og í síðustu bardögum Woodley er að Luque mun örugglega ekki reyna að taka Woodley niður. Það mun kannski gera þetta betra fyrir Woodley þar sem hann mun ekki þurfa að hafa áhyggjur af því líka. Ég get samt ekki tippað á Woodley og segi að Luque taki þetta eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Þvílíkt fall from Grace fyrir Woodley. Gæinn er meistari, gefur út lagið I´ll Beat Your Ass og hefur svo bara tapað síðan. Að vísu voru töpin fyrir þeim bestu en það er ekki bara að hann hafi tapað, heldur hvernig. Þetta virðist fyrst og fremst andlegt en ég held að hann muni aldrei ná sér á strik aftur. Luque er ekki topp fimm gaur en hann er samt mjög góður og ætti að vinna Woodley nokkuð sannfærandi. Ég segi Luque vinnur, TKO í annarri lotu og Woodley rekinn úr UFC.

Guttormur Árni Ársælsson: Woodley virðist alveg sprunginn greyið. Það er eins og hann hafi gleymt hvernig á að sækja og er örugglega ragasti bardagamaður í UFC í dag. Luque sigrar á stigum.

Sævar Helgi Víðisson: Þetta gæti vel verið seinasti bardagi Woodley í UFC þar sem hann er búinn að tapa þremur í röð og litið mjög illa út. Þessir þrír bardagamenn sem hafa unnið hann hafa þó allir verið góðir glímumenn sem Luque er ekki. Held þó að Luque taki þetta þar sem Woodley er alls ekki góður. Það er alltaf séns að hann lendi einhverri bombu en annars er Luque að fara vinna. Luque er mjög góður að klára andstæðinga sína en það er mjög erfitt að klára Woodley. Luque eftir dómaraákvörðun.

Brynjólfur Ingvarsson: Þetta er spurningin hversu sprunginn Woodley er. Við vitum að góðir wrestlerar með mikla pressu fara í gegnum hann eins og heitur hnífur í gegnum smjör en Luque er mjög ólíkur seinustu þremur andstæðingum Woodley. Ég held samt að Woodley sé orðinn of hræddur við að taka í gikkinn og að aldurinn hafi náð honum þannig hann geti ekki lengur reitt sig á sprengikraftinn. Luque eftir dómaraákvörðun.

Tyron Woodley: ..
Vicente Luque: Pétur, Óskar, Guttormur, Sævar, Brynjólfur

Bantamvigt: Sean O’Malley gegn Thomas Almeida

Pétur Marinó Jónsson: Sean O’Malley hrapaði illa í sínum síðasta bardaga og þá sérstaklega hvernig hann tók tapinu með ýmsum ummælum. Hann virðist vera að stíga aðeins varlegra til jarðar þessa dagana en hans bíður verkefni sem gæti hentað honum vel. Ég batt miklar vonir við Thomas Almeida á sínum tíma og hélt hann myndi ná lengra en hann virðist bara ekki vera með höku til að fara lengra. Hann er einnig mjög lélegur varnarlega og fær alltof mikið af höggum í sig. O’Malley er langur og með hnitmiðuð högg og það hentar vel gegn Almeida enda vinna bein högg króka. Hann á að geta rotað hann. En það veitir ekki á gott að í fimm bardögum í UFC hefur O’Malley tvisvar ekki getað gengið sjálfur úr búrinu. Það eina sem ég sé Almeida geta gert er að byrja snemma að negla í kjúklingaleggina hans O’Malley og þá er aldrei að vita hvað gerist. Ætla samt að tippa á að O’Malley roti Almeida bara í 1. lotu þar sem ég get ómögulega treyst hökunni hans Almeida.

Óskar Örn Árnason: Úú þessi verður skemmtilegur og nánst öruggt að hann fari ekki í stig….sem þýðir auðvitað að hann fer í stig. Almeida var auðvitað vonarstjarna en hefur tapað núna fjórum af síðustu fimm bardögum. O’Malley á klárlega að vinna þennan bardaga, sérstaklega eftir vonbrigðin gegn Marlon Vera. Almeida er hættulegur en ef O’Malley er eins góður og hann vill meina á hann að taka þetta nokkuð örugglega. O’Malley rotar Almeida í fyrstu.

Guttormur Árni Ársælsson: Þetta gæti hæglega orðið bardagi kvöldsins. Örfá ár síðan að Almeida var taplaus og ein skærasta vonarstjarna UFC. Núna er hann 1-4 og að berjast fyrir lífi sínu. Ég segi að Almeida sigri þetta óvænt með fljúgandi hné.

Sævar Helgi Víðisson: O’Malley hefur tvisvar í seinustu fjórum bardögum slasast í löppunum. Þannig að það er hægt að setja stór spurningarmerki við það hvort að lappirnar á honum geti tekið spörk. Fyrir utan þetta er O’Malley betri á öllum sviðum. Almeida er gamaldags brasilískur striker sem bara gengur ekki upp 135 pundum í dag. Hann er ekki með góða fótavinnu né höfuðhreyfingar, eina sem hann gerir er að henda í króka. Þetta hentar O’Malley mjög vel og ætti hann að geta komið með svipaða frammistöðu og Cody Garbrandt var með á móti Almeida þar sem hann lenti nánast hverju einasta höggi. O’Malley með KO/TKO í 1. lotu.

Brynjólfur Ingvarsson: Hér er spurningin einfaldlega hvort kjúklingaleggirnir á O’Malley þoli einhver spörk. Ég held að hann hafi bætt sig í að takast á við þau og sé ekki fyrir mér Almeida ná að loka fjarlægðinni. Hann falli fyrir gabbhreyfingunum og þoli ekki höggin frá Suga. O’Malley TKO 1. lota

Sean O’Malley: Pétur, Óskar, Sævar, Brynjólfur
Thomas Almeida: Guttormur

Fluguvigt kvenna: Gillian Robertson gegn Miranda Maverick

Pétur Marinó Jónsson: Gillian Robertson getur verið mjög öflug en hefur stundum verið frekar slök. Hún er rosalega misjöfn og á sína góðu spretti en líka slæma kafla þar sem hún er flöt og sækir lítið. Miranda Maverick er mjög efnileg í fluguvigtinni og verður gaman að sjá hve langt hún fer. Robertson er að mínu mati aðeins betri en get ekki treyst því að hún sýni það nógu mikið til að vinna. Tippa á að Maverick vinni eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Robertson er erfitt próf fyrir hina 23 ára Maverick sem leit vel út í frumrauninni í október. Robertson er sterk í glímunni og stoppaði t.d. Maycee Barber í ekki ósvipuðum bardaga. Maverick er mjög efnileg en Robertson er með níu UFC bardaga á bakinu og getur glímt eins og skógarbjörn. Robertson á stigum.

Guttormur Árni Ársælsson: Maverick er ung og óreynd, Robertson reyndari, með svart belti í jiu-jitsu og 6 af 9 sigrum eftir uppgjafartak. Robertson með rear naked choke í fyrstu lotu.

Sævar Helgi Víðisson: Maverick er eitt mest spennandi efnið í UFC þessa dagana. Hún átti mjög sannfærandi fyrsta bardaga í UFC og er núna mætt í sinn annan bardaga þar sem hún mætir Robertson sem er í rauninni fullkomið fyrir hana þar sem við höfum séð hana ​brotna undan pressu og styrk. Sem er nákvæmlega það sem Maverick er að fara gera. Það er ennþá nóg af sætum á Maverick lestinni en hún mun fara á flug fljótlega. Maverick með KO/TKO í 2.lotu. 

Brynjólfur Ingvarsson: Ég geri ráð fyrir að reynslan skili Robertson þessum og Maverick gefist upp eftir smá mótlæti. Robertson með uppgjafartak í 2. lotu.

Gillian Robertson: Óskar, Guttormur, Brynjólfur
Miranda Maverick: Pétur, Sævar

Léttvigt: Jamie Mullarkey gegn Khama Worthy

Pétur Marinó Jónsson: Ekkert sérstaklega impressed af hvorugum og þá sérstaklega ekki Mullarkey. Mullarkey er 0-2 í UFC og hefur mér ekki fundist mikið til hans koma í þessum tveimur bardögum. Honum gekk illa að taka Fares Ziam niður og er ekkert sérstakur standandi að mínu mati. Khama Worthy er þokkalega höggþungur en lætur ótrúlega oft klára sig með höggum sem er ansi magnað. Maðurinn er með 7 töp og þar af eru 6 rothögg! Finnst Mullarkey bara ekki vera nógu góður fyrir UFC og tippa á að Khama Worthy vinni eftir dómaraákvörðun.

Óskar Örn Árnason: Báðir þessir geta slegið svo þetta ætti að vera gaman. Ég held að Worthy sé efnilegri, tek hann á TKO í annarri lotu.

Guttormur Árni Ársælsson: Báðir mjög agressívir og þetta gæti orðið hörku bardagi. Ég býst við að Mullarkey muni leita að fellunni og ég spái því að hann nái henni. Worthy er með 58% felluvörn og var tekinn niður þrisvar af Luis ‘Violent Bob Ross’ Pena. Mullarkey sigrar þetta á stigum.

Sævar Helgi Víðisson: Worthy er svona kill or be killed bardagamaður en samt er Mullarkey líklega að fara taka þetta á stigum eftir að hann nær nokkrum fellum. Það er vel hægt að klára Worthy og hefur hann verið rotaður sex sinnum. Einnig er hann með mikið power þannig hann á alltaf séns. En segjum Mullarkey eftir dómaraákvörðun

Brynjólfur Ingvarsson: Worthy mun lemja of fast fyrir Mullarkey sem mun taka illa tímasett skot og vera laminn eins og harðfiskur milli þess sem Worthy sprawlar á hann. Worthy TKO 2. lota.

Jamie Mullarkey: Guttormur, Sævar
Khama Worthy: Pétur, Óskar, Brynjólfur

Heildarstig ársins:

Brynjólfur: 9-5
Óskar: 9-5
Sævar: 8-6
Pétur: 7-7
Guttormur: 7-7

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular