spot_img
Wednesday, December 18, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaLeikgreining: Gunnar Nelson vs. Bryan Barberena

Leikgreining: Gunnar Nelson vs. Bryan Barberena

Á laugardagskvöld stígur Gunnar Nelson aftur í búrið. Gunnar berst við hinn fjöruga Bryan ‘Bam Bam’ Barberena sem á aldrei leiðinlegan bardaga. Þrátt fyrir að vera með mjög ólíka stíla á hvorugur þeirra leiðinlegan bardaga og má því gera ráð fyrir miklu fjöri í búrinu.

Gunnar Nelson berst í löngum karate stíl og fórum við vel yfir stíl hans í leikgreiningu fyrir síðasta bardaga hans gegn Sato. Þar sýndi hann góðar fellur og stjórn í gólfinu auk þess að lenda góðum höggum sem Sato hafði engin svör við.

En fótavinnan brást honum á stundum og sáum við Gunna oft pressaðan við búrið og þá fann hann sig án pláss til að geta bakkað. Í eitt skiptið varð það til þess að hann datt næstum því um búrið. Gegn Barberena verður hann að passa staðsetninguna í búrinu þar sem aðal vörnin hjá Gunnari er að stjórna fjarlægð. Ef að hann er kominn upp við búrið getur hann ekki bakkað meira og þá er hættan að Barberena ná að lenda fléttu. Liðið er þó ár frá síðasta bardaga og því verður áhugavert að sjá hvort og þá hvaða breytingar Gunni hefur gert.

Mynd 1: Gunni vill ekki bakka of mikið að búrinu gegn Barberena.

Barberena sýnir sína bestu takta standandi og berst úr örvhentri stöðu. Gunni hefur mikið barist við örvhenta andstæðinga og 3 af seinustu 4 andstæðingum hans barist úr örvhentri stöðu. Barberena er með þungan fremri krók og gott fremri fótar lágspark. Það hentar honum vel gegn Gunna þar sem karate staðan er almennt talin verri í að takast á við lágspörk sem koma utan á fótinn.

Barberena berst einnig vel í „clinchinu” og þarf Gunni að passa sig mikið á olnbogum ‘Bam Bam’. Gunni er með góðar fellur en Barberena hefur ágætis felluvörn. Styrkleiki Barberena er þó meira í því að standa aftur upp eftir að andstæðingurinn nær honum niður.

Mynd 2: Barberena er með hættulega olnboga í „clinchinu” sem Gunni þarf að passa sig á.

Nái Gunni Barberena niður myndu flestir segja bardaganum lokið en Barberena er duglegur að koma sér aftur upp. Til þess að koma sér upp kemur hann sér á hnén upp við búrið og mun Gunni því geta ógnað bakinu á Barberena en þar verður baráttan um hvort Barberena nái að klessa sig alveg við búrið eða hvort Gunni nái að koma sér á milli Barberena og búrsins til að komast alveg fyrir aftan hann.

Mynd 3: Barberena reynir að nota búrið til að standa upp en dos Anjos nær að komast milli hans og búrsins.

Það stefnir í fjörugan bardaga milli mjög ólíkra stíla. Ef Gunni fær sínu fram verður bardaginn tæknilegur og hann nær að stökkva á tækifærin þegar þau skapast þar til hann nær að lokum að klára bardagann. En því meira sem skipst verður á höggum og því meira stríð sem þetta verður, því líklegra er að Barberena nái yfirhöndinni. Við hvetjum alla til að horfa og styðja okkar mann.

UFC 286 verður í beinni á Viaplay og hefst bein útsending kl. 21:00.

spot_img
spot_img
spot_img
Brynjólfur Ingvarsson
Brynjólfur Ingvarsson
- Brúnt belti í brasilísku jiu jitsu - Keppnisreynsla í MMA - Keppnisreynsla í hnefaleikum - Svart belti í Taekwondo
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular