Friday, June 14, 2024
spot_img
HomeErlentÞjálfari Francis Ngannou: Áhersla á felluvörn á hverjum einasta degi

Þjálfari Francis Ngannou: Áhersla á felluvörn á hverjum einasta degi

UFC 260 fer fram á laugardaginn þar sem þeir Francis Ngannou og Stipe Miocic mæta. Stærsta spurningamerkið fyrir helgina er hvort Francis Ngannou geti stöðvað fellurnar hjá Stipe Miocic.

Þungavigtarmeistarinn Stipe Miocic sigraði Francis Ngannou í janúar 2018. Miocic tók Ngannou niður í öllum lotum bardagans og átti áskorandinn fá svör við fellunum. Síðan þá hefur Ngannou unnið sig upp í annan titilbardaga og mætir Miocic annað kvöld.

Ngannou æfir í dag hjá Xtreme Couture í Las Vegas en Ngannou æfði fyrst þar 2017. Í fyrstu æfði Ngannou bæði hjá MMA Factory í París og hjá Xtreme Couture en hann hefur nú sest að í Las Vegas og hefur því sagt skilið við MMA Factory. Yfirþjálfarinn hans í dag er Eric Nicksick hjá Xtreme Couture og segir Eric að Ngannou hafi bætt sig gríðarlega á síðustu árum.

„Francis skilur það núna að þú ert ekki að fara að slátra öllum á nokkrum sekúndum. Á þessu getustigi eru andstæðingarnir snjallari í búrinu. Í fyrri bardaganum gegn Stipe hélt Francis að hann myndi bara vaða yfir Stipe, rota hann og taka beltið eins og hann hafði gert við alla. En því miður fyrir Francis þá var hann að berjast við Stipe Miocic, sem er sennilega einn besti þungavigtarmaður allra tíma. Það er ekkert svona auðvelt gegn honum, það er ekki þannig á þessu getustigi,“ segir Eric við MMA Fighting.

Eftir tapið gegn Miocic mætti Ngannou Derrick Lewis. Það var einn versti bardagi í sögu UFC og gerði Ngannou nánast ekkert í bardaganum. Síðan þá hefur hann heldur betur rifið sig upp og unnið fjóra bardaga með rothöggi í 1. lotu. Ngannou byrjaði á að rota Curtis Blaydes eftir 45 sekúndur, svo rotaði hann Cain Velasquez eftir 26 sekúndur, svo Junior dos Santos eftir 71 sekúndu og nú síðast rotaði hann Jairzinho Rozenstruik eftir 20 sekúndur.

„Eftir bardagann gegn Junior dos Santos þá ræddum við saman um veikleika Francis. Hvar Francis er ekki nógu góður og hvar er hægt að bæta sig. Við einblíndum mikið á að tikka í öll boxin.“

„Ég sagði honum að þó hann kýli bara einu sinni í öllum æfingabúðunum þá mun hann samt vera mjög höggþungur í bardaganum. Við settum því allan fókus á hvar Francis líður ekki vel og að bæta sig þar. Til dæmis þá fannst Francis þolið ekki nógu gott og þá lögðum við mikla áherslu á að bæta það.“

Mikið hefur verið rætt um felluvörnina hjá Ngannou og spurning hvort Ngannou takist að stöðva fellurnar á laugardaginn. Eric segir að Ngannou hafi bætt sig gríðarlega þar á síðustu árum.

„Við urðum líka að glíma á hverri einustu æfingu. Það er ekki þannig að einn daginn erum við að sparra og þann næsta erum við að kýla í púða. Þetta er MMA. Á hverri einustu æfingu var fókusinn á að verjast fellum. Þar að auki lögðum við áherslu á fellur Francis líka. Þú verður að geta sótt líka í glímunni og það er jafn mikilvægt og góð felluvörn.“

„Það hljómar ógnvænlega en hann er að taka gæja niður á æfingum og hamra á þeim. Hann er farinn að sjá að hann getur notað fellurnar sjálfur og sér fleiri leiðir til sigurs heldur en áður.“

Það verður áhugavert að sjá hvernig glíman mun þróast í bardaganum á laugardaginn. Ngannou er með ótrúlegan höggþunga en það er ástæða fyrir því að Stipe Miocic er ríkjandi meistari.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular